151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[20:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég hef verulegar áhyggjur af því að við séum almennt að ganga allt of langt í því að hafa vit fyrir fólki. Við gerum það meira að segja í málum þar sem ekki eru neinir almannahagsmunir undir. Í þessu tilfelli líta menn greinilega svo á, við getum kallað það sérfræðinga eða vísindamenn, kannski af því að við erum svo brennd af hruninu, að slíkir þjóðhagslegir hagsmunir séu undir í því að ekkert fari úrskeiðis í fjármálakerfinu. Þess vegna er verið að takmarka frelsi í því. Sömu áhyggjur hef ég núna af því að við séum einfaldlega að ganga mjög langt í sóttvörnum. Við erum svolítið brennd og heimurinn allur af því. Þá verður alltaf auðveldara fyrir stjórnvöld og löggjafann að takmarka frelsi einstaklinga, alltaf þegar koma upp svona aðstæður, bankahrun, Covid o.s.frv. En það er alveg rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir því að við getum öll eignast þak yfir höfuðið. Við teljum að eignarrétturinn sé svo mikilvægur fyrir velferð þjóðarinnar. Það skiptir máli fyrir velferð almennings að allir geti eignast þak yfir höfuðið. Það gerir líka efri árin auðveldari. En þarna liggja bara þessir þjóðhagslegu hagsmunir undir, að ekki verði gengið svo langt í frelsinu að við getum kollvarpað okkar efnahagskerfi.