151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[11:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að sjá fjárauka á þessum tíma því að í upphafi árs var ríkisstjórnin að kynna alls konar aðgerðir tiltölulega stuttu eftir að við vorum búin að klára fjárlög. Þá komu alls konar nýjar hugmyndir um hvernig ætti að glíma við hin og þessi fyrirsjáanlegu vandamál. En það komu ekki tillögur um aðgerðir vegna þeirra fyrr en eftir áramót, eftir að búið var að klára fjárlög. Þá fór ég alla vega að klóra mér aðeins í hausnum og leita að fjárheimildum í fjárlögum fyrir öllum þessum aðgerðum sem fundust síðan hvergi og eftir því sem ég grennslaðist þá virtist það vera þannig að það ætti að glíma við það í fjárauka í lok árs eins og venjulega. Það var sem sagt hætt að bregðast við jafnóðum, alla vega með fjárheimildum, en haldið áfram að bregðast við jafnóðum með aðgerðum, sem er gott og blessað, fínustu aðgerðir margar hverjar, eins og hvernig er verið að hvetja fólk til starfa og borga í rauninni atvinnuleysisbæturnar og kannski rúmlega það til þess að fólk fari í störf, bara ágætisaðgerð. En fjárheimildirnar þurfa alltaf að fylgja. Það er grundvallaratriði, og það er lykilatriði, vegna þess að ríkisstjórnin þarf að koma til Alþingis, sem fer með fjárveitingavaldið, og spyrja hvort þetta sé góð notkun á almannafé eða ekki. Ríkisstjórnin má ekki leggja til aðgerðir án þess að sýna svart á hvítu hvort það sé góð notkun á almannafé eða ekki og um það ætti ferlið að snúast, um fjáraukalögin. En það hefur ekki verið gert neitt rosalega mikið.

Við höldum áfram að fá í rauninni engar sviðsmyndagreiningar á því af hverju þetta er betri lausn en einhver önnur, hvaða aðrir möguleikar voru í boði, ekkert svoleiðis. Það er ekki einu sinni hægt að spyrja hvort þær aðgerðir sem verið er að leggja hérna í og líta ágætlega út á pappír — það hefur aðeins verið kvartað undan þeim, að það séu einhverjar stjórnsýsluhindranir, það sé eitthvað flókið svona bjúrókratískt séð að fá fólk í úrræðin, að þótt það líti vel út á blaði sé framkvæmdin kannski svona pínu gloppótt og væri örugglega hægt að gera aðeins betur og ég held og vona að Vinnumálastofnun komi til með að kippa því í liðinn sem fyrst því að horfurnar á vinnumarkaði eru að glæðast. En þetta eru verkefni sem gætu einmitt gert gæfumuninn, ef má orða það þannig.

En eru þetta bestu aðgerðirnar? Er þetta besta notkunin á almannafé? Er bara verið að giska eins og alltaf áður? Það er bara verið að giska. Og ef ekki er bara verið að giska og til er einhver samanburður við aðrar hugmyndir fáum við alla vega ekki að sjá það. Það út af fyrir sig er ekki gott og ekki samkvæmt þeim lögum sem við erum að reyna að starfa eftir.

Alþingi setur lög og nýleg lög um opinber fjármál, lög um hvernig við meðhöndlum almannafé, í þeim er sett fram fyrir stjórnsýsluna, fyrir faglega stjórnsýslu, að vinna faglega að þeim aðgerðum sem á að grípa til með almannafé til að sporna við einhverjum vandamálum sem við búum við í samfélaginu. Vandamál núna er eins og á húsnæðismarkaði, það er skortur þar. Það er á vinnumarkaði, það er mikið atvinnuleysi. Þá viljum við sjá hugmyndir um hvernig hægt er að leysa þann vanda. Það er bara góður listi af hugmyndum sem hægt er að velja úr. Þannig á það að virka. Og um hverja hugmynd þurfum við að sjá hversu gagnleg hún er. Kannski þurfum við að velja nokkrar til þess að ná yfir allan hópinn af því að hópurinn sem er t.d. að leita að atvinnu er fjölbreyttur. Hann er að stórum hluta til ungt fólk og fólk af erlendum uppruna, fólk á Suðurnesjum, þetta er landshlutabundið, mismunandi eftir landshlutum. Það þarf mjög líklega mismunandi aðgerðir á mismunandi stöðum, en við fáum aldrei að sjá þær hugmyndir sem unnið er úr, hvað er valið og af hverju.

Þetta er lykilatriði þegar á að sannfæra okkur, þegar sannfæra á þingið með skjölum sem við fáum og gögnum sem við fáum til að vinna úr fjárheimildum, til þess að birta opinberlega fyrir fólkið sem á þetta samfélag. Við þurfum að standa skil gagnvart fólki hérna úti. Stjórnsýslan þarf að standa skil gagnvart okkur til þess að við getum staðið skil gagnvart almenningi. Þegar stjórnsýslan gerir það ekki getum við ekki gert það heldur. Þetta er algjört lykilatriði, við viljum hafa faglega stjórnsýslu því að í þingbundnu lýðræðisríki, eins og við viljum hafa samkvæmt stjórnarskrá og meira að segja í drögum að nýrri stjórnarskrá, er það þannig að hver sem er kemur inn í þennan sal, þetta er ekki einhver hópur af sérfræðingum eða — við skulum sleppa ýmsum öðrum lýsingum á því og segja sem einfaldast að hér inni er ekki endilega einhver hópur af sérfræðingum sem eru mjög klárir og klárir í öllum málaflokkum, það er bara ekki hægt. Þess vegna treystum við á faglega stjórnsýslu til að greina og meta þær hugmyndir sem fram koma og til þess að framfylgja ákveðinni stefnu og markmiðum sem stjórnvöld setja. Stjórnsýslan velur ekki lausnir. Það er pólitíkin sem velur lausnir. Lýðræðið velur hugmyndirnar, stjórnsýslan sér um að greina og meta hugmyndirnar og pólitíkin velur hugmyndirnar. Það má því spyrja dálítið stórrar spurningar: Er það pólitíkin sem velur þær leiðir sem farnar eru í þessu fjáraukalagafrumvarpi og í rauninni í öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Er það pólitíkin sem velur aðgerðir eða er það stjórnsýslan? Því að þegar við spyrjum stjórnsýsluna hvaða aðrir valmöguleikar voru til að leysa þetta vandamál fáum við aldrei svör. Eins og um aðgerðina sem við erum að skoða hérna t.d., að borga með fólki í störf, eins og það hafi í rauninni verið eina lausnin sem stjórnsýslan ákvað að vega og meta. Svo er það meira að segja þannig statt að við fáum ekki mat á áhrifum, við fáum mat á kostnaði en ekki mat á áhrifum. Hver eru væntanleg áhrif af þessari aðgerð?

Þegar ég var að spyrja um þetta í fjárlaganefnd þá fékk ég vissulega baunatalningu á því hversu mörg störf þetta á að skapa, 7.000 manns geta fengið vinnu í gegnum þetta, en það klárast svona u.þ.b. í kringum kosningarnar. Þá klárast þetta úrræði. Þegar spurt var hversu margir af þeim mætti búast við að héldu áfram að vinna var svar Vinnumálastofnunar við þeirri almennu spurningu að þegar svipuð úrræði hefðu verið reynd áður hefðu u.þ.b. 75% þeirra sem tóku þátt í úrræðinu haldið áfram að vinna. Stofnunin gat ekki alveg búist við því að sama væri uppi á teningnum núna út af aðstæðum sem ég var að lýsa áðan, þetta er fjölbreyttari hópur, öðruvísi samsettur hópur og þess háttar. Gott og vel. Kannski er hægt að nýta þessa grunntölu, 75%, og taka varlega áætlun um það, segja að 70% af þeim sem fara í gegnum þetta úrræði komi til með að halda vinnu en við fengum ekki svoleiðis mat og þá fáum við ekki uppfærslu á stöðunni eins og hún verður í lok þessa árs. Hver er vænt staða miðað við þjóðhagsspá um þróun atvinnuleysis? Þá get ég ekki metið hvort stefna stjórnvalda bæti það ástand eða ekki. Alla vega ekki í hvaða mæli það verður.

Ég giska á að þessi aðgerð verði til bóta, alveg tvímælalaust. En eins og ég sagði áðan veit ég ekki hvort einhver önnur aðferð myndi skila betri árangri og þar er um ýmislegt að velja. Þar eru nýsköpunarmálin sem við fjölluðum um hér fyrir rúmu ári síðan og eru augljóslega glötuð tækifæri á þessu ári sem við höfum verið í Covid. Það voru glötuð tækifæri síðasta sumar sem hefði þýtt aðra stöðu á vinnumarkaði í dag en er núna. Alveg bókað mál. Hversu mikið? Ekki hugmynd, af því að það eru engar greiningar um það, það voru engar áætlanir um það. Ekkert. Það er ekki fyrr en núna eftir áramót sem við förum að sjá einhverjar alvöru vinnumarkaðsaðgerðir frá ríkisstjórninni aðrar en þær að halda öllu í horfinu, láta alla bíða. Það var fjárfestingaátakið sem var fullt af steypu og vegum og svoleiðis og það var nauðsynlegt hvort eð er út af innviðaskuldinni. Það þurfti heilan heimsfaraldur til að setja það loksins gang, sem var mjög merkilegt, þegar allir voru búnir að reyna að gera sitt fundust nokkrir milljarðar í viðbót til að vinna upp innviðaskuldina. Það er þessi sífellda endurtekning á því; gætum við fengið að sjá úr hvaða valmöguleikum var unnið og af hverju sumir valmöguleikar eru ekki nægilega góðir til að verða lausn á þeim vanda sem við erum að kljást við núna?

Við sjáum það aldrei, við fáum ekki þau gögn. Því er ekki svarað þegar allt kemur til alls. Ég segi að þetta sé alvarlegt af því að við settum lögin um opinber fjármál til að hafa þetta á hreinu, til þess að gera stjórnsýsluna faglegri, til þess að taka geðþóttaákvarðanir frá stjórnsýslunni, því að þó að pólitíkin geti vissulega tekið geðþóttaákvarðanir þá ber pólitíkin einmitt þá ábyrgð að velja. Það er hlutverk pólitíkurinnar að velja á milli mismunandi leiða og lausna. En það er hlutverk stjórnsýslunnar að vega og meta á faglegan hátt hvað þær lausnir þýða. Hver ávinningurinn af þeim er, hver kostnaðurinn af þeim er. Um það er vissulega hægt að deila, það er líka pólitískt deiluefni þar innan, t.d. varðandi byggðasjónarmið. Þegar við erum með tvær lausnir og önnur tæklar kannski fátækt á einhvern hátt og hin tæklar byggðasjónarmið á betri hátt, hvora lausnina ætlum við að velja? Ætlum við að velja blöndu af báðum, ætlum við að velja bara aðra? Sitt sýnist hverjum um það hvort frekar eigi að leggja áherslu á fátækt eða byggðasjónarmið. Því vissulega eru í núverandi ástandi byggðasjónarmið líka ákveðin fátæktarviðbrögð. Um það er pólitíkin náttúrlega sífellt að deila á meðan það eru bara faglegu niðurstöðurnar í rauninni, ákveðin baunatalning, sem stjórnsýslan gerir sem innlegg í þá pólitísku umræðu og við fáum hana ekki einu sinni.

Við fáum ekki einu sinni gögnin sem við biðjum um, látið okkur fá þessar greiningar til þess að við getum sagt að samkvæmt okkar gildismati, samkvæmt okkar sannfæringu, sem er tilgangur okkar hér í þessum sal, að fylgja stjórnarskrá, þá finnst okkur þessi lausn betri en hin eða þessi blanda af lausnum er betri en einhver önnur blanda af lausnum út af því að, og þá getum við bent á þær ástæður sem þar liggja að baki. Við erum að sjálfsögðu alltaf að spyrja líka: Hér er ákveðin greining á lausnunum sem okkur finnst ekki vera nægilega nákvæm. Við útskýrðum það á þennan og hinn háttinn og biðjum um nánari svör við ýmsum aukaspurningum sem þar eru á bak við. Þannig vinnum við fram og til baka með faglegri stjórnsýslu til að ná skýrum svörum. Allt þetta kjörtímabil hefur einmitt þetta vantað í fjárlagavinnuna, engin skýr svör við skýrum spurningum. Maður þarf að spyrja aftur og aftur og aftur og alltaf eru svörin þau sömu, þ.e. að fara í kringum svörin.

Eitt finnst mér í nefndarvinnunni almennt. Það er verið að reyna að spara tíma í nefndarvinnunni og allar spurningar nefndarmanna eru teknar saman. Kannski eru þrír, fjórir nefndarmenn að spyrja fimm, sex spurninga hver. Þær eru teknar saman og gestir spurðir, gestir reyna að krota niður hratt hvaða spurningum þeir eiga að svara og svo svara þeir þeim öllum í belg og biðu. Þá týnist oft nákvæmni í spurningum sem maður er að reyna að koma á framfæri, þær týnast inn á milli, það gleymist eða öllu er ekki svarað og allt í einu er tíminn bara búinn. Það er bara úthlutað í þetta 50 mínútum. Gestir koma og segja frá sinni umsögn í 20 mínútur, allir nefndarmenn fá að spyrja í 20 mínútur og það eru svör í aðrar 20 mínútur. Svo er bara búið, komið fram yfir tímann, það voru 60 mínútur þarna, úps. Það gerist mjög oft. Þá þurfa næstu gestir að bíða, koma aðeins seinna á fundinn og þá er tíminn sem þeir hafa enn þá styttri.

Þetta er rosalega óskilvirkt kerfi að vinna með, óskilvirk leið til að safna saman upplýsingum til þess að rökstyðja að þær lausnir sem við leggjum til fyrir almannafé séu góðar lausnir, séu vel ígrundaðar lausnir, séu rétt og góð notkun á almannafé. Ég hef verið að reyna að leggja það til að í staðinn fyrir að hrúga inn gestakomum, því stundum líður mér eins og það sé verið að kalla inn gesti í mál, einfaldlega til þess að haka í box. Við fengum gesti. Þar með er því hlutverki sinnt. Þá skiptir í rauninni ekkert rosalega miklu máli hvað var sagt. Einstaka nefndarmenn geta farið og kastað fram svona ákveðnum tilvitnunum í gesti til þess að hártogast um en þegar allt kemur til alls er bara verið að haka í box, að gestir hafi mætt, málið heldur bara áfram nokkuð óháð því hvað gestirnir voru að segja.

Það er mjög algengt í fjárlögunum líka, það er tekið tillit til nokkurra atriða alltaf, fínt, en ekkert sem gestakomur bættu við umfram umsagnir. Ég hef lagt til t.d. að nefndin fari yfir umsagnir á einhvern hátt, merki við þau álitaefni sem koma fram í umsögnum og biðji jafnvel um ítarlegri svör frá umsagnaraðilum eða séu alla vega með nákvæmari yfirferð yfir það hvað þarf að útskýra betur þegar gestir koma. Til þess að gera vinnuna skilvirkari alveg eins og lög um opinber fjármál eiga að gera fyrir allt fjárlagaferlið, eiga að gera það skilvirkara, eiga að gera það ígrundaðra og gagnsærra þannig að skjölin sem við fáum, útskýringarnar sem við fáum um að stefna stjórnvalda nái sínum markmiðum fyrir ekki óhóflega mikið almannafé, séu málið. En það hefur ekki gerast allt þetta kjörtímabil, sama hvað maður reynir.

Ég verð bara að segja að það er mjög áhugavert þegar allt kemur til alls. Ég get ekki annað séð en það sé bara einbeittur vilji til að hafa það þannig, því að við höfum beðið, ja, ég hef alla vega beðið nokkrum sinnum, um að við tækjum góða fundi með t.d. fjármálaráðuneytinu og öðrum ráðuneytum um það hvernig Alþingi vilji fá gögn.

Hér er einn áhugaverði hluturinn í þessu, af því að við erum með löggjafarvald og fjárveitingavald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu, eftirlit með framkvæmd fjárlaga í fjárlaganefnd og sá aðili sem veitir okkur upplýsingar um það eftirlitshlutverk sem við sinnum er framkvæmdarvaldið, aðilinn sem við höfum eftirlit með. Það mjög bjagað. Það er ekki hlutlaust. Það er hlutdrægt þannig að ég hef reynt að kalla eftir því að við sem Alþingi ákveðum hvaða gögn við þurfum til að geta tekið afstöðu um það hvort fjárheimildirnar séu góðar eða fjárlögin séu gagnleg okkur í umræðunni eða ekki. Það hefur ekki gerst.