151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:50]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Þetta eru fínar umræður hér, svo sannarlega. Það er ekki oft sem okkur gefst tími til að fara svona ofan í málin. En þetta er mjög gott. Það sem ég ætlaði að tala um í þessari ræðu eru sérstaklega þeir hópar sem skildir eru eftir í því úrræði sem við erum að ræða hér í dag. Úrræðið virkar mjög vel fyrir íþróttafélög en það sem snýr að æskulýðsstarfi er aftur á móti skilið eftir. Við fengum upplýsingar í pósti í desember á síðasta ári, ef ég man rétt, frá KFUM og KFUK, þar sem okkur var bent á að æskulýðsstarfið sem stæði utan við íþróttahreyfingarnar væri um 20–25%. Það má reyna að setja þetta fram í einhverri kaldhæðni og segja að ef þessir aðilar væru íþróttafélög hefðu þeir fallið undir þetta úrræði sem hér er til umræðu.

Ég mun leggja fram breytingartillögu sem tekur utan um æskulýðsstarfið vegna þess að mér finnst, eins og hefur komið fram hér í dag í nánast flestum ræðum, að það sé réttlætismál að taka alla undir og sérstaklega þegar við erum ekki að tala um þetta til lengri tíma. Það mætti svo mín vegna meta ávinninginn af því, þ.e. hvað þetta nær til margra barna sem ekki stunda skipulagt íþróttastarf. Þetta er auðvitað mismunun og það er dálítið hjákátlegt. Það er eins og þetta hafi hreinlega gleymst því að það eru frekar mörg börn sem ekki finna sig í hefðbundnu íþróttastarfi en finna sig vel í skátastarfi eða æskulýðsstarfi eins og hjá KFUM og KFUK. Með því að skilja eftir þennan hóp erum við í rauninni að gefa merki um að þetta starf skipti ekki máli og þessi börn eigi ekki að búa við sömu tækifæri og þau sem stunda skipulagt íþróttastarf, til að komast í gegnum þessa síðustu metra núna, ég vil leyfa mér að segja það. Það horfa allir fram til bjartari tíma og vonandi gengur það nú allt eftir. En ef við ætlum að gera þetta þá verðum við að gera þetta rétt og vel þannig að allir geti notið.

Ég minntist aðeins á andlega heilsu fyrr í dag og ég held að það skipti mjög miklu máli að við tökum alvarlega þær vísbendingar sem við lesum um og heyrum um í fréttum og ýmsum miðlum um að andlegri heilsu barna og ungmenna fari hrakandi. Nú þegar flestir sjá til sólar þá virkar það stundum öfugt á þá sem ekki ná að líta svo hátt upp. Það skiptir mjög miklu máli að við tökum okkur til núna og grípum öll þessi börn.

Við fengum umsagnir um málið og það er kjörið að líta aðeins aftur yfir þessar umsagnir og hugsanlega hefði verið æskilegt að gera það á fyrri stigum. En það hafa ekki beint verið góð hlustunarskilyrði varðandi þessi mál. Það á einhvern veginn að drífa þetta mál bara í gegn en þetta er ekki nógu gott. Svo getum við náttúrlega enn og aftur rætt um námsmenn. Það er eiginlega algjörlega fáránlegt að þeir séu ekki innan atvinnuleysistryggingakerfisins og það á ekki bara við núna, það á bara við almennt. Ef tekin eru gjöld af launum námsmanna í þann pott þá á auðvitað að sjá til þess að þeir njóti þess. Þetta er snúið en við getum alveg vandað okkur. En það skortir á vilja meiri hluta hér á þingi til að fara í það þannig að við erum stödd þar sem við erum núna en reynum þó alla vega að leggja fram breytingartillögur, sem gagnast bæði námsmönnum og æskulýðsstarfi.