151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:58]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil fá að skilja þetta rétt. Við erum að halda því fram að verið sé að rétta af halla síðastliðinna þriggja ára. (Gripið fram í: Þessa árs?) Tekið mið þrjú ár aftur í tímann? Ef við erum að því þá vil ég halda því fram að hallinn hafi verið kominn löngu fyrir þann tíma og síðan safnast upp. Þannig að við erum að mæta einhverjum hluta hans en þó ekki að koma til móts við hann, það er stór munur þar á.

Við horfum fram á að æ fleiri þurfa á hjúkrunarheimili að halda. Við erum kannski ekki alveg sammála um þetta og ég vil ganga lengra. En gott og vel. Við erum sammála um að það þarf að fara að hugsa um stefnuna og ég vil gera meira en það. Það liggur allt fyrir. Við vitum hverju við stöndum frammi fyrir. Við vitum að fleiri og fleiri koma til í hverjum árgangi sem eldist og eldist. Það sem ég er að segja er að við þurfum að fara að framkvæma stefnuna vegna þess að hún liggur fyrir. Ég veit að það á að búa til sérstaka stefnu um öldrun, ef svo má segja, og ég vona að þá getum við farið að líta á hjúkrunarheimili sem heimili. Mér finnst mjög oft vanta upp á félagslega sýn, yfirleitt í öllu því sem við erum að tala um, sérstaklega vegna þess að við erum að ræða um heimili fólks. Stundum langar mig að tala um félagsheimili en ekki hjúkrunarheimili vegna þess að þetta eru einmitt heimili. En meðan við náum ekki að vanda okkur vel við að sjá til þess að fólk komist inn á heimilin þá verður staðan því miður eins og hún er.