151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta innlegg. Það var mjög áhugavert að lesa rit Ágústs Einarssonar, virkilega vel unnið og margar hliðar þarna sem maður hafði kannski ekki hugsað almennt út í sem skipta heilmiklu máli í efnahagslegu tilliti. Ég hjó einmitt eftir því, þegar ég var að skoða þetta rit og glugga aðeins í það, að þar kemur fram að hann hafi síðan unnið sams konar rit um hagræn áhrif tónlistar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma því á framfæri hér. Ég er algjörlega sammála því að þarna eigum við heilmikla möguleika. Við höfum bara séð að eftir að okkar ágæta tónlistarhús Harpa var tekið í notkun hefur orðið gríðarleg aukning í því að hingað komi erlendir aðilar og erlendir ferðamenn til þess að koma á tónleika og er það mjög ánægjulegt. Að sjálfsögðu er þetta mikil innspýting inn í þá starfsemi sem er hér í kring, gistihúsin, veitingastaðina o.s.frv., eins og kemur líka fram í skýrslu Ágústs um kvikmyndagerðina. Ég verð að segja að þetta gæti alveg orðið verulega stór atvinnustarfsemi í landinu ef við myndum halda rétt á hlutunum hvað það varðar. Stóriðja hefur verið nefnd og það er kannski alveg ágætissamlíking vegna þess að ef við sköpum það umhverfi sem nauðsynlegt er hér til þess að laða að þessa starfsemi þá eigum við mikil tækifæri. Við höfum náttúrlega þessa stórkostlegu náttúru (Forseti hringir.) sem lýtur kannski sérstaklega að kvikmyndagerðinni, til að laða slíka starfsemi hingað.