151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í fyrri umræðu um þetta mál gerði ég við það nokkrar athugasemdir sem eiga það allar sameiginlegt að mér þykir skorta á að litið sé á heildarmyndina sem hér er við að fást þrátt fyrir að málið sem slíkt, ég ítreka það núna, sé mjög jákvætt og vissulega skref í rétta átt. En ef ekki er litið á undirliggjandi ástæður, það hvernig brotastarfsemin fer fram og hvernig hún tengist öðrum brotum, þá er hætt við að þær aðgerðir sem ráðist er í skili ekki þeim árangri sem þær gætu skilað ella. Ég náði ekki alveg að klára það sem ég ætlaði að fara yfir varðandi þetta heildarsamhengi við 2. umr. málsins. Þegar frá var horfið var ég búinn að rekja stuttlega með hvaða hætti greiningardeild ríkislögreglustjóra útskýrir það í skýrslum sínum, mjög góðum skýrslum, gríðarlega mikilvæg gögn, hvernig glæpagengi sem standa að smygli á fólki og mansali misnota þau kerfi sem hér eru, til að mynda hælisleitendakerfið og velferðarkerfið. Þegar frá var horfið var ég byrjaður að fara yfir að það væru tvenns konar áhrif, annars vegar það sem upp á ensku er kallað „Pull factor“ eða aðdráttarafl lands og hins vegar, ég nefni ensku heitin af því það er einfaldlega vitnað í þau í skýrslunni, „Push factor“ sem þýtt er á íslensku sem þrýstingur, hvernig þetta tvennt getur spilað saman. Og til þess að útskýra samhengið við mansal ætla ég að vitna beint í kafla skýrslunnar um mansal og smygl á fólki. Þetta er skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2017, skýrsla sem markaði ákveðin tímamót í umfjöllun um þessi mál hér á landi þótt hún hefði átt að vekja mun meiri athygli en raun bar vitni. En þar segir, með leyfi forseta:

„Álag á landamærum helst m.a. í hendur við þá stefnu sem stjórnvöld móta og fylgja hverju sinni.“

Þetta er algjört grundvallaratriði í þessum málum. Stefnan sem stjórnvöld senda frá sér, þau skilaboð sem þaðan koma, hefur áhrif á menn með þeim hætti sem svo er útskýrt:

„Þeir þættir sem hvetja farandfólk til að halda til Evrópu kallast í þessari skýrslu „aðdráttarafl“ (e. Pull factor). Meðal slíkra þátta eru atvinnutækifæri, frelsi, skipulag velferðarmála og almennar væntingar um betri möguleika í nýjum heimkynnum auk þess sem vel er þekkt að reynsla og velgengni þeirra sem á undan hafa farið skiptir miklu.

Framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda hefur á undanliðnum misserum verið fallin til að auka „aðdráttarafl“ (e. Pull factor) Íslands sem áfangastaðar fyrir farandfólk frá Evrópu í leit að betri lífskjörum.“

Þessu til rökstuðnings má nefna þróunina á hinum Norðurlöndunum og svo er það rakið hér.

Aðalatriðið er að þessi kerfi eru misnotuð, annars vegar af brotamönnunum sjálfum, þ.e. beint í eigin þágu, en einnig til að ná fólki af stað, saklausu fólki sem verður svo jafnvel fórnarlömb mansals. Þetta aðdráttarafl sem Ísland hefur verið að auka er nýtt til þess að tæla fólk hingað og gera það jafnvel skuldsett glæpamönnunum. Þannig er fólk í raun veitt í þetta mansal og þess vegna er svo mikilvægt að kerfið okkar sé ekki til þess fallið að auðvelda slíkum hópum að gera út á Íslandi, að selja Ísland sem áfangastað og tæla þannig fólk í gildru mansals. Við höfum bent á að stjórnvöld í Danmörku og víðar á Norðurlöndunum hafa gert sér grein fyrir þessu og séu að gjörbreyta sínum kerfum. Við getum nefnt Danmörku sem dæmi. Þar hefur kerfinu verið breytt til þess að Danmörk sé ekki nýtt sem söluvara, sem áfangastaður, sem leið til þess að tæla fólk í hættuför sem getur endað með því að menn missi að einhverju leyti frelsið og því óhjákvæmilegt að líta á þetta í samhengi við tilraunir sem að nokkru leyti birtast í þessu frumvarpi til að takast á við mansal.

Svo segir í skýrslunni að skipulögð glæpastarfsemi, m.a. þessir þættir hennar, fari mjög vaxandi. Og áður en ég kem að því, af því að ég veit ekki hvað mér endist tíminn, ætla ég aðeins að víkja að inngangsorðum þessarar skýrslu, samantektinni, því þar er í tiltölulega stuttu máli farið ágætlega yfir þessi áhrif í heild. Þar segir með leyfi forseta:

„Lögreglan telur að smygl á fólki færist í vöxt og haldist m.a. í hendur við mikla fjölgun þeirra sem óska alþjóðlegrar verndar hér á landi. Þess þekkjast dæmi að einstaklingar frá löndum sem Útlendingastofnun skilgreinir sem „örugg ríki“ færi sér markvisst í nyt móttökukerfi um alþjóðlega vernd á Íslandi í þeim tilgangi að stunda hér „svarta atvinnu“ eða brotastarfsemi.“

Hér kemur smáathugasemd frá mér, herra forseti. Ég held að það sé rétt að við leitumst við að gera greinarmun á þeim sem koma hingað og stunda svarta atvinnustarfsemi, þ.e. á þeim sem greiða ekki skatta og svo þeim sem eru ófrjálsir, hafa í raun verið sviptir frelsinu með því að setja sig í skuld við hættulegt fólk. Hins vegar er oft og tíðum erfitt að greina alveg mörkin þarna á milli og lögreglan er ekki öfundsverð af því hlutverki. En eins og ítrekað er kallað eftir í skýrslunni þá þarf hún einmitt á meiri mannafla að halda, tækjabúnaði, heimildum og slíku til að geta tekist á við þennan breytta veruleika sem mætir okkur hér á Íslandi.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Dæmi eru um að menn sem dvalist hafa hér á landi sem umsækjendur alþjóðlegrar verndar hafi stundað ólöglega starfsemi, „svarta atvinnu“ eða afbrot, og hafi, eftir að hafa verið neitað um vernd og vísað frá Íslandi, snúið aftur fáum dögum síðar og tekið upp fyrri ólöglega iðju.“

Í skýrslu greiningardeildar frá 2015 var í kafla um horfur og framtíðarþróun varað sérstaklega við hættu á vinnumansali og vændi. Í skýrslunni sagði:

„Vændi og mansal gætu aukist m.a. í tengslum við stóraukin umsvif í byggingariðnaði og ferðamannaþjónustu. Vöxtur í byggingariðnaði skapar hættu á ólöglegum innflutningi á verkafólki og dæmi eru um að viðkomandi þræli myrkranna á milli við slæm kjör. Dæmi eru um að brotamenn tengdir vinnumiðlunum eigi þátt í mansali með því að blekkja og misnota einstaklinga sem koma á þeirra vegum. Þá eykst hættan á að svört atvinnustarfsemi muni þrífast í tengslum við aukin umsvif í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.“

Svo segir og þá erum við komin aftur að efni skýrslunnar frá 2017:

„Þessi virðist því miður hafa orðið raunin. Lögregla hefur sterkar grunsemdir um mansal í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins ekki síst þeim sem hafa vaxið hratt á undanförnum tveimur árum. Vændisstarfsemi hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum og er þjónustan auglýst á vefsíðum og samfélagsmiðlum.

Í skýrslum liðinna ára hefur greiningardeild ítrekað varað við því að þeir sem leiti alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og jafnvel kúgunum af ýmsum toga. Slík misnotkun er þekkt í nágrannaríkjum og tengist oft „svartri atvinnustarfsemi“.“

Herra forseti. Hér er vikið annars vegar að þeim sem eru, eins og það er orðað í skýrslunni frá 2015, látnir þræla myrkranna á milli en einnig að vændi. Í skýrslunni er alveg sérstakur kafli um þann þátt þar sem kemur m.a. fram að vændi tengist í sumum tilvikum mansali. Það er að segja að þessi gengi sem stunda smygl á fólki hneppi fólk, og þá aðallega konur, í vinnu við vændi. Í skýrslunni frá 2019, þeirri nýjustu, er bent á að það hafi orðið sprenging í framboði á vændi á Íslandi og er því jafnframt lýst með hvaða hætti kerfið sé misnotað til þess að tæla ungar konur inn á þá braut.

Þetta hljótum við að vilja skoða í samhengi við þá afmörkuðu tilraun sem birtist í frumvarpinu sem hér er til umræðu, til að stemma stigu við mansali og því að fólk sé beitt þessum alvarlegu afbrotum. Ég vil, af því að ég sé að tíminn er að renna frá mér, ítreka mikilvægi þess að í þeirri vinnu sem við tekur hjá stjórnvöldum í þessari baráttu sé litið til ábendinga og í rauninni ákalls lögreglunnar um eðli þessa vanda og þær aðferðir sem þurfi til þess að takast á við hann. Í hverri skýrslunni eftir aðra sendir lögreglan í rauninni frá sér neyðarkall, útskýrir að hún hafi ekki þann mannskap, þá tækni, þá þekkingu, þann tækjabúnað, þær aðstæður sem þurfi til að takast á við þennan breytta veruleika.

Ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að með þessu frumvarpi eru stigin jákvæð skref en þau koma að takmörkuðu gagni ef þau eru ekki hluti af heildarátaki sem lítur á raunverulegt eðli vandans og rætur hans og gerir stjórnvöldum, lögregluyfirvöldum, félagsmálayfirvöldum og fleirum raunverulega kleift að takast á við þennan breytta veruleika.