151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við erum að ljúka umræðu um þetta ágætismál. Það er breyting á almennum hegningarlögum þar sem við erum að skýra betur ákveðna þætti í lögum sem varða mansal, sem er mjög jákvætt. Við þingmenn höfum farið yfir ýmsa möguleika á því að bæta enn meira þetta umhverfi allt saman. Við höfum líka bent á nauðsyn þess að styrkja eftirlitsstofnanir og þá sem eru að reyna að uppræta þá starfsemi sem liggur að baki mansali. Það tekur á sig margar myndir, vinnumansal, mansal í vændi og fleira. Svo má líka velta því fyrir sér hvers konar hópar það eru, hvers konar glæpamenn það eru, sem hafa af því atvinnu og græða á því að selja fólki ferðir út í óvissuna á bátum eða með öðrum hætti í von um betra líf. Margir komast á leiðarenda en þeirra bíður ekkert endilega betra líf þar sem þeir lenda. Þetta er féþúfa sem þarf að uppræta. Oft og tíðum er líklega verið að hafa aleiguna af fólki, eða því sem næst. Eftir því sem maður heyrir — maður þekkir þetta þó sem betur fer ekki alveg ofan í kjölinn — er verið að efna til skulda sem alþjóðlegir glæpahringir geta svo innheimt, sem teygja anga sína út um víða veröld.

En eftir því sem Ísland er með sterkari löggjöf, ákveðnari reglur og reynir að koma í veg fyrir að þessir glæpamenn selji fólki hugmyndina um betra líf, eða flytji með valdi til Íslands fólk sem þeir hafa komið höndum yfir, þeim mun minni líkur eru á að slíkt gerist. Ég ítreka, herra forseti, að ég tel mikilvægt að við förum í að efla t.d. löggæslustofnanir sem fást við skipulagða glæpastarfsemi. Inni á þeirra borði eru örugglega allt of mörg mál, eins og við höfum reyndar séð í skýrslum ríkislögreglustjóra, sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi og mansali. Þarna þurfum við að spyrna við fótum og segja: Við ætlum að styrkja þessar stofnanir okkar til þess að geta brugðist við.

Við eigum að senda þau skilaboð, hvert sem er, að við tökum mjög hart á þeim sem stunda slíka starfsemi, tökum hart á þeim sem selja hingað fólk í einhvers konar nauðung, tökum hart á þeim sem við náum, sem smygla hingað fólki, og líðum það ekki. Við eigum að reyna að koma í veg fyrir að glæpamenn selji fólki þá hugmynd að borga fólki fyrir að koma hingað í leit að betra lífi sem er svo óvíst að það fái yfirleitt. Við þurfum að senda út þau skilaboð. Við eigum á sama tíma að sjálfsögðu að standa okkar plikt í því að taka á móti fólki sem er raunverulega í neyð og fara í gegnum þær stofnanir sem til þess eru bærar að taka ákvarðanir eða meta og mæla með slíku.

Þetta hefur verið ágætisumræða, herra forseti. Ég tel að málið sé gott. Það er til þess fallið að skýra og styrkja. Þó má gera töluvert mikið meira og vonandi verður hægt að bregðast við því í náinni framtíð.