151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[20:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef undrast svolítið á áhuga Miðflokksmanna á kvikmyndagerð. Ég hélt að þeir hefðu ekki farið í kvikmyndahús síðan Síðasti bæinn í dalnum var sýndur í Tjarnarbíói, en kvikmyndagerð hefur breyst mikið frá þeirri mynd Óskars Gíslasonar.

Það er alveg rétt að kvikmyndagerð er alvöruiðnaður. Þetta er mikilvægur iðnaður, útflutningsgrein, og mikilvægt fyrir okkur að vera samkeppnishæf í þessu eins og öðrum greinum. Ég hef ekki áttað mig á því út frá ræðum þingmanna hér hvort Miðflokkurinn sé að tala fyrir þessu frumvarpi eins og það er eða hvort menn ætli að leggja til hærri endurgreiðslur eða lægri endurgreiðslur. Hvað er raunverulega verið að fara fram á? Hvað telja Miðflokksmenn rétt að gera? Alltaf þegar við förum í endurgreiðslur eða einhverjar skattaívilnanir sem við erum mjög upptekin af, til að efla samkeppnishæfni okkar — við verðum hins vegar alltaf brjáluð ef Íslendingar njóta skattaívilnunar í öðrum löndum, þá er það eins og hver annar glæpur, eins sérkennilegt og það er. En hver er rétta talan? Gætum við verið að fara of hátt? Erum við að fara of lágt? Þetta er nefnilega ekki alveg einfalt. Við verðum líka að tryggja eðlilega samkeppnishæfni, við megum ekki rugla samkeppnisstöðu á milli greina heldur. Þetta er svolítið vandmeðfarið.

Nú er ég í andsvari við hagfræðing. Hvar liggja einhver mörk á þessu? Geturðu eitthvað upplýst fávísan þingmann um það?