151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil bara leyfa mér að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Miðflokksins. Þetta er eiginlega algjört ófremdarástand í þinghúsinu. Áður en ég hóf þá ræðu sem ég hef nýlokið við, þá sat ég í þingflokksherbergi okkar í Miðflokknum, Hlaðbúð, og ætlaði að prenta út punkta fyrir ræðuna. En slíkt var ekki mögulegt, sem skýrir það sem þeir sem á horfðu sáu hér rétt áðan þegar ég óskaði eftir því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson bjargaði mér um þau gögn sem ég ætlaði mér að hafa hér í pontu. Það er því eiginlega alveg fráleitt að halda áfram vinnu við þessar aðstæður. Þingmenn þurfa að geta sótt gögn því að þó að margir okkar séu bærilega innréttaðir í kollinum þá þurfum við að geta leitað í umsagnir og ýmislegt sem er að finna á internetinu og það er alveg ótækt að fundi sé haldið áfram á meðan þetta er staðan, ég tala nú ekki um að það er ekki einu sinni hægt að sjá hverjir eru á mælendaskrá.