151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Hér ræðum við breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Það er mjög áhugavert málefni sem við ræðum hér. Ísland hefur, eins og við vitum öll, getið sér gott orð eða hefur á sér gott orð í kvikmyndaheiminum. Hér hafa verið teknar upp stórmyndir og töluverður áhugi verið á því. Ég ætla að leyfa mér að þakka og hæla Íslandsstofu og þeirri starfsemi sem þar er, sem byggir á því að laða til sín aðila í kvikmyndageiranum, fyrir framtakið. Það hefur gengið mjög vel og við eigum að þakka fyrir þegar vel gengur og vel er gert og vil ég hér með gera það.

Hér er meðal annars verið að fjalla um endurgreiðslur og verið að lengja gildistíma þeirra laga sem nú eru í gildi til ársins 2025 auk þess að skýra endurgreiðslureglurnar og slíkt. Það hefur hins vegar komið fram að samkeppnin í þessu er hörð. Mörg lönd berjast um að fá til sín þessa atvinnugrein. Þetta er stór og mikil atvinnugrein og margir að berjast um að fá hana til sín því að það er umtalsverð velta í kringum þetta sem kallar á margs konar mannskap og tæki og tól. Samkeppnin er nokkuð hörð og þar skiptir endurgreiðslukerfi töluvert miklu máli. Ég ætla alls ekki að þykjast þekkja endurgreiðslukerfi, hvorki hér né annars staðar, ofan í kjölinn. Maður veit þó að þetta er mismunandi, það er mismunandi hve mikið er endurgreitt og reglur eru mismunandi. Eftir því sem mér er sagt, ég tek það fram að ég hef ekki náð að kynna mér það algjörlega sjálfur, er bókhaldið eða umsýslan í kringum þetta mismunandi líka, enda er það svo sem ekkert skrýtið að mismunandi reglur gildi um þetta.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera samkeppnishæfir þegar kemur að þessari atvinnugrein, þ.e. að laða til okkar kvikmyndagerðarmenn. Það er mjög mikilvægt að við höfum þá reglur sem eru skýrar, augljósar og samkeppnishæfar. Ég ætla ekki á þessum tímapunkti að þykjast hafa vit á því að geta dæmt um það hversu hátt hlutfallið á að vera. Það skiptir sjálfsagt líka máli hver annar kostnaður er hjá þessum framleiðendum, hvernig reglurnar eru annars útlítandi, hvenær endurgreiðsla berst og ýmislegt svoleiðis. Ég vil árétta að það er mjög mikilvægt að við sinnum þessu því að ég held að þessi starfsemi sem er í kringum kvikmyndagerðina styrki líka margs konar aðra innviði og þekkingu. Fólk hefur áhuga á að mennta sig í þessum greinum og við höfum að sjálfsögðu, að ég held, notið góðs af því að okkar frábæra listafólk hefur kynnst erlendum aðilum sem hafa þá um leið getað miðlað til þess af reynslu sinni, jafnvel ráðið viðkomandi í verkefni fyrir sig o.s.frv. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að við horfum á greinina heildrænt, að við eigum öfluga skóla til að mennta leikara, kvikmyndagerðarfólk og alla þessa fjölmörgu aðila sem ég hef ekki hundsvit á hvað heita, sem koma að kvikmyndum, að klippingu, hljóði, ljósum og öllu þessu. Við þurfum að passa að hér á Íslandi sé til bæði þekking og starfskraftur sem kann hlutina eins og við höfum sýnt undanfarið. Við eigum að hafa okkar umhverfi þannig að það laði til sín einstaklinga sem vilja læra og vinna við þennan geira.

Það er mjög freistandi að ræða hér aðeins líka þann góða árangur sem íslenskir listamenn hafa náð í bæði tónlist og kvikmyndagerð, leikstjórn og í leik. En það ber að sjálfsögðu líka orð Íslands erlendis þegar þetta góða fólk kemur sér á framfæri og nýtur trausts og er trúverðugt í sínum störfum. Við sjáum líka að Íslendingar geta sér jafnframt gott orð við aðkomu að kvikmyndum og líka sjónvarpsþáttum og þegar ég tala um kvikmyndir er ég að tala um það einnig að við stöndum okkur vel í því, eða okkar ágæta listafólk.

Nefndin fjallar um málið og gerir smávægilegar breytingar, held ég að sé óhætt að segja, eða alla vega ekki margar breytingar á frumvarpinu. Hér eru meðal annars lagðar til breytingar er varða staðfestingu kostnaðaruppgjörs sem skylt er að leggja fram. Eftir því sem ég hef náð að lesa meira varðandi umsagnir um málið, sem ég reyndar gleymdi að taka með mér í ræðupúltið, þá er það alveg ljóst að þetta er jákvætt, verið að bæta og skýra og ber að fagna því.

Hér er fjallað um aðgang að kynningarefni þeirra verkefna sem eru grundvöllur endurgreiðslu og ýmislegt annað og svo er verið að framlengja gildistímann. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum framtíðarsýn. Það hefur ekki alltaf verið einkennismerki þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr nú um stundir að hafa framtíðarsýn, að við getum vitað hvað er handan við hornið, hvað blasir við. Þetta hefur verið ríkisstjórn smáskammta, ríkisstjórn viðbragða, ekki ríkisstjórn planleggingar eða þess að segja við okkur: Þessa leið ætlum við að fara. Við sáum það í Covid-faraldrinum, sem er nú sem betur fer að taka enda, að við vorum of svifasein að bregðast við, svifasein að útvega okkur bóluefni, svifasein í aðgerðum og aðgerðirnar voru að miklu leyti viðbrögð við því, ég ætla ekki að fullyrða algerlega, en að miklu leyti.

Það er líka ljóst að kvikmyndaiðnaðurinn hefur mikil áhrif á aðrar atvinnugreinar sem eru að miklu leyti óskyldar en þó með tengingu eins og ef við horfum á ferðaþjónustuna. Það má líka velta því fyrir sér hvort aðrar atvinnugreinar, sem við mörg hver erum mjög stolt af, eins og landbúnaður og sjávarútvegur, njóti mögulega góðs af því líka, þ.e. þegar okkar hreina og fagra náttúra kemur fyrir. Það er í það minnsta freistandi að hugsa þannig að allt þetta hafi jákvæð áhrif.

Í nefndarálitinu er líka fjallað um ákveðið álitamál, hvort í raun sé verið að endurgreiða kostnað fyrir sömu hlutina á fleiri en einum stað. Ég held að það sé mikilvægt að styðja það sem fram kemur í nefndarálitinu, að það sé skoðað sérstaklega. Sú mögulega ofgreiðsla sem rætt er um er eitthvað sem ég held að menn verði hreinlega að einhenda sér í að rannsaka og komast að. Þó að við viljum hafa gott kerfi og tiltölulega einfalt og gagnsætt þá eigum við að sjálfsögðu að gera þá kröfu að eingöngu sé greitt einu sinni fyrir sama hlutinn. Í það minnsta er það mín persónulega skoðun.

Hér gerir nefndin tillögu um breytingar á ákveðnu orðalagi sem ég held að sé verulega til bóta. Málið sem slíkt ætti líka að verða okkur tilefni til þess að velta því fyrir okkur hvort við getum sótt enn frekar fram á þessum vettvangi. Er mögulega hægt að gera eitthvað meira? Ég efast ekki um að okkar ágæta fólk sem er að sækja þessa starfsemi hingað til landsins hafi alls konar hugmyndir um hvað hugsanlega megi gera meira til að laða fleiri aðila hingað að verkefnum. Þá held ég að það sé býsna snjallt að nota tímann núna fyrst við erum búin að framlengja ákvæðið um endurgreiðslurnar og fara mögulega yfir kvikmyndastefnuna, hvort þar sé eitthvað sem er enn hægt að bæta. Þó að hún gildi vissulega til ársins 2030 þá er engin spurning að við eigum sífellt að hafa hana í skoðun og það er það sem ég er að reyna að koma orðum að.

Við eigum líka að vera óhrædd við að horfa til þess hvernig aðrir gera hlutina og þó að margir vilji nú segja um marga þingmenn að þeir séu hræddir við að skoða eitthvað nýtt þá eigum við alls ekki að vera það og við eigum að fylgjast með og skoða hvað aðrir eru að gera. Það þýðir ekki endilega að við þurfum að apa allt upp sem gert er erlendis. Það er ekki endilega allt gott sem kemur að utan. Við eigum hins vegar að læra og nota það sem aðrir hafa brennt sig á, nota það sem aðrir gera vel til þess að styrkja umfang þessarar atvinnugreinar, kvikmyndagerðar.

Ég man eftir því, þótt ég muni reyndar ekki tölurnar, en það er nú eins og það er, að fyrir nokkrum árum var unnin skýrsla um efnahagsleg áhrif kvikmyndagerðar. Þá var mjög áhugavert að sjá hversu stór atvinnugrein þetta er í rauninni bæði í tölum og í mannafla og það eru tækifæri víða um land tengd kvikmyndagerðinni, í þorpum og í bæjum, í borginni, í kvikmyndaverum. Hér eru menn að byggja upp kvikmyndaver og vonandi gengur það bara glæsilega og vel.

Það er líka búið að sýna að menn geta samið tónlist norður á Akureyri, klippt myndir norður í Skagafirði og skapað ákveðna stemningu, ef þannig má orða það, víða um land í tengslum við kvikmyndagerð, gerð sjónvarpsþátta o.s.frv. Það er líka gaman að hugsa til þessa áhuga á Íslandi og hvað Íslendingar, margir hverjir, hafa staðið sig vel erlendis, kosið að vinna á Íslandi en skapað atvinnu. Ég nefni bara sem dæmi, eitt af mörgum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Það er algjörlega frábært hve mörg verkefni hafa orðið til í tengslum við gerð tónlistar einmitt fyrir þá mjög svo góðu hljómsveit.

Eins og ég segi, herra forseti, frumvarpið er að mínu viti gott, þar er verið að skýra ákveðna hluti, eins og ég skil það. Ég ítreka að ég gleymdi að taka með mér umsagnirnar sem ég var búinn að renna yfir en ekki lesa algerlega staf fyrir staf en geri það vonandi fyrir mína seinni ræðu. En mikilvægast er að við erum að skýra málið og senda þau skilaboð að við ætlum að framlengja kerfið sem við höfum, við ætlum áfram að bjóða velkomna þá aðila sem vilja koma til Íslands og gera kvikmyndir.

Ég ætla að leyfa mér að segja að vonandi verði mikill kraftur í þessu núna þegar við sjáum fyrir endann á faraldrinum. Við þurfum að fara að horfa fram á við. Við þurfum að byggja upp landið. Við þurfum að búa til atvinnu. Þessi atvinnugrein er ekkert síðri en hver önnur til að gera það. Það er svo mikið sem verður til í kringum umstangið við kvikmyndagerð eða sjónvarpsþætti. Það þarf svo margs konar rekstur að koma að því. Vonandi verður sprenging, ætla ég að leyfa mér að segja, það er kannski ekki rétta orðið, en vonandi verður alla vega mikil ásókn og eftirspurn eftir því að koma til Íslands og framleiða kvikmyndir. Ég held að það sé vel þess virði að styrkja áfram kvikmyndagerðina, bæði vitanlega eins og við erum að reyna að gera með okkar innlendu kvikmyndagerð, hafa sterkar stofnanir, sterka skóla og sterkt nám fyrir einstaklinga sem vilja mennta sig í þessum geira eða í kringum hann og að sjálfsögðu að endurgreiðslurnar séu með þeim hætti að þær svari því kalli og samkeppni sem við augljóslega eigum í við mörg lönd nær og fjær.

Ég kom ekkert inn á það, og var reyndar búinn að gleyma því, að hér var minnst á eitt dæmi, ef ég man rétt, í dag eða gær. Einhverjir aðilar ákváðu að fara annað en til Íslands til að taka upp mynd sem á að gerast á Íslandi. Nú þekki ég ekki þetta dæmi í þaula og vonandi er það eitthvað sem við getum skýrt. Vonandi er það ekki vegna þess að okkar kerfi sé eitthvað skrýtið, vonandi er það vegna þess að einhverjar aðrar aðstæður eða hlutir kalla á það. Ég held að það væri áhugavert að heyra hvað það er sem gerir það að verkum að þessir aðilar tóku íslenska kvikmynd ekki upp á Íslandi.