151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[18:58]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til að setja sig inn í mál sem eru í öðrum nefndum en þeirri sem maður situr sjálfur í nema þá auðvitað með kynningu. Hér er kærkomið tækifæri til að kafa dálítið ofan í þetta og hlýða á ræður sem eru allar ágætar og tala með þessu frumvarpi. Ég greip með mér nefndarálitið sem er með breytingartillögu sem mér sýnist að allir nefndarmenn séu á, einn reyndar með fyrirvara. Að öðru leyti virðist þetta ágætlega unnið.

Verið er að breyta lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi og kannski verið að setja um þetta ákveðna umgjörð eða skattalegan ramma vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar sem var með skýrslu 2019. Það er ágætt að þetta skuli virka þannig að farið sé eftir ábendingum þeirra eftirlitsstofnana sem eiga að hafa umsjón með því hvert fjármagnið fer og hvernig það er nýtt. Ég er mjög fylgjandi því.

Síðan er ágætt að komið sé fram að það sé afmörkun á því hvaða kostnaður telst til framleiðslukostnaðar og hvað það er sem myndar stofn til endurgreiðslu, það er sett í ákveðinn farveg. Verið er að lengja gildistímann sem mér finnst líka mjög gott, að það sé ákveðinn fyrirsjáanleiki næstu árin til þess að fólk hafi einhvern tíma til að setja niður verkefni því oft taka þessi verkefni langan tíma. Það er líka mikilvægt að við höldum fast í þessa endurgreiðslu og það hefur verið rætt hér vegna samkeppnisstöðu Íslands í hinum stóra heimi þannig að það er mjög gott.

Í ræðunni hér á undan ræddi hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson um Akureyri og þá aðstöðu sem búið er að byggja þar upp. Það er fullkomin aðstaða til framleiðslu á kvikmyndatónlist í Hofi á Akureyri og mjög til sóma hvernig hefur verið staðið að því. Hv. þingmaður minntist einnig á Atla Örvarsson sem hefur gert sig gildandi úti í hinum stóra heimi og er nú snúinn heim vegna þess að það er gott að búa á Akureyri og allt það.

Það er annað sem hangir líka á spýtunni. Talað er um að við þurfum að setja fleiri egg í körfuna og þetta er þá kannski liður í því að geta lyft þessu dálítið upp, þ.e. kvikmyndagerð og skapandi greinum. Mig langar sérstaklega að minnast á það sem snýr að tónlistarnámi. Við vitum sem höfum starfað í grunnskólum að tónmennt er grein innan grunnskóla sem hefur kannski ekki alltaf fengið það rými sem væri æskilegt og tónlistarkennarar hafa hreinlega lengi barist fyrir tilverurétti sínum og hefur verið erfitt fyrir þá að ná í gegn almennilegum samningum við sveitarfélögin. Ég held að við ættum aðeins að gefa því gaum vegna þess að þetta hangir allt saman, hvernig við getum náð að byggja áfram upp þessa atvinnugrein.

Ég vil líka leyfa mér að segja að framleiðsla kvikmyndatónlistar sé nýr atvinnuvegur á Akureyri. Það eru fleiri tónskáld sem munu geta verið þar og sótt um að taka upp tónlist sína þar og það hefur gefið mjög góða raun, það sem af er, veit ég. Þetta skiptir máli.

Hv. þingmaður ræddi einnig, án þess að ég ætli að fara að endursegja alla hans ræðu, Húsavík, sem sló aldeilis í gegn og við erum öll mjög stolt af. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að við minnumst þessara afreka því að þetta er ekkert annað en afrek.

Ef ég vík aðeins aftur að nefndarálitinu þá hefur greinilega verið farið vel ofan í saumana á því hvernig beri að haga endurgreiðslunum. Fjallað er um að það ætti að taka til innlends heildarframleiðslukostnaðar, sbr. 2. gr. laganna, og það má telja til stofns endurgreiðslu á heildarframleiðslukostnaði sem er á Evrópska efnahagssvæðinu, þar með talið Grænlandi og Færeyjum. En það er þó með því skilyrði að meira en 80% heildarframleiðslukostnaðar falli til hér á landi. Þetta á bæði við um kvikmynda- og sjónvarpsefni. Þetta er hið besta mál. En einnig er greinilega verið að velta við hverjum steininum á fætur öðrum vegna þess að ráðuneytið hefur skipað starfshóp sem ætlað er að meta núverandi endurgreiðslukerfi. Það er þá gert í samræmi við aðgerð sem er nr. 6 í kvikmyndastefnunni sem er til ársins 2030 og var samþykkt á síðasta ári. Nefndin sem fjallaði um þetta mál, atvinnuveganefnd, beinir því til ráðuneytisins að starfshópnum verði einnig falið að skoða útfærslurnar á breytingunni sem tengjast þessum endurgreiðslum, að skoða það hvernig það virkar að þetta sé á Evrópska efnahagssvæðinu og að kanna þá hvort umgjörðin sé nægjanlega vel unnin eða hvort gera þurfi frekari kröfur til umsækjenda, þá sérstaklega hvað varðar gögn, hvað það er sem þeir leggja til grundvallar endurgreiðslunni.

Fjallað er um mögulega ofgreiðslu í nefndarálitinu og ágætt að varpað sé ljósi á að það getur verið dálítið snúið að finna út úr því hvað skal telja til og hvað ekki. Sérstaklega núna þegar við höfum verið í kórónuveirufaraldrinum þá er allt stjórnkerfið dálítið öðruvísi og getur verið erfitt að henda reiður á öllum þeim þáttum sem þarf að taka tillit til vegna þess að samhliða þessu höfum við verið með ýmsar Covid-aðgerðir sem gætu komið á ská inn í þær aðgerðir sem um ræðir. Þetta skiptir máli og í þessu tilliti er t.d. fjallað um tekjufallsstyrkina sem voru svokallaðar Covid-aðgerðir. Þá er ætlunin — nefndin biður sem sagt um það — að starfshópurinn sem ráðuneytið var að setja á laggirnar skoði líka hvort hætta sé á einhverjum ofgreiðslum og hvernig hægt væri að bregðast við því. Það er spurning hvort það verði mögulegt að hafa yfirsýn. Á einhverjum tímapunkti verðum við komin í gegnum skaflinn þannig að hægt sé að skoða í þaula hvernig hlutunum hefur verið háttað þannig að þetta getur verið dálítið snúið.

En síðan er kannski það sem mér finnst vera mitt uppáhald í þessu. Það eru skilgreiningar á orðalagi og hugtökum og annað slíkt sem mér finnst stundum skorta á þannig að við séum öll á sömu blaðsíðu, bara svona yfirleitt í umgjörðinni okkar hér á Alþingi. Hér er tekið til að skýra þurfi orðalag og ég kann mjög vel að meta að vel sé tekið á því, t.d. segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Var bent á að í stað orðsins viðeigandi færi betur á að afmarka upplýsingaöflun nefndar við þær upplýsingar sem henni eru nauðsynlegar til að geta staðreynt kostnaðaruppgjör á grundvelli laga og reglna þar um. Nefndin fellst á það sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis.“

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta sé ágætt mál og hér liggja fyrir breytingartillögur sem við munum svo vonandi klára.

En mig langaði að fara kannski aðeins inn í það sem snýr að störfum okkar sem sitjum í Norðurlandaráði og þá sérstaklega hvernig Ísland er rækilega vel kynnt þegar verið er að veita þar verðlaun fyrir kvikmyndir, bókmenntir og fleiri hluti. Það er ánægjulegt að Ísland er oft og tíðum jafnvel í fararbroddi og ég minnist sérstaklega Hildar Guðnadóttur þegar hún var heiðruð fyrir sína vinnu. Hennar framlag var mjög ánægjulegt. Það skiptir máli vegna þess að hún er ákveðin fyrirmynd í því tilliti.

Svo er hitt að núna fleygir öllu fram, umhverfi fólks er að breytast hvað það varðar hvernig það vill haga lífi sínu og þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að standa vel að því sem við köllum oft skapandi greinar. Við byrjuðum að mínu mati dálítið seint að vekja athygli á því. Fyrir t.d. krakka í grunnskóla er ekkert skipulagt fyrr en kannski á miðstigi þó að ég viti auðvitað til þess að þar eru kennarar inni á milli sem eru með þannig áhugasvið að þeir kynna og kenna skapandi greinar. Þótt um hefðbundnar greinar sé að ræða nota þeir skapandi hugsun til að koma af stað ákveðnum þáttum.

Ef við förum aðeins til baka og veltum fyrir okkur áhrifunum sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og það afrek sem þar hefur verið unnið hefur haft þá hefur það auðvitað með sér í för skemmtilegar afleiðingar, jákvæðar afleiðingar, þannig meint að það laðar að sér fleira fólk, sérstaklega ungt fólk í tónlistarnám. Ég veit til þess að tónlistarkennarar á Akureyri hafa verið duglegir að kynna hin ýmsu hljóðfæri fyrir ungum nemendum í grunnskólum þannig að krakkar hafi tækifæri til að sækja sér tónlistarnám. Annað sem ég hef alltaf litið upp til er að tónlistarkennararnir fara út í skólana þannig að foreldrar barnanna eru oft lausir við að þurfa að skutla börnum í sérstakan tónlistarskóla. Þarna eru ýmsir þættir sem spila inn í og hafa jákvæða fylgni, getum við sagt. Þetta er mjög gott mál, þetta eru tækifæri fyrir ungt fólk.

Annað atriði er að þegar verið er að taka upp kvikmyndir á Íslandi á tímum snjalltækja þá er það auðvitað gríðarleg landkynning. Það þarf ekki nema einhvern einn sem tekur af sér sjálfu sem hann birtir, í kjölfarið fáum við kannski tíu aðra sem vilja koma og sækja landið heim. Þetta skiptir allt máli, svo ekki sé talað um að við getum boðið upp á fullkomna aðstöðu á sem flestum sviðum, hér var nefnt kvikmyndaver, ég er búin að tala um Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og okkar fullkomna stúdíó sem er í Hofi á Akureyri og við megum aldrei gleyma Húsavík.