151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er sjálfur pínulítið ringlaður yfir stöðunni. Ástæðan er tímalínan í löggjöfinni. Í lok greinargerðarinnar er fjallað um það að skv. 74. gr. almennra hegningarlaga sé tiltekið að refsiábyrgð sé ekki til staðar þegar fólk er neytt til verknaðar. Þegar ég les lögin sýnist mér það vera í lagi. En vandinn er sá að þessi klausa er frá árinu 2009. Í greinargerðinni er fjallað um þessa 74. gr. almennra hegningarlaga frá 2009 og 26. gr. Evrópuráðssamningsins um aðgerðir gegn mansali og síðast en ekki síst um 146. gr. laga um meðferð sakamála þar sem fram kemur að ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum, eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því að fallið sé frá saksókn, að almannahagsmunir krefjist þess, þá krefjist það ekki málshöfðunar. Ef ég les þetta bara svona þá sýnist mér allt vera í lagi og ég skil því mætavel að höfundar frumvarpsins hafi talið þetta vera í lagi. En þá skýtur svolítið skökku við að við refsuðum klárlega fórnarlambi mansals árið 2014, þessari ungu konu frá Spáni sem varð fyrir mjög ógeðfelldri meðferð af hálfu kvalara sinna, sem ég ætla ekki að endurtaka hér, og það gerðist eftir að þessi löggjöf var sett. Hvers vegna? Það mál fór aldrei fyrir Hæstarétt, eftir því sem ég fæ best séð, þannig að ég veit ekki alveg hvernig það myndi enda. Ég myndi ekki alveg treysta mér til að leggja fram lagabreytingartillögu á þessum tímapunkti vegna þess að ég átta mig ekki alveg á því hvar vandamálið er. Er þetta einhver misskilningur hjá embættismönnum kerfisins? Ég veit það ekki. Eru það einhver önnur lög sem þvælast fyrir? Ég þekki það ekki nógu vel til að treysta mér til að leggja fram frumvarp. En þetta vekur athygli mína þegar ég les þetta annars ágæta frumvarp vegna þess, eins og ég segi, að þolendur hafa oft gleymst.