151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[19:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Það er auðvitað öllum ljóst og hefur komið fram fyrr í þessari umræðu að hagsmunirnir sem eru undir eru gríðarlegir. Tækifærin eru ótrúleg í þeirri alþjóðlegu framleiðslu bíómynda sem á sér stað þar sem umhverfið er þeirrar gerðar að góður bakgrunnur myndast, eða stúdíóin eru þeirrar gerðar að góð aðstaða er. Þar sem til staðar er tæknilega þekkingin og getan til að styðja við kvikmyndagerð, mannauðurinn í stéttinni, eru tækifærin ótrúleg.

Hér á Íslandi erum við með alla þessa þrjá þætti, sérstaklega tvo þeirra, upp á tíu. Miðað við stærð þjóðarinnar erum við með ótrúlega vel menntaða kvikmyndagerðarmenn og tæknifólk og allt það fólk sem starfar í þessu umhverfi. Reynslan hefur byggst upp á undanförnum árum við ótal myndir og þætti og annað slíkt sem tekið hefur verið upp hér á landi. Það má auðvitað færa rök fyrir því að í stúdíóunum, þó að þau hafi auðvitað orðið meiri og betri og stærri og tæknivæddari á undanförnum árum og misserum, sé eflaust svigrúm til vaxtar, en það sem við höfum mest af, og meira af en flestar þjóðir, er auðvitað sú ótrúlega náttúra sem við bjóðum upp á sem bakgrunn eða umhverfi kvikmyndaskota hverrar gerðar sem er, hvort sem það er Game of Thrones eða kvikmynd sem á að gerast úti í geimnum. Gagnvart flestum gerðum kvikmynda finna menn umhverfi sem heppilegt er.

Það blasir við öllum hversu mikið þessi geiri og þau fyrirtæki sem starfa í honum hafa eflst á undanförnum árum. Partur af þessu öllu, ef við horfum bara á alþjóðlega sviðið, eru hinar svokölluðu endurgreiðslur kostnaðar sem eru oft á tíðum lykilatriði þegar kemur að því að ákvarða hvar bíómynd eða þáttaröð skuli tekin upp. Þetta er svo nærri okkur, við sjáum bara áhrifin sem þetta hefur. Tekin er upp þáttaröð í Stykkishólmi og það umbyltir bænum á meðan það er í gangi. Sama á við í hverjum bænum á fætur öðrum landið um kring þar sem kvikmyndatökulið hefur í rauninni haft gríðarleg áhrif á efnahag þess tiltekna svæðis á meðan tökur eiga sér stað og síðan auðvitað á þau fyrirtæki sem í þessum bransa starfa þegar eftirvinnsla og annað á sér stað hér á landi.

En síðan kemur að afleiddu áhrifunum sem okkur hættir oft til að gleyma í umræðu á Alþingi sem eru nú mögulega þau mestu þegar öllu er á botninn hvolft. Það eru þau afleiddu áhrif sem verða af landkynningunni þegar kvikmynd eða þáttaröð er tekin upp hér á landi og þeir sem á horfa sjá hina mögnuðu náttúru sem er í bakgrunni kvikmyndanna, og umhverfið allt. Ferðamennirnir sem mæta í framhaldinu skilja eftir sig verðmætan gjaldeyri, ferðast um landið og styrkja alla innviði, sem gerir auðvitað ferðaþjónustunni kleift að byggja sig enn betur upp en áður var og okkur heimamönnum kleift að njóta enn meiri þjónustu, sérstaklega í byggðakjörnunum úti á landi þar sem einhver tenging verður og þar fram eftir götunum. Þetta heildstæða mat þarf auðvitað að eiga sér stað.

Samanburður á endurgreiðsluhlutföllum hlýtur að skipta máli þegar á reynir. Þar sem ég er ekki í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hef ég í sjálfu sér ekki haft tækifæri til að fylgjast með þeirri umræðu sem þar átti sér stað hvað málið varðar. En þau framlengingarákvæði sem hér er verið að leggja til um að tímalengd endurgreiðslna færist frá árinu 2021 til ársins 2025, sbr. 7. gr., auka auðvitað mjög fyrirsjáanleika í málinu öllu. Maður skyldi ætla að það væri til þess ætlað að ná fram þeim markmiðum að sækja fleiri verkefni sem hafa þessi víðtæku áhrif staðbundið meðan á tökum stendur, hjá geiranum meðan á eftirvinnslu stendur þar sem hún á sér stað hér á landi, en síðan til langrar framtíðar gagnvart landkynningunni sem er svo ótrúlega verðmæt í þessu öllu. Auðvitað hafa verið unnar greiningar á þessu af og til þegar endurgreiðsluhlutföllum hefur verið hliðrað í gegnum tíðina en einhverra hluta vegna eru til að mynda Írar, sem voru nefndir í eldhúsdagsumræðum í öðru samhengi, með hærra endurgreiðsluhlutfall en við Íslendingar. Þar var því haldið fram að það væri ástæða þess að tiltekið verkefni sem, ef ég skildi það rétt, ætti raunar raunverulega að eiga sér stað á Íslandi væri tekið upp hjá frændum okkar Írum.

Það sem skiptir mestu máli er að við skoðum svona ákvarðanir heildstætt. Það má færa rök fyrir því að öll endurgreiðsla sem á sér stað sé til þess hvetjandi að draga hingað starfsemi. En á endanum þarf verkefnið að skapa nettóávinning og það getur auðvitað bæði verið til skamms tíma ef við horfum á efnahagsleg áhrif tökutímans, eða eftirvinnslutímans ef eftirvinnslan á sér stað hér innan lands, en síðan er auðvitað miklu erfiðara að ná utan um lengri tíma ávinninginn sem felst í landkynningunni. En hann er auðvitað alveg augljós og raunverulegur. Menn reyna að leika sér að því að leggja mat á verðmæti hinnar ýmsu umfjöllunar, ýmiss konar umfjöllunar í hinum ýmsu miðlum heimsins, sjónvarpi, útvarpi, netmiðlum og þar fram eftir götunum. Sú talnaleikfimi er í sjálfu sér að einhverju marki þekkt. Ég held að við gerðum vel í því að kafa ofan í akkúrat það hvað hver langtímaávinningurinn er því þótt svona lagað verði aldrei reiknað upp á tvo aukastafi þá er væntanlega að einhverju marki hægt að fara áleiðis með það að koma upp mati á því hver áhrifin eru. Ef matið leiðir í ljós að ávinningurinn er ekki til staðar þá er auðvitað eðlilegt að við skoðum sömuleiðis alvarlega hvort skynsamlegt sé að standa í þessu. Það sem ég tel nú líklegra, sem betur fer, er að skemmri tíma áhrifin fari býsna nærri því að vera a.m.k. nettó á núlli. En þá eigum við inni öll lengri tíma áhrifin af því að ná hingað kvikmyndaverkefnum, þáttagerð og þar fram eftir götunum, þeirri langtímalandkynningu sem í því felst.

Það eru, maður hefur fylgst með því árum saman, ýmis fyrirtæki í þessum geira sem þjónusta þessi verkefni, Kukl held ég að eitt heiti, True north annað og svo mætti lengi telja. Allt eru það fyrirtæki sem eru í algjörum toppklassa og umsagnirnar sem þessi fyrirtæki fá frá þeim erlendu aðilum sem þjónustuna kaupa eru þeirrar gerðar að ég trúi ekki öðru en að í því felist töluverð efnahagsleg verðmæti til viðbótar við hin menningarlegu og þekkinguna sem byggist upp með þessu. En efnahagslegu verðmætin eru veruleg því það er auðvitað líka þannig að þegar kemur að eftirvinnslu kvikmynda þá er ég alveg viss um að Íslendingar og íslensk fyrirtæki með sína frábæru starfsmenn gætu verið í fararbroddi á mörgum sviðum í þeim efnum. Það er þessi heildarmynd sem ég tel að við verðum að horfa á.

Nú hefur mér ekki gefist ráðrúm til að skoða skýrslu sem ég veit að var unnin um þessi mál fyrir nokkrum árum en ég er hræddur um að menn séu gjarnir á að ofmeta skammtímaáhrifin af þessum verkefnum ef við horfum á endurgreiðslurnar á móti þeim tekjum sem skapast hér í þessum fyrstu tveimur fösum sem ég hef nefnt. Mig grunar að tilhneigingin sé sú að langtímaáhrifin séu vanmetin. Verkefni sem voru hér í vinnslu og sýnd fyrir mörgum árum eru enn að draga stóra hópa fólks til landsins. Við þekkjum auðvitað öll áhrifin sem Nonnabækurnar höfðu á áhuga Þjóðverja á Íslandi og íslenskri menningu. Kvikmyndir sem eru teknar hér, í íslenskri náttúru og íslensku umhverfi, geta haft sömu áhrif. Það er auðvitað annarrar gerðar en endaniðurstaðan er sú sama, það fjölgar verulega þeim sem hafa áhuga á landi og þjóð, fjölgar verulega þeim sem koma hingað og sækja okkur heim og fjölgar verulega atvinnutækifærum í landinu. Það er alveg sama hvort hingað koma gestir af því að þeir urðu svo hrifnir af Nonna- og Mannabókunum á sínum tíma, og reyndar enn, eða hvort hingað koma gestir af því að þeir sáu kvikmynd sem var tekin upp í íslenskri náttúru. Þetta er allt hrein viðbót við íslenska hagkerfið. Svona viðbætur þurfum við að sækja og rækta vegna þess að ef okkur tekst það ekki þá verður ósköp lítið um þennan vöxt því að raunverulega er þetta auðvitað útflutningsgrein. Íslensk kvikmyndagerð eða það að sækja erlend kvikmyndaverkefni hingað er auðvitað ekkert annað en útflutningur, útflutningur á þekkingu og vinnuafli og þannig fást framtíðartekjur af þeirri ótrúlegu náttúru sem við eigum hérna.

Ég vil nefna það í þessu samhengi að þó að hér sé horft til þess að lengja líftíma ákvæðisins, ef horft er til 7. gr., og gera ýmsar aðrar lagfæringar og snurfus á regluverkinu eins og það er, þá væri skynsamlegt fyrir næstu ríkisstjórn að fara í djúpa greiningu á því hvar, hvað skal segja, skurðpunkturinn liggur varðandi lengri tíma áhrif. Fyrsta og annan fasann er tiltölulega auðvelt að greina. Það sjáum við að miklu leyti bara í virðisaukatölum og fleiru slíku og uppgjörum á þessum verkefnum. Lengri tíma áhrifin er miklu erfiðara við að eiga en þar held ég að raunverulegi ávinningurinn liggi þegar málið er skoðað heildstætt.