151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við erum komin aftur til að ræða þetta ágætismál frá dómsmálaráðherra sem verið er að fara með í gegnum þingið. Vil ég þakka ráðherra fyrir að leggja í þennan leiðangur með málið þar sem verið er að gera ákveðnar breytingar til að skýra hugtakið mansal og annað sem við ræðum oft þannig að enginn velkist í vafa um hvað átt er við í lögunum. Þetta er samið af sérfræðingi í refsirétti að beiðni ráðherra og ber að fagna því að verið sé að taka sérstaklega á þessum hlut. Hér hefur verið fjallað um ýmislegt tengt mansali, sem er mjög eðlilegt í ljósi þess hversu alvarlegur glæpur það er að selja fólk í ánauð, sama með hvaða hætti það er, hvort sem það er vinnuánauð eða kynlífsánauð eða annað. Því miður eru þeir sem eiga hvað mest bágt kannski í mestri hættu á að verða fyrir þeim ófögnuði sem mansal er.

Í frumvarpinu er ágætlega fjallað um ferlið sem farið var í við að semja þetta mál og m.a. sérfræðingur fenginn til að semja það, og farið yfir það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ályktað á síðustu árum. Vitnað er í hinn svokallaða Palermó-samning frá 2000 og bókun Sameinuðu þjóðanna við hann. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að þetta er þannig vandamál að Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að láta það til sín taka og íslensk stjórnvöld þar af leiðandi, allt frá árinu 2000 þegar þau undirrituðu samninginn. Þau fullgiltu hann svo reyndar tíu árum síðar og bókunina þar með. Evrópuráðið hefur líka látið þessi mál mikið til sín taka. Þar höfum við Íslendingar átt góða fulltrúa í gegnum tíðina, bæði fulltrúa Alþingis og að sjálfsögðu framkvæmdarvaldsins. Það er mikilvægt að við höldum áfram að vera virk á þeim vettvangi þar sem gæta þarf að mannréttindum og ekki síst að berjast gegn glæpum sem verða þegar menn nýta sér neyð fólks. Íslensk stjórnvöld kynntu fyrstu aðgerðaáætlunina fyrir rúmum tíu árum, 2009, sem gilti til ársloka 2012. Síðan var önnur áætlun kynnt sem gilti til 2016 og síðan kynnti ráðherra okkur áherslur núverandi ríkisstjórnar 29. mars 2019.

Það er líka mikilvægt í því sambandi að horfast í augu við það að mansal, einhvers konar þrælkun eða hvað við köllum það, er féþúfa fyrir glæpasamtök og glæpamenn, ekki síst fyrir þá sem eru aðilar að eða hluti af skipulagðri glæpastarfsemi, þar sem er verið að nýta sér veikleika fólks, og kerfisins einnig, með því að selja fólki hugmyndir um betra líf sem reynast svo ekki sannar, með því að halda fólki í ánauð eða hvers konar óþverraskap sem þessi glæpasamtök leyfa sér.

Í frumvarpinu er fjallað nokkuð, þó ekki endilega mjög djúpt, um mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri brotastarfsemi. Skipulögð brotastarfsemi hefur vitanlega áhrif hér á Íslandi eins og annars staðar. Við sjáum því miður mjög ógeðfellda þróun í nágrannalöndum okkar þar sem vandinn eykst og eykst og glæpum fjölgar. Fyrir skömmu sáum við að fleiri eru drepnir með skotvopnum í Svíþjóð en í öðrum Evrópulöndum. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að sú gæti verið staðan, að í Svíþjóð, hinu oft svokallaða fyrirmyndarríki, alla vega á árum áður, myndi sú staða koma upp að glæpasamtök gætu vaðið uppi með þessum hætti? Við erum farin að sjá mjög ógeðfelld met slegin í þessu landi frænda okkar þar sem einhver þúsund Íslendinga búa að staðaldri. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að læra af þessu. Við þurfum að kynna okkur hvernig stendur á því að Svíar hafa lent í þessu öllu saman, að samfélagið hafi farið í þessa átt. Það má ekkert skilja undan, við eigum að þora að taka þá umræðu og velta fyrir okkur hvort þróunin geti orðið svipuð á Íslandi og bregðast þá að sjálfsögðu við. Þarna skiptir miklu máli að greinendur okkar, hvort sem það er greiningardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra eða aðrir, hafi til þess tól og tæki og fjármuni til þess að geta komið með ábendingar um hvernig við getum brugðist við til að lenda ekki á sömu braut og frændur okkar og vinir í Svíþjóð.

Í skýrslu frá 2015 frá greiningardeild ríkislögreglustjóra er í fyrsta sinn í rauninni fjallað um vinnumansal sem sérstakan flokk mansalsmála og segir það okkur kannski að það hafi þá aukist, að ástæða sé til að taka það sérstaklega út með þessum hætti. Í nýjustu skýrslunni, sem ég kom aðeins inn á í fyrri umræðu um þetta mál, kemur fram að margt bendi til þess að skipulagt vændi hafi aukist töluvert og það tengist skipulögðum brotahópum. Þá er einmitt sérstaklega tekið fram í frumvarpinu og skýrslu ríkislögreglustjóra að margt bendi til þess að Ísland sé áfangastaður fyrir skipulagt mansal og þá misneytingu um leið. Eflaust eru ýmsar ástæður sem liggja að baki slíku eða sem verða til þess að svona lagað fer af stað. Horfum t.d. á vinnuaflið. Skortur á vinnuafli verður til þess að glæpahópar, brotahópar, sjá sér færi á að nýta sér það með einhverjum hætti, eins og kemur raunar fram í þessum skýrslum. Það er mjög mikilvægt að við horfum líka til þess hvernig við getum reynt að koma í veg fyrir að brotahópar, glæpahópar komi hingað. Ég ætla að leyfa mér að segja glæpahópar, hér er orðið brotahópar notað og það er svo sem lýsandi orð, en ég held að flestir sem brjóta lög með einhverjum hætti séu nú glæpamenn eða glæpahópar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að horfa til þess, á sama tíma og við erum að ræða þetta frumvarp og vonandi samþykkja á endanum, að skýra hvað það er sem telst til mansals þannig að við náum til fleiri aðila sem verið er að misnota með þessum hætti.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að styrkja löggæslustofnanir okkar í því að hafa aukna frumkvæðislöggæslu, ég held að það sé kallað það í dag, eða auknar forgreiningar, forvarnir í þessu öllu saman og fagna ég því að verið sé að gera einhverjar breytingar. Reyndar er umræða um að lögreglan fái auknar heimildir. Það er mitt mat að það sé mjög mikilvægt. Ég held að það sé betra að lögreglan hafi heimildir til að fylgjast betur með okkur en ekki. Auðvitað geta menn velt því fyrir sér hvort það sé heppilegt upp á traust og eitthvað slíkt. En ég kýs nú að treysta lögreglunni, eins og langflestir Íslendingar, til að fara vel með völd sín. Auk þess erum við með kerfi til að fylgjast með störfum lögreglu og hugsanlega má auka það eða efla með einhverjum hætti og þá ræðum við það að sjálfsögðu. En það er mjög mikilvægt að lögreglan á Íslandi hafi heimildir til að koma í veg fyrir eða minnka líkur á að svona starfsemi eða önnur glæpastarfsemi þrífist. Það er líka mikilvægt að við tryggjum áfram að löggæslustofnanir okkar geti átt traust og gott samstarf við kollega sína erlendis þannig að hægt sé að miðla upplýsingum og þess háttar um þessa glæpastarfsemi sem er sannarlega í gangi. Í frumvarpinu er fjallað um hvernig hin Norðurlöndin hafa tekið á mansalsmálum og er það forvitnileg lesning.

Það virðist hafa verið ágætissamráð við gerð frumvarpsins, meðal annars við ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og fleiri sem hér eru taldir upp, auk stofnana eins og Vinnumálastofnunar og svo Alþýðusambands Íslands. Það er mjög mikilvægt að þeir aðilar séu hafðir með í ráðum því að við vitum að þeir sem hafa eftirlit með vinnustöðum eða gæta að hag vinnandi fólks eru oft í betri stöðu en aðrir til að fylgjast með, ljóstra upp eða komast þar að vandamálum og öðru þegar slíkt á sér stað hér á landi. Ég ætla að leyfa mér að segja að það sé mjög æskilegt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vinni þétt saman að því að koma sem mest í veg fyrir vinnumansal og hef ég ekki trú á öðru en að þar séu allir um borð, ef má orða það þannig. En síðan eru aðrir sem þurfa að grípa inn í á öðrum stöðum.

Hér hafði ég punktað hjá mér að það hefði verið ákjósanlegt að nota þetta tækifæri til að fara vel í gegnum til hvaða ráðstafana við viljum grípa til þess að löggæslustofnanir okkar hafi tæki og tól og heimildir til að sinna þeirri vöktun sem þær telja sig þurfa að sinna í þessum skelfilegu málum sem mansalsmálin eru. Auðvitað má segja að sum séu skelfilegri en önnur en allt snýst það að sjálfsögðu um það sama; verið er að neyða fólk í eitthvað sem það vill í langflestum tilvikum örugglega ekki eða þá að verið er að svindla á því með einhverjum hætti.

Mál þetta er vonandi bara áframhaldandi skref í þá átt að bæta þá lagaumgjörð sem gildir um þessi mál. Þetta þarf að skoða í sem víðustu samhengi og reyna að tengja sem mest inn í raunveruleikann, að sjálfsögðu. Við hvað búum við? Hvaða hættur leynast? Hvaða hættur geta falist í því að gera ekkert? Getum við lært af því ástandi sem er hjá vinum okkar og frændum á Norðurlöndum, t.d. Svíþjóð? Hvaðan koma þeir glæpahópar sem þar eru og hvernig eru þeir myndaðir? Af hverju verður þessi stóraukning í Svíþjóð? Ég held að það sé mjög mikilvægt að leggjast í rannsókn á því og leggja slíka rannsókn hér fyrir þing og þjóð svo að hægt sé að komast til botns í því hvort við getum brugðist við fyrir fram með einhverjum hætti. Forvarnir eru alltaf mikilvægar og ef við eigum þann möguleika að grípa til aðgerða áður en halla fer undan fæti hjá okkur eins og mörgum öðrum þjóðum þá er það kostur. Þá er það eitthvað sem við verðum að nýta og læra af. Oft er sagt um Íslendinga að þeir hrífist mest af því sem kemur að utan. Ég held að við eigum líka að læra þá af því sem kemur að utan og læra af því sem aðrir hafa lent í, því að það er ekki sjálfgefið að við höldum áfram á einhverri braut sem aðrir hafa farið út af.

Ég vil líka leyfa mér að minnast á löggæsluáætlun fyrir Ísland sem samþykkt var árið 2012. Það var mál sem sá er hér stendur var fyrsti flutningsmaður að árið 2012, á 140. þingi, sem var samþykkt og hrint í framkvæmd. Það væri mjög forvitnilegt að fylgja henni eftir í framhaldinu. Þeir sem munu standa hér á næsta þingi munu vonandi kalla eftir skýrslu eða einhvers konar samanburði eða yfirliti, samantekt á því hvernig til hefur tekist með löggæsluáætlunina, hverju hefur verið hrint í framkvæmd, hvað hefur gengið vel, úr hverju hefur verið bætt og hverju ekki. Það gæti hjálpað okkur til að komast til botns í eða skoða betur hvað hvaða leið við viljum fara. Erum við nógu vel mönnuð? Erum við með nógu mikið af tækjum og tólum til að glíma við þessi verkefni? Þurfum við frekari heimildir? Hefur verið brugðist við ábendingum sem komu fram í löggæsluáætluninni? Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að reyna að tengja þá þætti við þetta mál. Markmið þessa frumvarps og annarra er vitanlega mjög gott, en við verðum samt að horfa til þess að þetta er svo stórt mál og svo margir þættir sem tengjast þessum málum. Það skiptir miklu máli.

Nú, nefndarálitið … (Forseti hringir.)

(Forseti (GBr): Tíminn er sennilega liðinn en tímatakan er í ólestri.)

Afsakið, herra forseti.

(Forseti (GBr): Hv. þingmanni er velkomið að flytja lokaorð.)

Ég bið bara um að vera settur aftur á mælendaskrá, takk fyrir.