151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvort forseti þingsins var kominn hér í salinn þegar það kom fram áðan í ræðu hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur að það lægi fyrir viss grunur um að það hefðu orðið mistök í atkvæðagreiðslu fyrr í dag meðan kerfið var skrykkjótt. Það er náttúrlega miklu alvarlegri hlutur heldur en það að við getum talað hér inn á band þó að við séum ekki í netsambandi. Málið er það alvarlegt að það kann að vera að breytingartillaga sem var felld hér fyrr í dag hefði verið samþykkt, það eru ákveðnar vísbendingar í þá átt, ef menn hefðu haft aðgang að skjá hér í hliðarherbergi, sem var ekki þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Þetta er eitthvað sem ég tel að við þurfum að rannsaka vegna þess að lögin sem við vorum að samþykkja voru samþykkt að breytingartillögunni felldri en þau litu náttúrlega dálítið öðruvísi út ef hún hefði verið samþykkt eins og margt bendir til að hefði verið gert.

Að öðru leyti ætla ég aftur að þakka forseta fyrir skelegga fundarstjórn við þessar aðstæður en ég bendi jafnframt á að við erum náttúrlega dálítið teppt með að hafa ekki aðgang að neti. Síðast vil ég segja (Forseti hringir.) að ég þakka fyrir brýninguna frá fyrrum ræðudrottningu þingsins og við tökum hana mjög til okkar, Miðflokksmenn, og munum náttúrlega halda áfram að ræða (Forseti hringir.) þetta ágæta mál eins lengi og við þurfum.