151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[21:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég var að segja frá því í minni fyrri ræðu hvers lags upplifun það var í gamla daga þegar við krakkarnir fórum á bíómyndir, sem var sérstök upplifun og viðburður. Þá var borðað óhemjumikið popp og kók, það fylgdi því, og ég sagði líka frá afreksmönnum sem höfðu farið á tvær myndir í röð, fimm- og sjöbíó. En gallinn við sjöbíó var að það var ekkert hlé en það var hlé í fimmbíó og níubíó. Menn tóku kannski níubíó í beinu framhaldi en mestu afreksmennirnir tóku líka ellefubíó. Þeir tóku sem sagt fimm-, sjö-, níu-, og ellefubíó og menn horfðu á þá í mikilli aðdáun. „Nú kom hlé svo ég fékk mér smók, saltað poppkorn og kalda kók.“ Ég held að við höfum sleppt smóknum á þessum tíma en vissulega fórum við og fengum okkur saltað poppkorn og kalda kók. Þetta var texti úr frægum söng sem Halli og Laddi sungu hér um árið, Roy Rogers. Þar fóru þeir á mynd eins og segir í textanum. „Ég fór á cowboy-mynd í gær, spennan var gífurleg, ég varð ær.“

Á þessum tíma, þegar maður var unglingur og það var viðburður að fara á bíómynd, þá fór maður kannski í Austurbæjarbíó og horfði á Bruce Lee berja alla vondukallana. Bíósalurinn fylltist kvöld eftir kvöld af ungu áhugasömu fólki sem vildi horfa á þennan mikla og liðuga afreksmann. Mér er minnisstætt þegar menn komu út úr bíósalnum, þá hljóp allur hópurinn spriklandi í allar áttir og sparkandi í allt sem fyrir varð, húsveggi og ljósastaura og út í loftið. Það var alveg sérstök upplifun og það væri nú gaman að sjá ef til væru myndbrot af því þegar krökkunum var hleypt út úr Austurbæjarbíói eftir að hafa horft á Bruce Lee sýna listir sínar.

Síðan komu lélegri myndir og maður missti áhugann á að fara á þær alveg þangað til löngu seinna og bara nýlega að Jackie Chan hefur sýnt svipaðar listir á hvíta tjaldinu með sínum myndum. Af hverju minnist ég á hann? Þetta eru skemmtilegar myndir en einnig vegna þess að einn íslenskur leikari gerðist svo frægur að leika í mynd einmitt með Jackie Chan sjálfum. Það var myndin The spy next door og með leyfi herra forseta myndi ég bara þýða það sem Njósnarinn í næsta húsi, er það ekki bara ágætisþýðing á nafninu á þeirri mynd? Magnús Scheving lék illmenni í þessari mynd. Magnús kemur víða við sögu í kvikmyndaiðnaðinum vegna þess að hann er auðvitað frægur fyrir að hafa verið aðalhöfundurinn að og framleitt sjónvarpsþættina Latabæ þar sem athyglinni er beint að börnum og þau hvött til heilbrigðs lífernis. Latibær hafði mjög jákvæð áhrif á krakka lengi vel þegar þættirnir voru vinsælir í sjónvarpi. Magnús lék íþróttaálfinn í þáttunum, fór „flikk-flakk heljarstökk, hnakka- og hliðarstökk og labbaði á höndunum tveim“, eins og segir í öðrum texta. Magnús hafði áður en þetta var verið frægur íþróttamaður. Hann var einn af upphafsmönnum líkamsræktarbylgjunnar sem enn stendur yfir. Hann var upphafsmaður að því sem hét þá þolfimi. Ég veit ekki hvar það er statt í dag, hvort það er til í dag, nú eru þetta allt saman erlend nöfn, crossfit og bootcamp og eitthvað slíkt. En þetta hét þolfimi hjá Magnúsi. Hann var allra liðugastur og varð Íslandsmeistari 1995 og Norðurlandameistari held ég líka og Evrópumeistari. En Magnús var þó aldrei kjörinn íþróttamaður ársins þrátt fyrir að hann hafi unnið öll þessi afrek og mörgum fannst það einkennilegt. (Forseti hringir.) En einhverra hluta vegna náði hann aldrei þeim titli.