151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[20:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999. Þar er verið að tilgreina kostnaðarliði, breyta eftirliti o.fl. Þessar breytingar eru komnar til vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar til að treysta umgjörðina vegna endurgreiðslnanna, það mætti kalla þetta skattafslátt eða eitthvað slíkt. Þetta virðist vera þannig að kvikmyndaframleiðendur safna saman kvittunum sínum og nótum, senda svo íslenska ríkinu það og fá ákveðinn hluta endurgreiddan. Sá hluti sem menn geta fengið endurgreiddan er ekki talinn nægilega hár að mati margra en er þó kominn upp í 25%. Við byrjuðum árið 1999 að endurgreiða kostnað við kvikmyndagerð og í upphafi var endurgreiðsluhutfallið 12% en var fljótlega hækkað í 14% og loks í fimmtung. Núna er það komið upp í fjórðung af þeim kostnaði sem telst hæfur til að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til þess að verða metinn til endurgreiðslu.

Þetta er eilíf samkeppni við önnur lönd, einhver lönd bjóða hærra og gefa meiri endurgreiðslu, hærra hlutfall. Við megum alls ekki vera eftirbátar annarra þjóða því að þá er hætt við að aðilar sem búa til kvikmyndir komi ekki hingað til lands. En auðvitað er það þannig að kvikmyndir gerðar á Íslandi sem sýna íslenskt landslag, sem við höfum séð í bíómyndum á undanförnum árum, hafa einnig mikil áhrif til landkynningar. Þessar myndir, sérstaklega ef þær verða vel þekktar og vinsælar og eru gerðar af frægustu leikstjórunum með sem mestum tilkostnaði, geta haft þau áhrif að ferðamannastraumur til Íslands eykst í framhaldinu. Við höfum séð dæmi um þetta þar sem íslenskt landslag verður heimsfrægt á svipstundu og allir vilja koma til Íslands og berja það augum. En það er nú þannig að þegar fólk kemur á staðinn þá er kannski þoka og suddi eða veðrið kannski ekki upp á sitt besta þannig að fólk sér landslagið kannski aldrei með þeim augum sem kvikmyndavélarnar nema það. Það er því kannski svolítið önnur mynd sem gefin er af hlutunum í kvikmyndum, það er kannski aldrei eins þegar fólk kemur á staðinn. Þegar maður hefur séð myndir af fallegum stöðum erlendis þá virkar það oft öðruvísi þegar maður er kominn á staðinn.

Ég er alls ekki á móti þessu máli og ég held að þetta sé ágætismál. Auðvitað þarf umgjörðin að vera mjög fastmótuð og kröfur sem gerðar eru til kvittana eða reikninga sem framvísað er verða að vera ríkar þannig að ekki sé nokkur einasti möguleiki á misnotkun. En auðvitað kostar þetta stórfé og á árinu 2019 námu endurgreiðslurnar 1.400 millj. kr. Það eru því miklir peningar sem streyma þarna úr ríkissjóði en auðvitað verðum við að horfa á það að þetta er kostnaður sem búið er að greiða hér á landi og kemur hinum og þessum sem koma að kvikmyndum til góða. Það þarf smiði til að smíða sviðsmyndina. Það þarf alls konar fólk og það þarf að greiða þessu fólki og klippa það, gefa því að borða og það fer á matsölustaðina. Það tekur leigubíla og þetta hefur gífurleg áhrif til innspýtingar í samfélagið. Ég er viss um að þessir aðilar, ef við getum kallað þá ferðamenn, gefa meira í aðra hönd en meðalferðamaðurinn. Auðvitað er því æskilegt að hingað til lands komi kvikmyndagerðarfólk. Ég held því að þetta sé ágætismál ef við viljum vera samkeppnishæf við aðrar þjóðir á þessu sviði, þ.e. ef rétt er með farið og engin leið til að misnota þetta eða svína á þessu. En þeir aðilar sem standa í þessu, sem eru að taka upp þessar myndir og framleiða þær og standa á bak við þetta, eru oft miklir auðjöfrar og ég vorkenni þeim auðvitað ekkert að þurfa að kaupa sér þjónustu án þess að fá endurgreiðslu frekar en öðrum, en á móti kemur að þeir færu bara eitthvað annað ef þeir fengju ekki þessa þjónustu hér á landi, þ.e. þessar endurgreiðslur. Við erum kannski tilneydd, ef við viljum taka þátt í þessu, til að dansa með í þessari samkeppni og ég er hlynntur því á meðan þetta fer ekki út í öfgar.

Ég man þegar maður fór í kvikmyndahús sem krakki að það var mikil upplifun á þeim tíma. Þetta var viðburður. Núna sest maður fyrir framan sjónvarpið og velur þá mynd sem maður vill horfa á og ef hún er ekki nægilega spennandi eða góð þá slökkva menn bara á henni og kveikja á næstu. Það hefur því margt breyst á undanförnum árum. Í gamla daga þótti sá mesta hetjan sem gat farið á fimmbíó og svo beint úr fimmbíói yfir í sjöbíó og svo í níubíó, og almestu afreksmennirnir bættu ellefubíóinu við. Þá sögðu menn: Ég fór á fjórar myndir í dag, en yfirleitt var það sama myndin sem þeir horfðu fjórum sinnum á vegna þess að hún var sýnd á öllum þessum tímum. Þetta þóttu miklir afreksmenn og magnið af poppkorni og kóki sem innbyrt var í þessum ferðum, sérstaklega ef menn voru að reyna að slá þessi met, var óheyrilegt og auðvitað alls ekki hollt en menn litu fram hjá því þegar metin voru að falla.

Kvikmyndagerð á Íslandi hefur lengi, og gerir það kannski enn, einkennst af einhvers konar frumkvöðlastarfsemi og gerð ódýrra kvikmynda, eins ódýrra og hægt var. Þeir tímar eru kannski að líða en þetta var svona lengi vel. Kvikmyndaiðnaður á Íslandi verður ekki til fyrr en undir lok síðustu aldar, það má ekki tala um þetta sem iðn fyrr en í fyrsta lagi þá. Kvikmyndagerð var lengi vel nátengd annarri starfsemi, hún var ekki sjálfstæð. Hún var nátengd ljósmyndun. Hún var oft nátengd leikhúsunum og síðast en ekki síst var hún auðvitað nátengd Ríkisútvarpinu eftir að það tók til starfa. Eftir að Kvikmyndasjóður var stofnaður 1978 gjörbreyttist umhverfi kvikmynda og má segja að stofnun Kvikmyndasjóðs fyrir rúmum 40 árum hafi markað upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi. Fyrsta myndin sem kom út og fékk styrk úr sjóðnum, Land og synir, er oft talin fyrsta alvöru íslenska kvikmyndin. Ég veit ekki hvort það er rétt en þetta var alla vega fyrsta myndin sem fékk styrk úr Kvikmyndasjóði. En kvikmyndagerð á sér miklu lengri sögu á Íslandi og stóð oft og tíðum í miklum blóma eins og á fimmta og sjötta áratugnum. Margir muna eftir myndum eins og 79 af stöðinni sem gerð var á sjöunda áratug síðustu aldar og var að hluta til framleidd af Íslendingum og með íslenskum leikurum í aðalhlutverkum.

Saga kvikmyndagerðar á Íslandi á sér rætur allt til ársins 1919 þegar danskt tökulið kom hingað og tók að kvikmynda Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson á vegum Nordisk Film. Í þeirri mynd, fyrir meira en 100 árum, herra forseti, léku nokkrir íslenskir leikarar. Guðmundur Þorsteinsson, Muggur, lék eitt af aðalhlutverkunum. Kvikmyndin Saga Borgarættarinnar tengist frumkvöðlastarfsemi í íslenskri kvikmyndalist að því leyti að þar kynntist Óskar Gíslason, sem síðan var afkastamikill og hvetjandi kvikmyndagerðarmaður, filmuvinnu í fyrsta skipti. Oft má rekja upphaf mikillar grósku til slíkra hluta, þ.e. að einhver nýjung kemur til og svo nærast aðrir á henni og það verður upphaf að grósku á þeim stað. Árið 1923 var frumsýnd fyrsta kvikmyndin sem leikstýrt var og framleidd af Íslendingi, gamanmynd Lofts Guðmundssonar Ævintýri Jóns og Gvendar sem var stuttmynd og sýnd sem aukamynd í Nýja-Bíói. Loftur gerði líka myndina Ísland í lifandi myndum árið 1925 sem var Íslandslýsing sem Loftur hafði tekið á Íslandi sumarið áður. Loftur hélt áfram að taka kvikmyndir, yfirleitt stuttar heimildarmyndir, en árið 1949 sendi hann frá sér myndina Milli fjalls og fjöru sem var fyrsta leikna íslenska kvikmyndin í fullri lengd, en jafnframt var það fyrsta íslenska talmyndin. Fyrstur Íslendinga til að læra kvikmyndagerð í skóla, svo að vitað sé, var Sigurður Nordal sem lærði við kvikmyndatökudeild New York háskóla á árunum 1943–1944. Sennilega er þekktasta verk hans safn myndskeiða frá mótmælunum hérna fyrir utan, herra forseti, mótmælunum við Alþingishúsið á Austurvelli 1949. Er það auðvitað ómetanleg heimild um þau mótmæli og sögu þjóðarinnar.

Á síðari hluta fimmta áratugarins kom út töluverður fjöldi af heimildarmyndum og ber þar líklega hæst Björgunarafrekið við Látrabjarg sem Óskar Gíslason gerði 1949. Myndin segir frá frækilegri björgun heimamanna á Látrum og nágrenni á breskum skipbrotsmönnum af togaranum Dhoon 12. desember 1947. Sjaldan hefur verið unnið annað eins björgunarafrek og þar er lýst og ekki má vanmeta afrek kvikmyndagerðarmannsins sem kom því á filmu. Aðdragandinn að myndinni er sá að einn heimamanna á Vestfjörðum hafði samband við Óskar eftir strand skipsins við Látrabjarg og stakk upp á því að björgunarafrekið yrði sett á svið og kvikmyndað. Ekki fékk Óskar viðbrögð við beiðni sinni á þeim tíma um fjárstyrk til myndgerðarinnar en í samvinnu við heimamenn tókst honum að koma þessu í höfn. Það var svo ári síðar, í lok nóvember, að sviðsetningin fór fram í Kollsvík vestra. Meðan tökur stóðu yfir bárust boð um að raunverulegt strand hefði orðið undir Hafnarmúla í Örlygshöfn. Þar hafði strandað í aftakaveðri breskur togari, Sargon, og tóku menn upp tæki sín og hröðuðu sér til Patreksfjarðar þar sem þeim tókst að bjarga sex mönnum af áhöfn togarans en 11 fórust. Munu þeir sem létust hafa króknað úr kulda. Þannig bar það til, herra forseti, að kvikmynd Óskars varð jafn raunveruleg og raun ber vitni því að ekki var um sviðsetningu að ræða á þeim atriðum sem sýna sjálfa björgunina. Myndin var gefin út á fjölda tungumála og fékk dreifingu víða um heim.