151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[20:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Mig langar að halda aðeins áfram þar sem frá var horfið. Ég orðaði þá möguleika sem íslenskt kvikmyndagerðarfólk á í þeim verkefnum sem hingað rata, og það er kannski ekki síst út af því að nú er orðið mikið um að eftirvinnsla kvikmynda fari fram í tölvum. Við Íslendingar eigum yfirburðafólk, forritara og annað, fyrir utan það að tæknibrellur eru orðnar miklu stærri í sniðum en var þannig að þar eigum við gríðarlega möguleika.

En það er ekki bara þetta, heldur líka það að hingað hefur ratað alþjóðlegt fjármagn til þess að gera íslensk verk. Við erum að vinna verk núna á Íslandi, stundum í samstarfi við aðrar þjóðir og stundum einir, verk sem ætluð eru til þess að fara á alþjóðamarkað. Þar langar mig til að minnast á sjónvarpsmyndaflokk eins og t.d. Ófærð, sem hefur verið sýndur víða um heim við mikinn orðstír og að verðleikum. Þetta setur enn þá beina stoð undir þessa atvinnugrein, þ.e. að menn séu með samhangandi verkefni og geti skipulagt tíma sinn betur en var. Við erum náttúrlega komin mjög langt frá þeim tíma þegar íslenska kvikmyndavorið var hér á Íslandi. Og eins og fram hefur komið, fyrir þá sem efast um tengsl Miðflokksins við kvikmyndir, þá erum við væntanlega eini þingflokkurinn sem erum með alvörukvikmyndaleikara innan borðs, sem tók þátt í íslenska kvikmyndavorinu, eins og hann drap lítillega á hér áðan af mikilli hógværð. Sá árangur sem náðst hefur undanfarin nokkur síðustu ár sýnir okkur svo ekki verður um villst að möguleikarnir fyrir því að við getum tekið virkan þátt í gerð kvikmynda, þ.e. listamenn okkar og tæknimenn, aukast dag frá degi, vil ég segja. Síðan höfum við náttúrlega það sem hefur dregið að kvikmyndagerðarfólk undanfarin 20–30 ár, þ.e. íslenska náttúru, og Ísland hefur komist í tvær Bond-myndir, ef ég man rétt, og ýmislegt annað. Þannig að það fer ekki hjá því að íslensk náttúra, íslenskt landslag og íslensk menning rati inn í þessi verk og við verðum reynslunni ríkari og tekjum ríkari af því að vinna við þessa viðburði.

En mig langaði að skjóta hér aðeins inn, af því að síðasti ræðumaður minntist nokkuð á að það væri þörf á því að víkingaarfurinn kæmist í kvikmyndir, og ég get tekið undir það heils hugar, að við eigum líka ýmislegt annað efni sem gæti sem best ratað inn í alþjóðakvikmyndir. Vil ég t.d. minnast á íslensku glæpasögurnar sem eru núna metsölubækur beggja vegna hafsins og bara nú á þessum dögum eru íslenskar sögur í efstu sætum á metsölulistum, t.d. í Evrópu og líka fyrir vestan haf.

Það er reyndar búið að gera kvikmyndir eftir einhverjum af þessum sögum en það er nóg eftir. Þessar sögur hafa fengið þann hljómgrunn að ég efast ekki um að kvikmyndir byggðar á þeim á alþjóðlega vísu með alþjóðlegri fjármögnun — þær falla þá undir þau skilyrði sem við erum að staðfesta í þessu frumvarpi — gætu orðið verulegur búhnykkur fyrir bæði íslenskt þjóðfélag og alla þá listamenn sem koma að, alveg frá höfundi handrits eða sögu til þeirra sem taka þátt í leiknum.