151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð uppákoma. Þetta hefur gerst áður í vetur og var ekki óskað eftir frestun á þingfundi þess vegna. Það er dálítið áhugavert. Ég held að þetta hafi a.m.k. gerst í tvígang, því miður. Kerfið er orðið gamalt eins og við þekkjum. Ég var nú bara svo ánægð með það að hér fram undan var laus sirka einn og hálfur tími miðað við mælendaskrána og treysti því bara að Miðflokkurinn standi sína plikt og verði hér á mælendaskrá áfram þó að við sjáum hana ekki og tali áfram um þetta góða mál, mansalsmál sem við erum hér með til umræðu, sem þau hafa mært alveg hreint í hástert, sem er gott vegna þess að þetta er gott mál. Ég var bara svo einföld kona að ég hélt fyrst þegar mælendaskráin datt niður, og þá höfðu þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar hist skömmu áður, að það hefði gerst eitthvað stórkostlegt og málið væri leyst af því að mælendaskráin hvarf. En svo áttaði ég mig á því að það var ekki svo gott, enda var fleira dottið út af skjánum. Það er hvimleitt. Sannarlega er það hvimleitt að mælendaskráin sé ekki uppi en (Forseti hringir.) Miðflokkurinn hefur verið hér einn í þessari umræðu og mér finnst alveg sjálfsagt að hún haldi bara áfram (Forseti hringir.) án þess að mælendaskráin sé uppi, þó að það sé hvimleitt.