151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[20:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu minni fyrr í kvöld var ég aðeins að velta upp hugmyndum um það hvort vinna væri í rauninni eitthvað sem við ættum endilega að vera að neyða fólk í í öllum tilfellum og spunnust miklar umræðu þar af. Af því að hv. þingmaður nefnir í sinni ræðu að námsmenn ættu að geta fengið atvinnuleysisbætur, sem ég er að einhverju leyti sammála, þá velti ég því fyrir mér hvort það sé jafnvel ekki röng spurning. Að mínu mati ætti þetta ekki að standa og falla með atvinnuleysisbótakerfinu heldur ætti það að snúast um að væntanlega viljum við sem samfélag að námsmenn geti verið bara nokkuð efnahagslega öruggir á meðan þeir einbeita sér að náminu sínu. Við erum náttúrlega með námslánafyrirkomulag og einhver hluti af því getur breyst í styrk. En myndi hv. þingmaður geta tekið undir þá hugmynd, eða lýst afstöðu sinni til þeirrar hugmyndar, að reyna einhvern veginn að stokka upp í þessu þannig að það sé ekki bara námslán, hluti af því annaðhvort sem styrkur eða atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn, heldur bara gott öflugt stuðningsnet fyrir námsmenn á meðan þeir eru í námi til að þeir geti einbeitt sér að náminu? Við vitum að það hefur góð efnahagsleg áhrif síðar meir.