151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[20:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að koma upp á eftir umræðu eins og hér hefur verið um þætti og kvikmyndir sem ég held að hafi verið í svarthvítu, ég man alla vega ekki eftir þessu þó að ég sé nú orðinn þetta gamall í dag, en það er nú eins og það er.

Hér ræðum við breytingar og það sem mér finnst kannski best í þessu máli öllu saman, það er verið að skýra leikreglurnar og framlengja stuðninginn. Auðvitað er það, eins og fram hefur komið, alltaf spursmál hver talan á að vera, hvernig reglurnar eiga að vera. Við erum í samkeppni á þessum markaði, í samkeppni við önnur lönd um tökustaði. Ef við viljum ekki keppa í prósentunum verðum við að gera eitthvað betur, eða ekki endilega eitthvað betur, við verðum þá að nýta okkur annað sem við höfum, við skulum frekar orða það þannig, ég held að menn séu að gera þetta mjög vel eins og kom fram í fyrri ræðu minni. Hvort sem það er Íslandsstofa eða einhverjir aðrir eru menn að sækja stórverkefni eins og við höfum séð.

Ég velti líka upp í minni fyrri ræðu hvort mögulega væri eitthvað annað í umhverfinu sem við gætum gert, lagað samkeppnishæfni okkar ef hún er eitthvert vandamál, en ég viðurkenni að ég þekki það ekki. Ég hef hins vegar fulla trú á því að það sé gott fólk fyrir utan þetta hús sem er stöðugt að velta því fyrir sér hvernig við getum aukið samkeppnishæfni okkar þegar kemur að kvikmyndagerð og framleiðslu kvikmynda.

Mig langar aðeins að nefna annað í tengslum við þetta því að það tengist að sumu leyti kvikmyndageiranum, það eru tölvuleikirnir. Hér var fyrir skömmu haldið gríðarlega stórt mót í tölvuleik sem á enskri tungu kallast League of legends, ég veit nú ekki hvað hann ætti að heita á íslensku en það er eitthvað um deild hinna bestu eða eitthvað slíkt. Þarna, að mér skilst, samkvæmt fréttum, voru keyptar eða pantaðar einhverjar 8.000 gistinætur á íslenskum hótelum. Tugir milljóna horfa á beina útsendingu frá þessum leikjum og þarna voru íslensk fyrirtæki sem fengu vinnu við uppsetningu og stjórnun á tæknibúnaði, að setja upp skjái og stýra slíku og senda út. Þetta eru fyrirtæki sem eru kannski líka að vinna að kvikmyndagerð og sjónvarpsþáttagerð. Þarna er verið að hanna grafík. Þarna kemur mögulega íslensk náttúra eða myndir af Íslandi inn í allt saman og svo er það tónlistin líka og þó að ég muni ekki hvað það er þá held ég að ég geti fullyrt að einhverjir Íslendingar hafi verið að semja tónlist fyrir tölvuleiki. Mér finnst ég hafa verið upplýstur um það.

Mig langar líka að nefna í þessu samhengi — menn ræddu hér áðan Síðasta bæinn í dalnum, sem er vitanlega í kvikmyndasögu okkar merkileg mynd og í raun stórmerkileg, en heimurinn breytist mjög hratt. Það er mikil tækni komin. Það er alls konar tækni sem maður kann ekki einu sinni nöfnin á sem menn nýta sér í dag. Tölvuleikirnir tengjast því. Þar er notuð gríðarleg tækni. Við eigum að sjálfsögðu líka að reyna að vera framarlega í að laða slíka starfsemi til Íslands.

En mig langar að nefna það, fyrst ég fékk tækifæri til, að við eigum líka að horfa til þess að það eru hundruð eða þúsundir Íslendinga í dag, ungmenna sérstaklega, sem keppa í rafíþróttum á Íslandi. Sú íþróttagrein fer stöðugt vaxandi. Það er ánægjulegt að sjá að utanumhaldið er mjög gott orðið, að ég held, menn vilja gera vel þar sem menn standa að rafíþróttunum. Við eigum að styðja við þessa aðila um að ná til þeirra sem ekki hafa áhuga á hinum hefðbundnu íþróttum eða tómstundastarfi sem við þekkjum. Það er vitanlega fjöldi fólks sem finnur sig ekki í því. Er þá ekki betra að þeir séu í íþróttum þótt sumir kalli það tölvuleiki, í rafíþróttum, að keppa í þeim leikjum sem þeir eru góðir í, flinkir í, keppa jafnvel á mótum erlendis? Hér er deildarkeppni í hinum og þessum leikjum og þarna eru einstaklingar sem ekki hafa fundið sig í hefðbundnum tómstundum eða íþróttagreinum. Við eigum að sjá til þess að við viðurkennum þessa íþróttagrein eins og aðrar. Ég held að við séum þarna að ná til hóps sem við hefðum kannski ekki náð til annars en við eigum að sjálfsögðu að búa til mjög góðan ramma utan um þessar íþróttir eins og aðrar.