151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í síðustu ræðu minni. Ég hef verið að koma inn á mikilvægi þess að samfélög geri allt sem þau geta til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi sem felst í mansali.

Ég sagði frá því í síðustu ræðu að til er mjög áhugaverð ritgerð sem ég rakst á við Háskóla Íslands eftir Dagbjörtu Blöndal sem fjallar einmitt um mansal og hvað samfélög geti gert til að sporna við því. Margt mjög áhugavert kemur fram í ritgerðinni og með leyfi forseta ætla ég aðeins að fara hér yfir þar sem fjallað er um meginástæður þess að einstaklingur verður fórnarlamb mansals. Ein aðalástæða þess er einmitt fátækt, þetta eru einstaklingar sem líða efnahagslegan skort og líta á það sem neyðaraðgerð að fara í búferlaflutninga, flytja til annars lands í þeirri von að geta náð sér í meiri tekjur og bætt sín lífskjör, sem er eðlileg sjálfsbjargarviðleitni. Það er hins vegar því miður þannig að glæpamenn í fátækari löndum nýta sér það. Þeir nýta sér t.d. fátækt og varnarleysi kvenna, á svæðum þar sem atvinnumöguleikar eru litlir fyrir konur og þær eru lægra settar í samfélaginu.

Svo er það nú einu sinni þannig, eins og ef við tökum t.d. Ísland, að erlendar konur verða oft fórnarlömb mansals. Þær eru útlendingar í þeim löndum sem þær eru í, þær hafa flust þangað til að reyna að bæta lífskjör sín en lenda svo í klóm þessara misindismanna. Það er einfaldlega vegna þess að það er erfiðara fyrir þær að vera í þessum löndum, þær tala ekki tungumálið, umhverfið er framandi, og þær eiga ekki aðstandendur sem geta hjálpað þeim o.s.frv.

Það hefur komið hér fram í ræðum og er þekkt að mansal er alþjóðleg glæpastarfsemi þar sem um er að ræða dulið og ólögmætt athæfi. Þess vegna er erfitt fyrir löggæsluna, félagsráðgjafa og fleiri að reyna að greina hverjir eru í raun fórnarlömbin. Mörg þessara fórnarlamba koma frá löndum þar sem er mikil spilling og refsingar harðar og sinnuleysi ríkir gagnvart baráttunni gegn mansali. Þess vegna óttast þau oft að tengjast opinberum stjórnvöldum með einhverjum hætti með því að setja sig í samband við þau. Og svo er ójöfnuðurinn sem við þekkjum að ríkir milli þróunarlanda og vestrænna ríkja og skapar hvata til þess að fólk reynir að leita sér betri lífskjara og flytur. Sá ójöfnuður gerir það að verkum að það vonast til að geta fengið betra líf og betri tekjur annars staðar. Ríkari lönd þar sem tekjumöguleikarnir eru meiri toga í það. Þetta er hálfgerð beita af hálfu þeirra aðila sem eru gerendurnir í þessu, að reyna að fá fólk til að koma og þá er beitan yfirleitt sú að bæta lífskjör, fólki eru boðin góð laun o.s.frv.

Það er margt fleira sem kemur inn í þetta og ég hefði gjarnan viljað koma því að í næstu ræðu (Forseti hringir.) og bið herra forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.