151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann virðist ekki hafa hlustað á það sem ég spurði hann um. Hann segist vera á móti klámvæðingu og vera á móti refsingum. En þingmaðurinn er ekki á móti klámvæðingu, hann vill leyfa klám. Þetta er ekki í fyrsta sinn, frú forseti, sem þessi ágæti þingmaður stígur hér á stokk og skilur öll mál miklu betur en bæði fúll á móti og allir hinir. Það er eftirsjón að því að missa svona þingmann af þingi sem hefur yfirburðaskilning á mjög mörgum málum og getur þá leitt þá villuráfandi á rétta braut.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Fyrst hann vill leyfa klám og telji að það að leyfa klám hafi engin áhrif á framboðið, kjör þeirra sem vinna við slíkt og þurfa að gera það og verða að gera það, eru píndir til þess, vill hv. þingmaður þá leyfa allt klám, þar með talið t.d. barnaklám? Vegna þess að mansal er ekki bundið við 18 ára plús. Mansal nær alveg niður í kornabörn og klámiðnaðurinn spyr hvorki um stétt, stöðu né aldur. Þannig að þá verð ég að spyrja hv. þingmann, fyrst hann vill leyfa klám og segir að það sé jafnvel eina leiðin til að vinna bug á því eða geri málið ekki verra en það er, hvort þessi fyrirhugaða aflétting klámbanns innifeli af hans hálfu barnaklám.