151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[13:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í þingflokki Samfylkingar styðjum framlengingu þeirra úrræða sem hér er um að ræða. Það hefði þó verið ákjósanlegt ef við hefðum fengið einhver gögn á borðið fyrir framan okkur við vinnslu málsins um það hvernig tekist hefur til með þessi úrræði. Í dag kom fram skýrsla um að af 1.000 störfum sem sköpuðust með sérstöku átaki ríkisstjórnarinnar hafi um 900 verið karlastörf og um 100 kvennastörf. Við höfum það fyrir framan okkur að konur og fólk af erlendum uppruna er sá hópur sem missti störfin sín, enda mikið til þjónustustörf, í kórónuveirufaraldrinum. Það er oft gott að hugsa örlítið fram fyrir sig þegar maður er að fara í stórar aðgerðir og ég hvet ríkisstjórnina til að gera slíkt.