151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[21:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hérna um styrki til kvikmyndalistar og ég fletti upp í riti sem Ágúst Einarsson gaf út fyrir ekki svo löngu síðan um hagræn áhrif kvikmyndalistar og er svolítið fróðlegt að lesa það þó að það hafi ekki verið tæmandi lestur. Mig langar að grípa ofan í þar sem kemur að fjármögnun, en þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármögnun kvikmynda er um margt óvenjuleg miðað við annan fyrirtækjarekstur. Venjulega afla fyrirtæki fjármagns til starfsemi sinnar með því að leggja fram eigið fé, t.d. í formi hlutafjár, og/eða afla lánsfjár til lengri eða skemmri tíma. Þegar fyrirtæki hafa starfað um nokkurt skeið geta þau einnig fjármagnað hluta, eða jafnvel alla starfsemi sína, með uppsöfnuðum hagnaði eða með sölu eigna.“

Hann segir síðan að í Evrópu séu umtalsverð framlög frá opinberum aðilum veitt til að styrkja kvikmyndagerð. Stefna stjórnvalda í Evrópu sé að styrkja kvikmyndaiðnað, m.a. til að verjast yfirþyrmandi áhrifum bandarískra kvikmynda en einnig til að stuðla að jákvæðum ytri áhrifum í mikilvægri atvinnugrein. Hér segir einnig:

„Í Bandaríkjunum er venjulega ekki opinber aðstoð við framleiðslu kvikmynda en oft er erfitt að selja erlendar kvikmyndir á bandarískum markaði, m.a. vegna áhugaleysis neytenda á erlendu efni […]

Endurgreiðsla á kostnaði getur að hámarki numið 20% af framleiðslukostnaði […] Fjölþjóðlegar reglur, sem Íslendingar eru bundnir af, kveða á um að innlendir styrkir megi ekki nema meiru en 50% af framleiðslukostnaði en hærra hlutfall er talið skekkja samkeppnisstöðu gagnvart öðrum. […]

Til viðbótar innlendum opinberum styrkjum frá Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslu vegna kostnaðar eru framlög erlendra sjóða mikilvæg auk fjármögnunar frá erlendum meðframleiðendum eða kaupendum eins og sjónvarpsstöðvum, innlendum og erlendum. […]

Þessi mikla þátttaka í fjármögnun að utan undirstrikar einmitt mikilvægi kvikmyndaiðnaðarins í gjaldeyrisöflun. Þrátt fyrir að styrkir fáist til kvikmyndagerðar úr ýmsum áttum þá er ekki á vísan að róa í þeim efnum og fjármögnun er eitt mesta, ef ekki mesta, vandamál íslenskra kvikmyndaframleiðenda og hefur verið svo um áratugaskeið. […]

Hjá mörgum framleiðslufyrirtækjum skipta stuðningsþættir eins gerð auglýsinga fyrir innlendan og erlendan markað og leiga á tækjabúnaði til innlendra og erlendra aðila miklu máli við að styðja við fjármögnun kvikmynda hjá viðkomandi fyrirtækjum.“

Hér kemur fram að störf í kvikmyndaiðnaði séu víða, m.a. í framleiðslu á myndrænu efni, í dreifingu, við sýningar o.s.frv. Síðan segir:

„Þessu til viðbótar eru störf sem tengjast óbeint kvikmyndum við að afla aðfanga frá öðrum fyrirtækjum eins og gistihús, flutningar og veitingahús og ýmiss konar þjónusta við kvikmyndaiðnaðinn. Þá ber að nefna að rætt er um afleidd störf sem leiða af beinum og óbeinum störfum með aukinni neyslu þeirra sem teknanna afla. […]

Innan hagfræðinnar eru þessi störf stundum tengd saman með margföldurum. Beinu áhrifin eru samkvæmt þessu talin utanaðkomandi eftirspurn sem drífur efnahagslífið áfram í óbeinu og afleiddu tilliti.“

Þannig skapa störf önnur störf. Og hér segir: „Störf eru í flestum tilvikum sjálfsprottin og þarf ekki stjórnvöld til annars en að stuðla að eðlilegri umgjörð án fyrirstöðu.“

Þetta er athyglisvert og er í raun og veru svolítið svipuð hugsun og ég var að ræða í ræðu minni fyrr í dag þar sem ég talaði út frá brjóstinu en þarna skrifar þessi lærði maður og meitlar þetta í texta hvernig undirbygging og aðstoð við slíka starfsemi getur verið til mikillar verðmætasköpunar, auk þess sem þetta elur og virkjar listagyðjuna í heiminum, og ekki veitir af því að listagyðjan er það sem gefur lífinu gildi.