151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[20:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir andsvarið. Hann hlýtur að átta sig á því að Miðflokkurinn er mjög áhugasamur um kvikmyndagerð allt frá því að við horfðum á hina frábæru þætti Scener ur ett äktenskap. Hann nefnir Síðasta bæinn í dalnum eftir Óskar Gíslason. Það er mjög merkilegt að hv. þingmaður geri það, nefni þetta meistaraverk og þann mikla og góða frumkvöðul í íslenskri kvikmyndagerð sem Óskar Gíslason var, sem var rifjað upp í frábærum sjónvarpsþáttum í tíu liðum um íslenska kvikmyndasögu sem er miklu meiri og merkilegri en margir gerðu sér kannski grein fyrir. En hv. þingmaður hlýtur að muna eftir þáttunum sænsku Scener ur ett äktenskap með Liv Ullmann og Erland Josephson. Yfir þessu sátu íslensk heimili og fjölskyldur viku eftir viku og biðu eftir því hvernig myndi greiðast úr þeim alvarlegu hjúskaparvandamálum sem þau áttu við. Það er náttúrlega ekki hægt að horfa á svona meistaraverk eins og það og Síðasta bæinn í dalnum öðruvísi en að maður ali með sér það sem eftir er áhuga fyrir kvikmyndum, þáttagerð og listrænum tökum í þessu efni, að ég ekki tali um að við Miðflokksmenn erum líka svona náttúraðir fyrir skynsemi og rökhyggju. Ég hef nú þann heiður að hafa hér formann þingflokksins í salnum til að hlýða á þessi orð og ég finn það einhvern veginn að hann tekur undir með mér. Þá spillir það ekki málinu að við erum að tala um grein sem getur skapað ekki bara listræna takta og afþreyingu heldur líka beinharðar peningatekjur, ég fór yfir það mörgum sinnum í ræðu minni, tekjur fyrir fólk, góð og vel launuð störf, gjaldeyristekjur og skatttekjur, hv. þingmaður.