151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[19:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi. Ég ætla að leyfa mér að segja að þetta sé hið besta mál að því leyti til að kvikmyndagerð hefur mjög sótt í sig veðrið og sýnist eiga góða framtíð í landinu sem atvinnugrein sem laðar til sín hæfileikafólk og getur boðið upp á mjög fjölbreytt störf þar sem greidd eru laun sem geta kallað á það að hæfileikafólk komi til starfa í greininni.

Kvikmyndin hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem listform. Síðan er mikil iðn að framleiða afþreyingarefni og við þekkjum að í nútímanum eru komnar fram hinar svokölluðu efnisveitur. Þær þurfa mjög á fjölbreyttu efni að halda fyrir sína áskrifendur þannig að það kallar á mikil verkefni á vettvangi kvikmyndagerðar. Það er eftirsóknarvert fyrir okkur Íslendinga. Í krafti þess að við eigum fjöldann allan af hæfileikafólki og kunnáttufólki á þessu sviði og getum boðið upp á mjög eftirsóknarverða tökustaði, vegna hinnar fögru náttúru landsins, er auðvitað ljóst að það eru mikil tækifæri fyrir íslenska kvikmyndagerð. Þetta er grein sem gerir allt í senn að framleiða störf, tekjur, gjaldeyri, að ég tali nú ekki um skatttekjur í ríkissjóð til að standa undir velferðarkerfinu og öðrum þýðingarmiklum málum.

Þetta er mál er lýtur að fyrirkomulagi sem var tekið upp, líklega 1999, um endurgreiðslur samkvæmt nánari skilgreiningu. Þetta er opinbert stuðningskerfi við þessa grein og réttlætist væntanlega af því að störfin, tekjurnar, landkynningin geta af sér tekjur í ríkissjóð sem e.t.v. eru síst minni en sá kostnaður sem ríkissjóður verður fyrir vegna þessara endurgreiðslna.

Frumvarpið fær góðar umsagnir. Ég vitna t.d. í umsögn Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Síðarnefndu samtökin eru aðildarsamtök í fyrrnefndu samtökunum. Þessi samtök fagna því að framlengja eigi lög um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar fram til ársins 2025. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hafa margsannað gildi sitt og skipta sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndagerðar. Samtökin vilja jafnframt koma á framfæri ánægju með það að í skoðun sé að hækka endurgreiðsluhlutfallið með það að markmiði að laða stærri kvikmyndaframleiðsluverkefni til landsins.“

Herra forseti. Eins og ég gat um þá tóku lög um þetta efni upphaflega gildi 1999, þau hafa verið framlengd nokkrum sinnum en gildandi lög gilda út árið 2021. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Lögin fela í sér ríkisaðstoðarkerfi, en öll slík lög ber að endurskoða reglulega með tilliti til nauðsynjar og áhrifa.“

Herra forseti. Í greinargerð er rakið að lögin hafi á sínum tíma verið sett til að koma á fót hvatakerfi til að efla kvikmyndagerð á Íslandi og laða að erlent kvikmyndagerðarfólk. Jafnframt segir að kerfið hafi átt að þjóna jafnt innlendum sem erlendum kvikmyndaframleiðendum, hvetja til uppbyggingar atvinnugreinarinnar á næstu árum og vera til þess fallið að efla innlenda kvikmyndagerð samfara því að erlend fyrirtæki gætu séð sér hag í að hafa uppi starfsemi hér á landi. Þarna segir áfram að markmið laganna sé að stuðla að eflingu innlendrar menningar. Jafnframt er talað um kynningu á sögu landsins og náttúru með tímabundnum stuðningi við kvikmyndir og sjónvarpsefni sem er framleitt hér á landi.

Herra forseti. Fjallað er um þá miklu aukningu sem orðið hefur á síðustu árum, ekki síst í erlendum verkefnum sem megi hafa til marks um gæði endurgreiðslukerfisins og alþjóðlega samkeppnishæfni þess, eins og það er orðað í greinargerðinni. Ég ætla að leyfa mér að segja að kannski hefði farið betur á því að leggja fram greiningu sem sýndi fram á það sem þarna er fullyrt en ég skal ekki draga í efa sannleiksgildi þessara fullyrðinga. Enn fremur er rakið að ráðherra málaflokksins hafi haft tækifæri til að kynna sér vestanhafs, í borg englanna Los Angeles, viðhorf í þessum efnum. Þar hafi komið fram sjónarmið um að kerfið sem viðhaft er hér í þessum efnum, en það eru til hliðstæð kerfi í öðrum löndum, þætti einfalt og skilvirkt.

Einnig er rakið að þau viðhorf hafi verið uppi að Ísland væri talið bjóða upp á einstaka og eftirsóknarverða tökustaði frá náttúrunnar hendi og borið lof á íslensk þjónustufyrirtæki og starfsfólk fyrir fagmennsku og góð vinnubrögð. Auðvitað er ágætt að erlendir aðilar þekki til þeirra tækifæra sem eru hér á landi. Við þekkjum að Íslendingar hafa getið sér gott orð í kvikmyndaheiminum þar sem samkeppnin er hvað mest eins og í Bandaríkjunum. Það leiðir líka hugann að því að þessi atvinnugrein gefur listafólki mikil tækifæri, ekki bara leikurum sem túlkandi listamönnum heldur líka skapandi listamönnum. Við sáum þá ágætu íslensku tónlistarkonu sem gekk sigurbraut og tók við hverjum verðlaununum á fætur öðrum fyrir tónlist sína á þessum vettvangi, sömuleiðis náttúrlega leikstjóra íslenska sem hafa gert garðinn frægan.

Við erum að fjalla um þetta mál í svolítið öðru samhengi heldur en listrænu. Við erum í raun og veru að fjalla um það á forsendum sem lagðar eru upp af hálfu Ríkisendurskoðunar sem gerir það enn þá meira heillandi fyrir okkur sem alþingismenn að nálgast þetta sem verkefni sem fjallar um að sníða hugsanlega ágalla af kerfinu, skilgreina hugtök og hafa uppi öflugt eftirlit með lögmætu kostnaðaruppgjöri þeirra verkefna sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Ríkisendurskoðun brýnir menn að ganga úr skugga um að einungis sá kostnaður þar sem staðið hefur verið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda teljist til endurgreiðslustofns svo að misbrestur verði ekki á skattskilum aðila sem komið hafa að framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis. Það er auðvitað sjálfsagt mál. Að því markmiði m.a. beinist þetta frumvarp. Þarna þarf auðvitað að vera rammlega búið um alla hnúta.

Áfram er rakið í greinargerð að megintilgangur upphaflegu laganna hafi verið að efla þekkingu á innlendri kvikmyndagerð með samstarfi við erlent fagfólk og að með því að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn sé unnt að þjálfa íslenskt fagfólk til sjálfstæðra verka á þessu sviði, bæta tækjakost kvikmyndaiðnaðarins hér á landi og koma Íslandi, náttúru landsins og íslenskri menningu á framfæri með þátttöku stórra erlendra kvikmyndaframleiðenda. Mest af þessu hefur nú gengið eftir og meira til.

Herra forseti. Við lifum á tímum þar sem hlutirnir taka örum breytingum. Það er fyrirsjáanlegt að það sem í daglegu tali er stundum kallað afþreyingariðnaður á sér mikla framtíð. Þar gefast mikil tækifæri til að takast á hendur verkefni sem geta skapað tekjur, geta skapað atvinnu, geta skaffað gjaldeyri inn í landið og skatttekjur í ríkissjóð. Hér er fjallað um að töluverð samkeppni sé á milli ríkja, fylkja og borga um allan heim um að fá erlenda framleiðendur til að taka upp kvikmyndir, sjónvarpsefni og fleira myndefni. Rakið er að fyrir þessu séu nokkrar ástæður en þær helstar að verkefni af þessum toga séu atvinnuskapandi, gjaldeyrisskapandi og að landið öðlist kynningu erlendis sem getur skilað sér í jákvæðari ímynd og auknum tekjum af ferðamönnum ef vel tekst til.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka þessu með því að segja að það eru nokkur atriði sem ég þyrfti að fara yfir þannig að ég óska þess að forseti skrái mig að nýju á mælendaskrá. Ég lýsi þeirri von að þetta ágæta frumvarp, (Forseti hringir.) sem við Miðflokksmenn styðjum, nái tilætluðum árangri.