151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[19:28]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Ég vildi koma hingað upp og þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða ræðu. Ég hjó eftir því að hann nefndi eigin reynslu úr þessum geira og að hann hefði síðan endað í öðru leikhúsi. Mér fundust þau orð áhugaverð í ljósi þess að ég held að það sé alveg hægt að sjá hliðstæðuna. Mér varð þá hugsað til virðulegs forseta sem hefur unnið í öðru leikhúsi sem dómssalurinn er. Það er kannski leikhús lögfræðinnar.

Hv. þingmaður nefndi hvaða feril og starf hann hefði sjálfur hugsað sér sem yngri maður og síðan val barna sinna. Ég trúi því reyndar að velji maður sér viðfangsefni sem maður hefur raunverulega áhuga á verði maður góður í því. Vel má vera að hv. þingmaður hefði getað endað sem fínasti leikari.

Varðandi uppbyggingu atvinnugreina hlýtur líka að skipta máli hvaða skilaboð við sendum unga fólkinu okkar og kannski bara strax í æsku barnanna okkar. Punktur þingmannsins um að okkur sé tamt að beina börnum í átt að því sem við teljum að sé praktískt kann auðvitað að breytast með tímanum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það skipti ekki líka máli varðandi atvinnuuppbyggingu hvaða skilaboð við færum börnunum okkar í þeim efnum, hvort við séum ekki markviss í því og hvort stjórnvöld eigi ekki líka að vera markviss í því að börnin hafi breiðari ramma í þeim efnum til að líta til.