151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[19:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég heyrði aðeins ávæning af þessari ræðu hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni um skrif Ágústs Einarssonar en náði ekki alveg innihaldinu. Ég þarf nú bara að lesa þetta svo að ég fræðist betur um hvað þarna er skrifað. Jú, af hverju getur akkúrat þessi iðnaður, kvikmyndagerð, ekki bara verið næsta stóriðja okkar Íslendinga? Greinilegt er að á svo margan hátt út um víðan heim er þessi iðnaður að vinna svo jákvæða hluti. Hann er að auglýsa landið, hann er að afla tekna, hann er að skapa einhvern þátt inni í okkur sjálfum sem við köllum list, sem er sérstakt áhugamál mitt að mörgu leyti. Það er einmitt einhver önnur deild inni í manni sjálfum sem tekur til starfa þegar maður er í þessum málum og það er mjög gefandi. Þetta finnur því nýjan farveg sem ég held að búi í okkur flestum. Ég gæti alveg trúað því og segi það bara að næsta stóriðjuverkefni okkar Íslendinga verður kvikmyndagerð. Hvort við höfum verið of sein á okkur? Það getur vel verið. Hnattstaðan ræður því kannski svolítið líka. Stundum hafa einhverjir þættir átt sér stað úti í hinum stóra heimi þegar þeir reka á fjörur okkar Íslendinga. Það er sennilega alveg rétt líka í þessu eins og öðru.