151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:53]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er með spurningu á móti í sambandi við þessa 4% hækkun á daggjaldagrunni, þannig verð ég að svara þessu. Ef hækkunin mætir því sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa gagnrýnt, og við höfum fengið að heyra í velferðarnefnd, má vera að þetta dekki það að einhverju leyti, en ég efast um að svo sé. Einn milljarður kann að hljóma mjög vel, þetta skiptist á milli einhverra tímabila, ég ætla ekki að gera lítið úr því. En það sem ég myndi gjarnan vilja sjá er að við horfum lengra. Hvað svo? Hvernig ætlum við síðan að mæta þessu? Öll ræða mín fór í það. Hvernig ætlum við að mæta mönnunarþörfinni? Þetta er einhver tími, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það er 4% daggjaldahækkun. Hversu lengi dugar það og dekkar það til baka? Hvenær hættum við að láta það fylgja einhverju eðlilegu verðlagi? Hvað hefur gerst síðan? Hvernig hefur eldra fólki hrakað? Á hvað hefur það kallað inni á hjúkrunarheimilunum? Klárlega meiri fagmenntun. Við erum undir hlutfalli nágrannaþjóða hvað varðar fagmenntun starfsfólks. Mér finnst við á engan hátt vera að skoða heildarmyndina í þessum pakka. Þó svo að þetta snúist um krónur og aura, akkúrat þessi tillaga sem við ræðum hér, finnst mér skorta mjög mikið á umræðuna þannig að hlutirnir séu settir í samhengi.