151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að ljúka umfjöllun minni um það frumvarp sem hér liggur frammi þar sem verið er að bæta mansalsákvæði hegningarlaganna, ákvæði 227 a í hegningarlögum. Þarna er verið að bæta það til að auðvelda baráttuna gegn mansali og er því hið besta mál. Baráttan gegn mansali er í raun sameiginlegt verkefni allra ríkja heims vegna þess að þetta er brot sem virðir engin landamæri. Það eitt og sér gerir lögregluyfirvöldum erfiðara um vik að vinna gegn þessu, en einnig gerir það fórnarlömbin að vissu leyti berskjaldaðri vegna þess að þau eru þá í enn verri aðstæðum. Það eru ókunnugar aðstæður, það er annað tungumál og aðstæður sem þau ekki þekkja í nýju landi. Eins og oft er varðandi mansal, bæði mansal á sviði kynlífs og einnig mansal á sviði vinnumarkaðar, þá er fólkið í nýju landi og talar ekki tungumálið og þess vegna er þarna einnig erfitt um vik. Og vegna þess að þetta er sameiginlegt verkefni allra ríkja verðum við Íslendingar að standa okkur. Ég benti á það í minni fyrri ræðu og hafði þá ekki ártalið en við undirrituðum Palermó-samninginn og Palermó-bókunina í lok árs 2000 en við fullgiltum ekki samninginn fyrr en tíu árum seinna. Þetta sýnir kannski hvað við erum langt á eftir vegna þess að Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Finnland voru mörgum árum á undan okkur. Þau fullgiltu bæði samninginn og bókunina skömmu eftir aldamót, 2004, 2005 og 2006, en við erum þarna langt á eftir. Þess vegna er svo mikilvægt að hvetja stjórnvöld til að draga ekki lappirnar í þessu. Þetta frumvarp er auðvitað hluti af því, það þarf mikið meira að koma til.

Í skýrslu greiningardeildar frá 2015, segir, með leyfi forseta:

„Vændi og mansal gætu aukist m.a. í tengslum við stóraukin umsvif í byggingariðnaði og ferðamannaþjónustu. Vöxtur í byggingariðnaði skapar hættu á ólöglegum innflutningi á verkafólki og dæmi eru um að viðkomandi þræli myrkranna á milli við slæm kjör.“

Síðan segir fjórum árum síðar í skýrslu greiningardeildar sömu stofnunar: „Þessi virðist hafa orðið raunin.“ Það kom á daginn. Mansal jókst á tímabilinu frá því þegar skýrslan var skrifuð árið 2015, þar sem er bent á hættuna, til skýrslunnar sem gerð er fjórum árum seinna, 2019. Þar segir:

„Lögregla hefur sterkar grunsemdir um mansal í þeim geirum atvinnulífsins sem nefndir voru og vaxið hafa hratt á undanförnum árum Í skýrslum liðinna ára hefur greiningardeild einnig ítrekað varað við því að þeir sem leiti alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og jafnvel kúgunum af ýmsum toga. Slík misnotkun er þekkt í nágrannaríkjum og tengist oft „svartri atvinnustarfsemi“.

Augljóslega er slík misneyting ekki bundin við þá sem óska alþjóðlegrar verndar. Þekkt er frá nágrannaríkjum að konur séu þvingaðar til að stunda vændi og að skipulagt vinnumansal fari fram innan „svarta hagkerfisins“. Það á við um ýmsa þjónustustarfsemi, til að mynda nudd, þrif, vinnu á veitingastöðum, betl og vasaþjófnað.“

Þannig að á þessu sést að við erum ekkert að vakna. Verið er að benda á brotalamir hvað mansal varðar í skýrslum greiningardeildar ár eftir ár, frá 2015, og vandinn hefur bara aukist, eins og kom fram í þeim texta sem ég var að lesa úr skýrslunni frá árinu 2019. Þá er ekki verið að sinna þessum ábendingum greiningardeildarinnar. (Forseti hringir.) — Ég er ekki búinn með fimm mínútur, er það, herra forseti?

(Forseti (GBr): Fjóra og hálfa mínútu. Klukkan er í lamasessi. )

Fæ ég þá að halda aðeins áfram, herra forseti?

(Forseti (GBr): Í hálfa mínútu.)

Það segir einnig í skýrslu greiningardeildar 2019:

„Það er mat lögreglu að hér á landi starfi skipulagðir hópar brotamanna sem sumir hverjir búa yfir umtalsverðum styrk og fjármagni. Eftir því sem hópar þessir eflast verður örðugra fyrir lögreglu að sporna gegn starfsemi þeirra. Þeir eiga auðveldara með að fela slóð sína og fjárhagslegur styrkur gerir þeim kleift að kaupa sérfræðiþekkingu og fela ágóða starfseminnar í löglegum rekstri. […]

Áhrif skipulagðrar glæpastarfsemi á samfélagið eru margvísleg og öll neikvæð. Það á við um tíðni afbrota, alvarleika þeirra, neikvæð áhrif á viðskiptalíf og vinnumarkað, þar á meðal skekkta samkeppnisstöðu og fjártjón fyrirtækja, tekjumissi hins opinbera auk þess sem skipulagðri brotastarfsemi fylgir ofbeldi sem verður til þess að draga almennt úr öryggi í samfélaginu. […]

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur ennfremur vakið á því athygli að skipulögð glæpastarfsemi hefur áhrif á öryggisstigið í landinu. Í skýrslu ársins 2017 var það niðurstaða greiningardeildar ríkislögreglustjóra að áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu væri „mikil áhætta“. Í ljósi þeirra upplýsinga sem lögregla miðlar til greiningardeildar ríkislögreglustjóra er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála. Staðan hvað skipulagða brotastarfsemi varðar heldur áfram að versna sem m.a. birtist í vaxandi fjölda uppsafnaðra mála og skorti á frumkvæðislöggæslu.“

Í ljósi þessara upplýsinga kemur fram í skýrslunni að áhættustigið vegna mansals í skýrslunni 2019 er ekki mikil áhætta, eins og í fyrri skýrslu, heldur gífurleg áhætta. Við erum alltaf að fara á verri veginn. Við erum alltaf að feta okkur inn í verra ástand.

Rétt í lokin segir hér, herra forseti:

„Ljóst er að staða löggæslumála er með þeim hætti að geta hennar til þess að takast á við skipulagða brotastarfsemi er mjög lítil.“

Þetta er alvarlegt, herra forseti. Og loks segir hér:

„Í umfjöllun um áhættumat hér að framan má sjá að án áherslubreytinga eru litlar líkur á að markverður árangur náist í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi.“

Ég læt þetta vera mín lokaorð. Lögreglan kallar eftir áherslubreytingum og hefur gert árum saman. Við verðum að fara að bregðast við.

(Forseti (GBr): Forseti áréttar að tímamælir er ekki réttur og forseti reynir að gera viðvart eins og hægt er þegar tímamörk eru úti, en ræðutími er 15 mínútur.)