151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[21:52]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum algerlega sammála um að þetta er stórt mál og mjög viðamikið. Það er grundvallarmál um framtíð okkar hérna á Íslandi og jafnvel loftslagsmál, eins og þingmaðurinn kom inn á. En spurning mín var, eins og kom fram í ræðu þingmannsins, um álitamál sem voru kannski ekki leidd í jörð í þessari vinnu, hvort ekki hefði mátt vinna þau mun betur. Og varðandi fjölda funda þar sem þetta mál var rætt, ég man ekki eftir því að þeir hafi verið neitt gríðarlega margir, þeir fundir. Það kom mjög mikið af umsögnum, það er alveg rétt, en ég upplifði það ekki að við værum með tæmandi úrvinnslu í nefndinni. Við sitjum í minni hlutanum, ég og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, sem er hér með minnihlutaálit, þannig að við komum ekkert mikið að því að klára þetta mál eins og meiri hlutinn getur gert.

En ég segi að málið hefði þurft að koma inn fyrr og vinnast miklu betur. Ég skil ekki af hverju ekki mátti gera það, af hverju ekki var tekinn miklu meiri tími í það, því að við erum alveg sammála um að þetta er mjög viðamikið mál um framtíð okkar, þetta stóra innviðamál sem hefði þurft að vinna mun betur. Það eru töluvert mörg atriði í þessu sem voru leidd í jörð en það eru líka töluvert mörg atriði, eins og þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni, sem hefðu þurft að fá meiri tíma til betri úrvinnslu. Það er það sem ég er að benda á í þessu andsvari mínu.