151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:26]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingar á almennum hegningarlögum, mansalsákvæði laganna. Um er að ræða tvær breytingar samkvæmt þessu frumvarpi á 1. mgr. 227. gr. a hegningarlaga. Eins og segir í frumvarpinu er verið að breyta skilgreiningum og gera orðalagið nákvæmara. Þessu er ætlað að styrkja löggjöf um mansal og er eitt skref í þeirri viðleitni löggjafans að slá skjaldborg um fórnarlömb mansals sem getur birst í ýmsu formi. Saga ákvæðisins, 227. gr. a, hefur síðustu áratugi verið saga breytinga. Þetta ákvæði var fyrst sett inn 2003. Þar var verið að koma til móts við bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri brotastarfsemi, þ.e. Palermó-samninginn, og berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn, eins og greinir í Palermó-bókuninni. Þessu ákvæði hefur verið breytt síðan, bæði 2009 og 2011, og við horfum hér fram á enn eina breytinguna á frumvarpinu. Ég held að breytingin sé góð. Hún lýtur að refsinæmi mansals, sérstaklega í þeim tilgangi að bæta vernd þolenda enn meira en áður hefur verið og auðvelda málsókn á hendur þeim sem eru ábyrgir fyrir þessum brotum.

Með þessum breytingum er sérstaklega verið að horfa til þróunar samsvarandi löggjafar annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er horft til skýrslu GRETA um Ísland, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins til að koma í veg fyrir og berjast gegn mansali og vernd þolenda. Einnig er horft til samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1930, um nauðungarvinnu, sem íslenska ríkið fullgilti 1958, og hins vegar samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunar frá 1957, um afnám nauðungarvinnu, sem íslenska ríkið fullgilti 1960, auk bókunar við samþykkt stofnunarinnar, um afnám nauðungarvinnu, frá 2014 sem íslensk stjórnvöld fullgiltu í júní 2019.

Það má líka geta þess að íslenska ríkið tók seint við sér. Stjórnvöld tóku seint við sér. Palermó-samningurinn er frá 2000 og bókunin líka. Norðurlöndin tóku mjög fljótlega við sér. Árin 2004, 2005 og 2006 voru öll Norðurlöndin búin að fullgilda þennan samning en Ísland gerði það ekki fyrr en tæplega áratug eftir að Palermó-samningurinn var samþykktur. Við vorum svolítið sein og erum svolítið sein að bregðast við í þessum málum, það er rétt. Vonandi verður breyting þar á. Þar vil ég nefna framlag okkar í þessum málaflokki sem er skýrslubeiðni Miðflokksins til dómsmálaráðherra, þar sem hæstv. dómsmálaráðherra er krafinn svara um aðgerðir stjórnvalda og yfirvalda vegna uppgangs skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi sem hefur verið umfjöllunarefni í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra í á annan áratug án þess að við hafi verið brugðist, a.m.k. ekki nægilega, a.m.k. ekki með þeim hætti sem hefði þurft. Þessi vá hefur einungis aukist þrátt fyrir að greiningardeildin hafi í fjölda skýrslna, alveg frá upphafi stofnunar deildarinnar 2007, varað við þessari hættu sem að okkur steðjar. Það var gert með skýrslu árið 2015, með skýrslu 2017, þá var talað um mikla áhættu, og loks með skýrslu 2019 þar sem áhættan af þeirri vá sem skipulagðir glæpahópar eru var talin gífurleg. Hættan hefur aukist ár frá ári og uppgangur þessara hópa hefur verið mjög mikill hér á landi, en talað hefur verið fyrir daufum eyrum, vægast sagt. Miðflokkurinn hefur, með þessari beiðni sinni um skýrslu til hæstv. ráðherra, óskað eftir því að hæstv. ráðherra greini þinginu frá því hvað hefur verið aðhafst og einnig hvað stjórnvöld hyggist aðhafast varðandi þessa vá. Við teljum að merkin séu það mikil um að þarna sé um alvarlegt vandamál að ræða að við það verði ekki lengur unað og menn geti ekki setið hjá og horft á þetta aukast enn frekar.

Einn liður í skýrslubeiðni okkar, sem var lögð hér fram fyrir nokkrum vikum, og einróma samþykkt að þessi skýrsla yrði gerð, var f-liðurinn þar sem óskað er eftir því að hæstv. ráðherra flytji Alþingi skýrslu um ákveðin atriði. Svo var talið upp til hvaða aðgerða hefur verið gripið og að þinginu verði greint frá því. Í f-lið er spurt að því hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að þeir sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og kúgunum af ýmsum toga, svo sem mansali, eða hvaða aðgerðir séu áformaðar til að vinna gegn slíku.

Frú forseti. Það má kannski segja að setning þeirra ákvæða sem hér eru til umfjöllunar, þ.e. þar sem verið er að styrkja löggjöfina, styrkja mansalsákvæði hegningarlaga, sé þáttur í að vinna gegn þessu. Það er alveg rétt, frú forseti, en betur má ef duga skal vegna þess að lögreglan kallar eftir margháttuðum aðgerðum. Styrking löggjafar er vissulega eitt af því, en það er mun fleira sem þarf að gera, t.d. þarf að styrkja lögregluna, láta lögregluna fá þær heimildir, þau vopn, í hendur sem duga til að vinna gegn þessu, t.d. rannsóknarheimildir, tæki og búnað og heimildir í lögum til að vinna gegn þessu. Þetta er vissulega þáttur í því.

Ég ætla ekki að fara beint ofan í orðalag þessara ákvæða, mansalsákvæðanna, en þarna er bara verið að gera orðalagið nákvæmara. Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er verið að styrkja inngangsmálsgrein ákvæðisins og leitast við að láta ákvæðið ná yfir margháttaða birtingarmynd mansals, sem getur verið, eins og frá greinir í 1. tölulið, að misnota fólk, að misnota annan mann í vændi eða á annan kynferðislegan hátt, að misnota menn í nauðungarhjónabönd, að misnota fólk í þrældóm eða ánauð, að misnota fólk til nauðungarvinnu eða nauðungarþjónustu, þar á meðal að misnota fólk til að betla, eða að misnota fólk til að fremja refsiverðan verknað. Því er lýst nákvæmlega í frumvarpinu, sem ég ætla ekki að lesa hér upp, frú forseti, í hverju þetta getur verið fólgið, hvernig aðferðirnar eru. Það er verið að styrkja þetta.

Á bls. 10 í skýrslu greiningardeildarinnar frá 2019 um þetta atriði, þ.e. mansalshættuna, segir, með leyfi forseta:

„Í stærstu borgum Evrópu eru glæpahópar tengdir ákveðnum þjóðarbrotum áberandi í skipulagðri vændisstarfsemi.“ — Vændi er oft talið birtingarmynd mansals. — „Rúmenskir og albanskir hópar eru þar umsvifamiklir. Þeir hópar sem skipuleggja vændi tengjast margs konar annarri glæpastarfsemi í Evrópu, svo sem sölu eiturlyfja, peningaþvætti og skipulögðum þjófnaði. Með því að þvinga flóttafólk til afbrota geta þeir sem í raun standa að baki skipulagðri glæpastarfsemi minnkað eigin áhættu.“

Síðan segir í skýrslunni:

„Upplýsingar benda til þess að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi á síðustu þremur árum eða svo.

Í skýrslu greiningardeildar árið 2015 sagði m.a. að sýnt væri að þessi þróun héldist í hendur við uppgang í efnahagslífi þjóðarinnar. Lögreglan telur að hluti þessarar starfsemi, hið minnsta, tengist erlendum skipulögðum glæpahópum sem aftur kunni að reiða sig á aðstoð fólks og aðstöðu hér á landi. Götuvændi er fátítt á Íslandi en sala vændis fer m.a. fram innan lokaðra hópa á samfélagsmiðlum, líkt og sala fíkniefna. Síðustu ár hefur fjölgað mjög vændisauglýsingum á netsíðum og samfélagsmiðlum sem beint er að Íslandi.“

Í skýrslunni segir síðan:

„Mansal tekur til eftirfarandi þátta:

— Að útvega fólk, flytja það, afhenda, hýsa eða taka við.

— Ólögmætrar nauðungar, frelsissviptingar, hótana, ólögmætrar blekkingar.

— Kynferðislegrar misnotkunar, nauðungarvinnu, brottnáms líffæra.“

Áfram segir:

„Fyrirliggjandi upplýsingar benda til að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal og þá einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu.“

Í skýrslu greiningardeildarinnar er síðan farið yfir tölfræði ríkislögreglustjóra um mansalsmál á árabilinu 2015–2019. Þar segir að 74 mansalsmál hafi komið inn á borð lögreglu og hafi snert 88 einstaklinga en einungis eitt af þeim 74 málum fór í ákæruferli. Tæplega helmingur þeirra fór til athugunar eða rannsóknar en í flestum tilvikum, eða 38, var tilkynningu fylgt eftir með athugun en ekki hafin rannsókn. Í nokkrum málum fór engin athugun eða rannsókn fram vegna ónógra upplýsinga.

Síðan segir í skýrslunni, frú forseti:

„Reynslan erlendis frá sýnir að fátítt er að fórnarlömb leiti til lögreglu.“

Þetta er mergurinn málsins. Mansal er í eðli sínu brot sem fer mjög leynt. Mansal er í eðli sínu líka brot sem ekki er kært. Sjaldnast er kært. Mansal er í eðli sínu einnig brot þar sem brotaþolinn, eða sá sem verður fyrir brotinu og er misnotaður, vill oft ekki tjá sig um brotið og harðneitar jafnvel fyrir. Þetta eru því erfið mál til rannsóknar, frú forseti.

Nú les ég aftur upp úr skýrslunni:

„Tölfræði kann því að hafa takmarkað upplýsingagildi fyrir mögulegt umfang mansals í landinu.“ — Nákvæmlega. — „Mat íslensku lögreglunnar byggir því að mestu á upplýsingum og vísbendingum en ekki fjölda sakamála.“

Síðan segir, með leyfi:

„Ólöglegir fólksflutningar og smygl á fólki eru liður í umsvifum skipulagðra glæpasamtaka. Glæpahópar sem starfa yfir landamæri og hafa komið sér fyrir í mörgum ríkjum Evrópu eru umsvifamiklir á þessu sviði. Upplýsingar lögreglu benda til þess að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til Íslands með skipulögðum hætti til að sæta mansali og misneytingu. Árið 2018 hófst umfangsmikil mansalsrannsókn. Virðist sem erlendur einstaklingur hafi skipulega flutt fólk yfir landamæri víða um heim og loks til Íslands“.

Ég ætla að ljúka þessum upplestri en ég lýk máli mínu í næstu ræðu.