151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og auðvitað vakna fleiri og fleiri spurningar. En fyrsta spurningin er auðvitað: Hvað er það sem veldur? Ef ég skil rétt eru íslenskir nemar eldri þegar þeir hefja háskólagöngu eða annað lánshæft nám og eru lengur í námi. Það er eiginlega hálfgerður vítahringur, get ég ímyndað mér, að þurfa að framfæra sjálfan sig á 180.000 kr. á mánuði, einn einstaklingur. Það kallar jafnvel á að hafa áhyggjur af fjárhagnum endalaust og hlýtur þá að hafa áhrif á andlega heilsu námsmanna, það getur gert það, að vera í þessari spennitreyju. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að stærsta málið voru ábyrgðarmenn lána þegar við ræddum menntasjóðinn og hann var samþykktur hér. Það var stærsta málið. Ég man eftir að við fengum námsmenn til okkar á fund í nefndinni og þeir gerðu vel grein fyrir sínum málum. En ég er aðallega núna að velta fyrir mér þessum vítahring, að byrja seinna í námi og vera lengur í námi og hvaða áhrif það hefur að vera alltaf í þessari spennu og hafa áhyggjur af fjárhagnum samhliða því þurfa að ná næsta prófi til að fá eitthvað út úr lánunum.