151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hér er á ferðinni ágætismál sem skiptir atvinnulífið máli og er hluti af þeirri viðspyrnu sem við erum öll að vonast til að gangi hratt og vel fyrir sig nú þegar veirufaraldurinn er á undanhaldi og bólusetningar ganga ágætlega. Hér er sem sagt verið að framlengja lög um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar fram til ársins 2025. Það eru jákvæðar umsagnir sem hafa borist um þetta mál. Við í Miðflokknum styðjum það. Þetta skiptir kvikmyndaiðnaðinn máli og verður innspýting inn í efnahagslíf okkar að laða að erlenda kvikmyndagerð. Íslandsstofa hefur sent inn jákvæða umsögn og Samtök iðnaðarins og auk þess gefur Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda jákvæða umsögn. Ég ætla svo sem ekki að fara neitt nánar yfir þær, en það er gott að þingmenn kynni sér þær vegna þess að það gefur mynd af því hvernig fagaðilar sjá þetta fyrir sér, sem er að sjálfsögðu mikilvægt innlegg inn í málið.

Ég vil aðeins koma inn á skýrslu sem Ríkisendurskoðun gerði um endurgreiðslufyrirkomulagið, ég held að það hafi verið árið 2016. Þessi skýrsla er mjög athyglisverð, hún er nú tiltölulega nýleg, hún er ekki frá 2016. Þar kemur fram að Ríkisendurskoðun kannaði hvort nokkuð væri verið að misnota þetta kerfi. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að við sýnum aðhald í þessum efnum. Hér er náttúrlega um töluverðar upphæðir að ræða sem fara í endurgreiðslukerfið og jafnvel hugmyndir um að hækka þær til að styrkja samkeppnishæfi landsins, sem eru að mörgu leyti mjög skynsamleg rök. Þær ánægjulegu fréttir komu frá Ríkisendurskoðun eftir það verkefni að rannsaka hvort það væru einhverjar vísbendingar um að kerfið væri misnotað að svo reyndist ekki vera. Skýrslan tekur af allan vafa um hvort misnotkun á endurgreiðslukerfi kvikmynda hafi viðgengist. Það eru mjög ánægjulegar fréttir. Í þessari skýrslu er jafnframt fjallað um mikilvægi endurgreiðslukerfisins fyrir samkeppnishæfi Íslands. Þar kemur fram að árið 2016 hafi löggjafinn talið ástæðu til að hækka hlutfall endurgreiðslu til kvikmyndaframleiðslu. Ástæðurnar voru m.a. þær að gæta þyrfti að samkeppnishæfi Íslands þegar kæmi að því að laða að erlend verkefni á sviði framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Það ríkir mjög mikil samkeppni í þessum geira. Það eru mörg lönd sem leitast við að fá þessi verkefni til sín og við Íslendingar erum í þessu samkeppnisumhverfi, þannig að við getum í raun og veru ekki boðið lakari kjör en nágrannaþjóðir okkar að mínu mati hvað þetta varðar.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að kvikmyndaframleiðendur búa við ófyrirsjáanleg starfsskilyrði sem helgast m.a. af nokkrum þáttum, eins og smæð markaðarins og takmörkuðu fjármagni til greinarinnar og svo kemur náttúrlega gengisþróunin alltaf inn í þetta og svo bara almennar verðhækkanir innan lands.

En það er líka rétt að hafa í huga varðandi endurgreiðslukerfið að þetta er ekki styrkur í eiginlegum skilningi þess orðs, heldur er þetta endurgreiðsla á hluta af þeim kostnaði sem þegar hefur fallið til vegna framleiðslu kvikmyndaverka. Þegar endurgreiðslan kemur hefur þegar verið greitt í ríkissjóð umtalsvert meira en endurgreiðslunni nemur. Það er bara oft og tíðum þannig eins og ótal skýrslur hafa sýnt fram á. Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hafa þannig eingöngu jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð ríkissjóðs og eru án áhættu fyrir ríkissjóð því að skila þarf endurskoðuðu fullnaðaruppgjöri áður en til endurgreiðslu kemur. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Slíkt kerfi er einfalt og gagnsætt og hefur þessi framkvæmd verið talin helsti styrkur þessa kerfis af erlendum aðilum sem hafa framleitt kvikmyndir á Íslandi. Þetta er athyglisverð skýrsla sem kemur fram af hálfu ríkisendurskoðanda og ánægjulegar niðurstöður í henni að finna.

Mig langar næst að koma aðeins að áhugaverðu riti sem kom út fyrir nokkrum árum um hagræn áhrif kvikmyndalistar og er eftir Ágúst Einarsson. Niðurstaða hans umfjöllunar er að aukin umsvif í kvikmyndaiðnaði eru góð fjárfesting fyrir ríkisvaldið fyrir utan það að þau auka fjölbreytni og dýpt í menningu Íslendinga.

Þetta er mjög áhugavert rit, heilmikið rit, og vil ég hvetja þingmenn til að kynna sér það vegna þess að það er margt mjög áhugavert sem kemur þar fram. Ef ég gríp aðeins niður í nokkur atriði, með leyfi forseta:

„Lög um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar hafa reynst vel en sambærileg lagaákvæði eru víða. Meðal annars hafa margar erlendar kvikmyndir fengið endurgreiðslu sem ekki hefðu verið teknar upp hérlendis ef ekki hefði komið til þeirra. Erlendar kvikmyndir, sem teknar eru upp að hluta til hér á landi, hafa í för með sér margvísleg umsvif innlendra fyrirtækja á sviði kvikmynda auk margvíslegrar þjónustu. Ýmsar stórmyndir hafa að hluta til verið teknar upp hérlendis …“

Þetta þekkjum við. Og ýmsar stórmyndir hafa að hluta til verið teknar upp hérlendis, sem er náttúrlega gríðarleg innspýting fyrir efnahagslíf okkar og á því svæði þar sem kvikmyndir eru teknar.

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Ákveðið er í fjárlögum hvers árs hversu miklu fé skal varið í þessar endurgreiðslur. Þar sem ekki er vitað hve margar eða hvaða kvikmyndir fá endurgreiðslu og endurgreiðslan er hlutfall af framleiðslukostnaði liggur heildarfjárhæðin ekki fyrir fyrr en árið er liðið og þá er upphæðin í fjárlagafrumvarpinu, eða fjárlögum, líklega langt frá því að vera sú rétta. Það er því eðlilegt ríkisreikningar fyrir viðkomandi ár séu skoðaðir til að fá rétta fjárhæð en þeir liggja yfirleitt ekki fyrir fyrr en einu til tveimur árum eftir framlagningu fjárlagafrumvarps.

Fjármögnun kvikmynda er um margt óvenjuleg miðað við annan fyrirtækjarekstur. Venjulega afla fyrirtæki fjármagns til starfsemi sinnar með því að leggja fram eigið fé, t.d. í formi hlutafjár, og/eða afla lánsfjár til lengri eða skemmri tíma. Þegar fyrirtæki hafa starfað um nokkurt skeið geta þau einnig fjármagnað hluta, eða jafnvel alla starfsemi sína, með uppsöfnuðum hagnaði eða með sölu eigna.“

Í Evrópu veita opinberir aðilar talsverð framlög til að styrkja kvikmyndagerð. Stefna stjórnvalda í Evrópu er að styrkja kvikmyndaiðnaðinn, m.a. til þess að það sé ekki allt of mikið af bandarísku efni, það er nú einu sinni þannig. Hins vegar er venjulega ekki opinber aðstoð við framleiðslu kvikmynda í Bandaríkjunum og oft er erfitt að selja erlendar kvikmyndir á bandarískum markaði vegna áhugaleysis þeirra á erlendu efni. Bandaríkjamenn virðast ekki hafa mikinn áhuga nema á því sem er framleitt í Bandaríkjunum þegar kemur að kvikmyndum. Það er nú bara einu sinni þannig. En þeir eru þó með árlega verðlaunaafhendingu, hina frægu Óskarsverðlaunaafhendingu, þar sem jú er valin besta erlendra myndin og það er náttúrlega mjög mikilvægt.

Þá segir í ritinu, með leyfi forseta:

„Endurgreiðsla á kostnaði getur að hámarki numið 20% af framleiðslukostnaði, eins og fyrr var vikið að. Fjölþjóðlegar reglur, sem Íslendingar eru bundnir af, kveða á um að innlendir styrkir megi ekki nema meiru en 50% af framleiðslukostnaði en hærra hlutfall er talið skekkja samkeppnisstöðu gagnvart öðrum

Til viðbótar innlendum opinberum styrkjum frá Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslu vegna kostnaðar eru framlög erlendra sjóða mikilvæg auk fjármögnunar frá erlendum meðframleiðendum eða kaupendum eins og sjónvarpsstöðvum, innlendum og erlendum.

Þessi mikla þátttaka í fjármögnun erlendis frá undirstrikar einmitt mikilvægi kvikmyndaiðnaðarins í gjaldeyrisöflun. Þrátt fyrir að styrkir fáist til kvikmyndagerðar úr ýmsum áttum þá er ekki á vísan að róa í þeim efnum og fjármögnun er eitt mesta, ef ekki mesta, vandamál íslenskra kvikmyndaframleiðenda og hefur verið svo um áratuga skeið. Eins og áður var lýst skila fæstar kvikmyndir hagnaði og á það jafnt við um íslenskar myndir og kvikmyndaframleiðslu í nálægum löndum. Hjá mörgum framleiðslufyrirtækjum skipta stuðningsþættir eins gerð auglýsinga fyrir innlendan og erlendan markað og leiga á tækjabúnaði til innlendra og erlendra aðila miklu máli við að styðja við fjármögnun kvikmynda hjá viðkomandi fyrirtækjum.“

Störf í kvikmyndaiðnaði eru víða, m.a. við framleiðslu á myndrænu efni, við dreifingu og við sýningar o.s.frv. Þannig að það eru fjölmörg störf í þessum geira sem skipta miklu máli. Og sérstaklega í því árferði þegar atvinnuleysi er mikið skiptir hvert og eitt verkefni gríðarlega miklu máli. Við þekkjum það náttúrlega að þetta hefur allt legið niðri vegna veirufaraldursins, en vonandi sjáum við fram á að nú fari verkefni af þessum toga, eins og fleira sem lýtur að atvinnulífinu, á fullt á ný.

Síðan má benda á að það er náttúrlega fullt af störfum sem tengjast kvikmyndum óbeint, þ.e. að afla aðfanga frá öðrum fyrirtækjum og einnig gistiþjónusta, flutningar, sem eru töluverðir, og veitingahús og ýmiss konar þjónusta sem er í kringum kvikmyndaiðnaðinn. Óbein eða afleidd störf eru því mörg sem leiða með beinum og óbeinum hætti að aukinni neyslu á viðkomandi svæði. Þannig að þetta er allt saman jákvætt og mikilvægt.

Ég sé að tíminn er að verða búinn, herra forseti, og rétt að halda sig innan tímamarka. Ég vil að lokum segja að það er ótvíræður stuðningur við þetta frumvarp af umsagnaraðilum, sem er gott. Síðan má segja að Íslandsstofa hafi einmitt komið með mjög góða umsögn sem rétt er að skoða. Ég kem kannski inn á það síðar. Ef hæstv. forseti gæti sett mig aftur á mælendaskrá yrði ég þakklátur fyrir það.