151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:34]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir góða ræðu. Ég hjó eftir því að hann nefndi rannsóknir Ágústs Einarssonar á þessu sviði sem hefur einmitt gefið út bók um þetta efni, um hagræn áhrif kvikmynda, með nokkuð skýrum og skilmerkilegum niðurstöðum hvað það varðar að menningin hefur auðvitað gildi í sjálfu sér en hefur einnig reynst þjóðinni mikilvægur og stór atvinnuvegur. Þessi rannsókn hans um kvikmyndagerðina var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi en hann hafði áður gefið út hliðstæða rannsókn um hagræn áhrif tónlistar þar sem hliðstæðar niðurstöður komu fram, þ.e. um efnahagslegt mikilvægi listgreinarinnar sem mér finnst skipta máli í þessu samhengi. Mér hefur fundist það áhugavert í skrifum hans þar sem hann talar um menningarneyslu hérlendis og að hún sé mikil. Hann skiptir umræðunni upp í tvo meginþætti, annars vegar eigi að horfa á menninguna og listgreinarnar með gildi í sjálfu sér en hins vegar að ákveðin feimni og tregða hafi verið til að viðurkenna að listgreinar séu mikilvægar atvinnugreinar og þegar að þeim er hlúð séu þetta greinar sem þegar hafi sýnt fram á mikilvægi sitt en geti orðið enn stærri og enn þýðingarmeiri. Ég er hv. þingmanni sammála um að styðja þetta mál en hans punktur hefur sýnst vera sá að með auknum og markvissum stuðningi gætum við verið að horfa á að þessar greinar gætu jafnvel orðið stóriðja. Kannski er spurningin núna hver séu sjónarmið þingmannsins um það.