151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[22:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum mjög oft sammála, ég og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson, við erum miklir áhugamenn um raforkumál á okkar ylhýra ástkæra landi. Þessi ábending eða upprifjun, að við framleiðum þetta mikið á hvert mannsbarn, er gleðiefni og sýnir að við stöndum okkur og við höfum náttúrlega tækifæri líka orkulega séð til þess að framleiða raforku. En ég verð samt sem áður að segja það að okkur hefur ekki gengið vel að tryggja afhendingaröryggi raforku eins og mér hefði fundist að hægt hefði verið að gera fyrir nokkuð mörgum árum. Allt í einu dettur mér í hug þriggja fasa rafmagn í sveitir, það er nú reyndar langt komið núna, en þegar ég var ungur rafvirki fyrir margt löngu var talað um að það væri alveg að detta í hús eða detta í gang. En einhverra hluta vegna, sennilega vegna þess að þá voru nýlegar eins fasa línur víða um sveitir og það var talað um að nýta þær og láta þær renna út á tíma, og þess vegna þurftu bændur, sérstaklega þeir sem voru háðir mótorum, þriggja fasa mótorum, að breyta þeim og búa til alls konar búnað til að geta unað við þetta. Þetta er eitthvað sem ég áttaði mig ekki á þeim tíma. Þetta hefur gengið í rétta átt en það sem ég vil árétta er að mér finnst þetta hafa gengið allt of hægt af því að við höfum haft nógan tíma og vilja til að klára þetta fyrr til að efla byggðir landsins.