151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, um mansal. Þetta er frumvarp sem ber að fagna og við höfum verið að ræða töluvert undanfarið. Eins og kom fram í ræðu síðasta ræðumanns er fátækt meginástæða þess að fólk leiðist út á þessar brautir. Það lætur glepjast til að láta óprúttna aðila plata sig í eitthvað og áttar sig ekki á hvað það er komið út í fyrr en kannski um seinan.

Í umræðunni hér á fyrri stigum varð mér tíðrætt um stöðu lögreglunnar og þá staðreynd að mannekla er mikil þar á bæ. Ekki lagast það við styttingu vinnuvikunnar. Lögreglan lýsti áhyggjum sínum af því að fleira fólk vantaði til vinnu og að hana vantaði fjármagn. Áhyggjur lögreglunnar eru gríðarlegar, einnig þess sem hér stendur, af því að hún sé ekki í stakk búin til þess að geta fengist við þann málaflokk sem mansal er og fer illu heilli ört stækkandi hérlendis. Heimurinn er að minnka og einhvern veginn er alþjóðavæðing glæpa að færast út um heim og hingað norður á hjara veraldar, það er kannski ekki gott að segja það, en hingað norður í höf til Íslands. Við sem töldum okkur vera hið saklausa Ísland eða laus við svona lagað erum farin að fást við þetta í æ ríkari mæli. Því er þetta frumvarp mjög þarft og ber að fagna því.

Af því að ég var að minnast á lögregluna langar mig aðeins að grípa niður í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta. Þar segir:

„Baráttan gegn mansali er sameiginlegt verkefni ríkja heims. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna samþykkti allsherjarþingið 15. nóvember 2000 samning gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi (Palermósamninginn). Sama dag samþykkti allsherjarþingið sérstaka bókun við samninginn um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna. Í samningnum eru settar fram grundvallarráðstafanir sem nauðsynlegar eru til forvarna í baráttu við alþjóðlega skipulagða glæpastarfsemi. Í bókuninni eru útfærðar sérstakar ráðstafanir í baráttunni gegn mansali.

Palermósamningurinn og Palermóbókunin voru undirrituð af Íslands hálfu 13. desember 2000. Þá fullgiltu íslensk stjórnvöld samninginn 13. maí 2010 og bókunina 22. júní 2010.“

Og aðeins áfram, með leyfi forseta:

„Á vettvangi Evrópuráðsins var samningur um aðgerðir gegn mansali lagður fram til undirritunar 16. maí 2005. Hann tók gildi 1. febrúar 2008. Evrópuráðssamningurinn styðst við Palermóbókunina, en er mun ítarlegri og gildir um mansal innan lands sem og fjölþjóðlegt mansal. Þá gildir hann jafnframt óháð því hvort skipulögð brotasamtök standa að baki mansali eða ekki. Palermóbókunin gildir aftur á móti eingöngu um mansal sem á sér stað milli landa fyrir tilstilli skipulagðra brotasamtaka. Þá hefur Evrópuráðssamningurinn að geyma ákvæði um allnokkur atriði sem ekki er að finna í Palermóbókuninni, eins og ákvæði um vitna- og upplýsingavernd og ákvæði um refsiábyrgð lögaðila.

Evrópuráðssamningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 16. maí 2005 eða sama dag og hann var lagður fram til undirritunar. Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn 23. febrúar 2012.“

Við erum að tala um 20 ára ferli sem hófst með þessum samningi. Þetta er því orðin alþjóðleg samvinna á milli landa um að bregðast við þeim vágesti sem mansalið er. Það er gróft mannréttindabrot sem við þurfum að reisa skorður við og vera opin fyrir því hvernig að þessu er staðið. Það hefur aukist gríðarlega mikið hér á Íslandi og við höfum heyrt talað um að Ísland gæti verið orðið áfangastaður fyrir mansalsbrot. Fjölgun hælisleitenda eykur hættu á mansali og það sama má segja í byggingariðnaði. Fylgjast þarf vel með því hvernig staðið er að samningum við þá sem vinna í þeim iðnaði. Eins og fram hefur komið er mansal að verða ein algengasta glæpastarfsemi í heiminum, meðal þeirra þriggja algengustu.

Það eru mjög athyglisverðar umsagnir sem fylgja þessu máli og mig langar að grípa aðeins niður í umsögn frá Vinnueftirlitinu, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Vinnumansal nær yfir nauðungarvinnu, þrælkun, þrældóm eða aðra misnotkun á vinnuafli […] Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 227. gr. a. frumvarpsins er skýrlega kveðið á um nauðungarvinnu, þrælkun og þrældóm. Hins vegar kemur orðalagið „önnur misnotkun á vinnuafli“ ekki fyrir í orðalagi ákvæðisins sjálfs. Skilgreining á hugtakinu „vinnumansal“ gengur þannig lengra í skýringu ákvæðisins í greinargerð heldur en í ákvæðinu sjálfu í frumvarpinu.“ — Þarna eru þeir að benda á orðalag sem mætti skoða betur.

„Vinnueftirlitið telur æskilegt að hugtakið vinnumansal í refsiákvæði frumvarpsins sé skýrlega skilgreint og samræmi sé milli orðalags ákvæðisins og skýringa þess í greinargerð með frumvarpinu. Vinnueftirlitið leggur því til að þetta samræmi verði tryggt og að orðalagið „önnur misnotkun á vinnuafli“ hljóti skýrari stoð í ákvæðinu og verði betur skilgreint í skýringu þess.

Að mati Vinnueftirlitsins er einnig vert að skoða hvort vinna við bersýnilega óásættanlegar vinnuaðstæður sem m.a. ógna heilsu og öryggi þolanda falli þar undir, að því gefnu að það sé gert í hagnaðarskyni og að önnur skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.“

Og bent er á dæmi í því samhengi. Það er líka mjög áhugavert að Vinnueftirlitið vill að skoðað sé hvort aðstæður þeirra sem vinna hina ýmsu vinnu geti talist í lagi.

Svo er umsögn frá Útlendingastofnun og þar kemur fram um nauðungarhjónaband, með leyfi forseta:

„Útlendingastofnun bendir á að hugtakið nauðungarhjónaband er ekki skilgreint í frumvarpinu eða í öðrum íslenskum lögum nr. 80/2016 eða hjúskaparlögum nr. 31/1993 svo dæmi séu nefnd. Þrátt fyrir að mat á því hvort um nauðungarhjónaband sé að ræða fari eftir almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er æskilegt að hugtakið sé skilgreint. Þarf meðal annars að greina á milli hentihjónabanda eða fyrir fram ákveðins ráðahags sem tíðkast í sumum menningarheimum og hefur ekki verið talið brjóta gegn íslenskum lögum.

Að lokum væri eðlilegt í samræmi við þá ensku orðnotkun sem tiltekin er í athugasemdunum […] svo sem að einstaklingar væru neyddir til að betla, neyddir til þess að ganga í hjónaband gegn sínum vilja eða neyddir til þess að fremja refsiverðan verknað svo skýrt sé hvers kyns verknað sé átt við.“

Þá vilja þeir fá nánari skilgreiningu á því. Þetta eru áhugaverðar ábendingar. Það er allt of algengt að maður hafi heyrt um nauðungarhjónaband sem vonandi er ekki algengt þó. Eitt slíkt hjónaband er náttúrlega einu hjónabandi of mikið.

Síðan er umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og ef ég gríp aðeins niður í hana, með leyfi forseta.

„Hvað varðar greinargerð með frumvarpinu og athugasemdir með ákvæðinu þá telur MRSÍ þar fram komnar upplýsingar og skýringar sem að gagni koma og auðvelda mega saksókn og sakfellingu í mansalsmálum. Þar má nefna umfjöllun um skilgreininguna á mansali og upptalningu dæma um verknaðaraðferðir, svo sem að neita fíkniefnaneytanda um næsta skammt o.s.frv.

Þá er enn fremur vísað til vísbendinga um að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir með skipulögðum hætti hingað til lands til að sæta mansali og vísað til bágrar félagslegrar stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd, en jafnframt vísað til farandverkafólks og erlendra ríkisborgara. Er það vel þar sem dæmi eru um hagnýtingu bágra aðstæðna fólks sem hingað kemur á eigin vegum eða sem t.d. au-pair, námsmenn eða jafnvel á fjölskyldusameiningarleyfi og því mikilvægt að líta ekki alfarið til skipulagðs innflutnings erlendra ríkisborgara í hagnýtingarskyni.“

Það er því í mörg horn að líta í þessu máli og er athyglisvert að lesa þessar umsagnir. Síðan er nokkuð ítarleg umsögn frá Þroskahjálp en þar sem ég sé að tími minn er að renna út þá verð ég að koma inn á hana í næstu ræðu og vil ég biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.