151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[14:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga. Það einkennist af vinnumarkaðsúrræðum í stöðunni sem við erum í eftir heimsfaraldur kórónuveiru og ýmsu sem því hefur fylgt síðastliðið rúmt ár á margan hátt. Hefur það kostað mikil fjárútlát og aukavinnu fyrir okkur öll að mæta þeim áskorunum.

Mig langar í upphafi ræðu minnar að tala um atvinnuhliðina á þessum vettvangi. Ég var að lesa mér til og las umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Eins og ég sagði í upphafi tengjast allar stærstu fjárheimildir sem óskað er eftir í frumvarpi til fjáraukalaga 2021 vinnumarkaðsúrræðum stjórnvalda. Í því sambandi hefur verið óskað eftir því að þau sendi inn umsögn. Fyrst er almennt fjallað um horfur á vinnumarkaði. Með leyfi forseta, langar mig að lesa upp úr umsögninni:

„Almennt atvinnuleysi virðist hafa náð hámarki í janúar á þessu ári eftir samfellda aukningu frá því faraldurinn hófst. Viðsnúningurinn hófst á sama tíma og merkja mátti aukna bjartsýni í efnahagslífinu vegna góðs framgangs í bóluefnamálum og aukins fyrirsjáanleika varðandi efnahagsaðgerðir yfirvalda og fyrirkomulag sóttvarna á landamærum, sem var lykilatriði varðandi áætlanagerð fyrirtækja og ráðningar starfsfólks. Viðsnúningurinn er vitnisburður um mikilvægi fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja en erfitt er að ráða fólk til starfa þegar öll áætlanagerð er í algeru uppnámi, eins og gefur að skilja.

Samkvæmt könnun Gallup fyrir SA og Seðlabanka Íslands á 400 stærstu fyrirtækjum landsins er þessi þróun líkleg til að halda áfram en merkja má aukinn vilja til ráðninga.“ — Sem er að sjálfsögðu gleðiefni. — „Í apríl á þessu ári sá einn af hverjum fjórum atvinnurekendum fram á að fjölga starfsfólki á næstu 6 mánuðum á meðan tæp 15% sáu fram á að fækka nokkuð. Fleiri en færri sjá því fram á ráðningar á ný, sem er viðsnúningur frá fyrri könnunum í kjölfar Covid. Framvinda bólusetninga hefur hér að líkindum mikil áhrif. […]

Atvinnurekendur hafa á heildina litið verið sáttir við efnahagsaðgerðir stjórnvalda eins og kannanir SA hafa gefið til kynna. Aðgerðir á borð við hlutastarfaleiðina og stuðningur launa á uppsagnarfresti hafa þar skipt sköpum og óhætt er að segja að þær hafi átt sinn þátt í að takmarka gjaldþrot fyrirtækja á umliðnu ári, en þau voru talsvert færri en vænta mátti í upphafi faraldurs.

Eftirspurn eftir ráðningarstyrkjum hefur verið nokkuð mikil að undanförnu. Ríflega 9.700 störf höfðu verið skráð í átakið Hefjum störf þann 3. júní, flest tengd ferðaþjónustu, en á sama tíma hafði einungis tekist að ráða í um 2.700 störf í gegnum átakið. Þrátt fyrir sögulegt atvinnuleysi virðist því ganga treglega að ráða fólk af atvinnuleysisskrá.“

— Það er áhyggjuefni og skrýtin staða í sjálfu sér að illa gangi að ráða fólk af atvinnuleysisskrá. Þetta hefur verið töluvert í umræðunni núna síðustu daga og sitt sýnist hverjum í því. Sumir tala um að það þýði ekki að knýja fólk til starfa í einhverju sem því hugnast ekki að starfa við og þar fram eftir götunum, og má á ýmsan hátt taka undir það. En það er samt þannig þegar svona staða er uppi að erfitt er að velja sér vinnu að maður þarf oft að gera það sem nauðsynlegt er. Þess vegna finnst mér það svolítið vond þróun ef þetta er að verða staðreynd.

Svo ég haldi aðeins áfram, þá segir hér:

„Fjöldi atvinnuleitenda hefur hafnað störfum samkvæmt atvinnurekendum víðs vegar um land eða með öðrum hætti sýnt áhugaleysi á störfum. Hafa atvinnurekendur í einhverjum tilfellum tilkynnt um atvikin og viðkomandi atvinnuleitendur verið felldir af atvinnuleysisskrá. Þetta virðist vera almennur vandi og fjölmörg dæmi frá atvinnurekendum þess efnis, til SA og SAF sem og í fjölmiðlum. SA og SAF hvetja til þess að tilkynnt sé um slík atvik.“

— Þetta er af sama meiði og er ekki gott í stöðunni.

Síðan er talað um misbrest í framkvæmd:

„Atvinnurekendur hafa einnig vakið athygli á því að ráðningarstyrkjaferlið sé seinvirkt. Þá hafa fjölmörg fyrirtæki boðið starfsfólki í viðtal í gegnum átakið sem reynist svo vera farið af atvinnuleysisskrá, t.d. vegna þess að það hefur ráðið sig annað. Þetta hefur tafir í för með sér. Þá hafa einhver fyrirtæki ráðið inn starfsmenn í gegnum átakið en fengið synjun eftir á frá Vinnumálastofnun þar sem stofnunin hafði ekki tryggt frá upphafi að starfsmenn uppfylltu skilyrði ráðningarstyrks. Þetta getur valdið fyrirtækjum tjóni og umræddum starfsmönnum óþægindum og e.t.v. uppsögn. Verkferlum hjá Vinnumálastofnun er snúa að átakinu Hefjum störf virðist því vera ábótavant, sem skerðir verulega virkni úrræðisins.“

— Þetta er að koma upp núna og eykur ekki á bjartsýni á að fólk sé tilbúið til að bregðast við þeim aðstæðum sem eru akkúrat núna.

„Hanna þarf úrræði með tilliti til hvata og skilvirkni. Hafa ber í huga að atvinnuleysistryggingar hér á landi eru með þeim rausnarlegustu sem þekkjast á heimsvísu og minni hvati er til að snúa aftur til starfa hér á landi en víðast hvar annars staðar, bæði vegna mikilla bóta og mikillar skattbyrði. Úrræði yfirvalda vegna faraldursins, svo sem hækkun bóta og lenging bótatímabils, mega ekki hafa í för með sér varanlega neikvæðar afleiðingar á vinnumarkaði, en spár gera þegar ráð fyrir að atvinnuleysi verði meira og þrálátara en gert var ráð fyrir áður en faraldurinn skall á. Gæta þarf þess að úrræði séu hönnuð þannig að þau feli ekki í sér óæskilega hvata með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð og samfélagið.“

Þá kemur mér í hug setningin sem ég hef stundum rifjað upp hérna: Hvað get ég gert fyrir samfélagið? sem er ágætt að minna sig á í þessu ástandi, en ekki: Hvað samfélagið gert fyrir mig? Vegna þess að hugarfar skiptir líka miklu máli hjá okkur öllum, hvernig við stöndum okkur í samfélaginu. Þannig að ég hvet fólk til að hugsa þetta á þann hátt líka.

Af því að minnst er þarna á skatt og skattumhverfi þá hefur mér alla tíð fundist tekjuskattur hjá okkur vera allt of hár eða skattur yfirleitt í sambandi við atvinnu, sérstaklega þegar hann er orðinn það hár að hann nálgast helming af tekjum. Þá er það ekki mjög hvetjandi fyrir þá sem vilja að rífa inn tekjur með dugnaði og koma ár sinni vel fyrir borð þannig að þeir séu fjárhagslega sjálfstæðir þegar þeir koma sér upp húsnæði og stofna fjölskyldu og þar fram eftir götunum. Það þarf að vera hvetjandi að vera duglegur og vinna mikið eða afla sér tekna. Þá er mikilvægt að skattumhverfið sé þannig að það sé hvetjandi í þá áttina, en ekki eins og áhyggjurnar eru í þessum texta, að fólk sjái sér frekar hag í því að vera á atvinnuleysisbótum.

En þetta er viðkvæm umræða og ber að nálgast hana af virðingu. En ef við tölum um félagslegt heilsufar og heilsufar almennt þá gildir enn þá setningin: Vinnan göfgar. Þeir sem geta unnið eru hvattir til að vinna.

Af því að þetta er umsögn frá bæði Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar þá kemur hér kafli frá ferðaþjónustunni:

„Ferðaþjónusta er að komast fyrr af stað en horfur gáfu til kynna fyrir um tveimur til þremur mánuðum. Ástæðan er fyrst og fremst ákvörðun um að veita bólusettum ferðamönnum frá ríkjum utan Schengen inngöngu inn í landið, en einkum hefur Bandaríkjamarkaður tekið við sér vegna þessara breytinga. Evrópumarkaður fer hægar af stað og virðist nær því sem búast mátti við.“ — Talað er um að Evrópumarkaðurinn muni taka við sér síðar á árinu. — „Ekki eru horfur á að evrópskir ferðamenn muni sækja landið heim að ráði fyrr en í ágúst/september. Því er enn flókið að meta bókunarstöðuna fram undan. Töluvert mikið er um bókanir í ágúst og september, sem erfitt er að meta hvort muni að endingu skila sér. Þar má nefna hópabókanir og bókanir á vegum ferðaskrifstofa, sem og bókanir sem voru færðar frá fyrra ári. Afbókunarfrestir hafa verið styttir niður í um tvær vikur sem minnkar fyrirsjáanleikann og torveldar mat á bókunum. Mishröð þróun á ferðavilja á mörkuðum sitt hvoru megin hafsins gerir það að verkum að fyrirtæki eru í afar ólíkri stöðu. Fyrirtæki með tengsl og reynslu á Bandaríkjamarkaði eru með forskot á meðan […] allt sem tengist hópferðum [er] mun seinna í gang en hjá þeim sem þjónusta ferðamenn á eigin vegum.“

— Þetta er athyglisvert. Síðar segir:

„Nú lítur út fyrir að spár um 700–800 þúsund ferðamenn á árinu gætu hugsanlega ræst. Það byggir þó á því að Evrópumarkaður taki vel við sér í ágúst og september. Til að spárnar raungerist þurfa ágúst og september að vera með allra hagfelldasta móti — ljóst er að fjöldinn í október og nóvember mun verða talsvert minni en ágúst og september.“

— Þarna er verið að velta fyrir sér stöðunni. Ég hef einmitt velt því fyrir mér á þessum undanförnum mánuðum sem við erum búnir að vera í þessari stöðu, hvort heimurinn verði samur eftir Covid eða hvort ýmislegt muni breytast. Það gæti alveg eins breyst í ferðavilja fólksins, eins og í öðru í lífinu eftir þessa upplifun, að ferðavilji fólks breytist og minnki jafnvel. En tíminn á eftir að leiða það í ljós.

„Að þessu sögðu er mjög mikilvægt að nefna að bókanir ráða ekki öllu. Fyrirtækin glíma við ýmis önnur vandamál sem hamlað gætu vexti. Til að mynda hefur víða reynst erfitt að ráða starfsfólk og þar með erfitt að anna eftirspurn.“ — Þarna er aftur komið að því að það er ekki svo einfalt að ráða fólk þó að atvinnuleysið sé mikið.

Síðan segir:

„Fjárhagsstaða margra fyrirtækja í ferðaþjónustu er afar þröng eftir faraldurinn þrátt fyrir margvísleg úrræði yfirvalda. Hafa sum hver þurft að þola rúmt ár tekjulaus með tilheyrandi skuldasöfnun vegna Covid ástandsins ofan á fyrri fjárfestingar. Mörg fyrirtæki eru því stórlöskuð; horfur eru óljósar, skuldir hafa hlaðist upp og erfitt er að ráða starfsfólk með reynslu. Viðskiptasambönd hafa flosnað upp með brotthvarfi reynslufólks bæði hérlendis og hjá viðskiptafyrirtækjum erlendis. Það mun taka töluverðan tíma að byggja netið upp á ný.“

— Það er örugglega alveg laukrétt.

Það er annað sem mig langaði að minnast á hér í ræðunni af því að við erum að tala um tekjur fyrir ríkissjóð, en það er hin stóraukni útflutningur á óunnum fiski sem hefur aukist mikið núna síðustu tvö ár. Verð ég að segja að ég hef haft áhyggjur af því, og bæði skrifað um það og flutt ræður um það og við höfum líka rætt þetta í atvinnuveganefnd, að fiskvinnslan hér heima, þá er ég að tala um fiskvinnslufyrirtæki, sem reiða sig á að kaupa fisk töluvert á fiskmörkuðum, er í vandræðum. Í þessari stöðu er það þó þannig að fiskur á uppboðsmörkuðum hefur hækkað í verði vegna þess að heimsmarkaðsverðið er að lagast. Þar spila líka inn í þær fiskvinnslur sem kaupa óunninn fisk til vinnslu erlendis. Þar er sennilega góður markaður og ódýrara vinnuafl og eitthvað svoleiðis. En það sem ég myndi vilja sjá í sambandi við virðisaukann í því að gera sem mest verðmæti úr þessu hráefni, úr fiskininum hér heima, er að þær tölur sæjust svart á hvítu, hvort þetta skili sér á jákvæðan hátt til þjóðarbúsins. Mér er til efs að svo sé.

Það má þá líka líta á það þannig, af því að flestar þessar vinnslur sem afla að hluta til bæði fisks úr sjó með sinni útgerð og svo með kaupum á mörkuðum, eru úti á landsbyggðinni. Þá er erfitt að tryggja að þær geti starfað áfram ef þetta verður þróunin, að útflutningur á óunnum fiski aukist svona mikið. Því þarf að fá það alveg á hreint hvernig þetta kemur út fyrir samfélagið í heild. Auðvitað fagna sjómenn því að fiskur hafi hækkað í verði. Ég fagna því líka. En það er líka spurning hvort þessi aukning á óunnum fiski, útflutningur, myndi nokkuð lækka verð á mörkuðum ef leitað væri til þess að vinda ofan af því og meira af þessum fiski væri unnið hérna heima. Menn þurfa að taka þá stöðu alvarlega. Það hefur verið brugðist við því á fyrri stigum. Við munum eftir því að eftir efnahagshrunið voru sett gjöld á útflutning á óunnum fiski. Ég er ekkert endilega að kalla á að það úrræði verði tekið upp, en alla vega verði það skoðað hvernig þetta horfir við verðmætasköpun fyrir hið opinbera.