151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um fjáraukalög, í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í vegna Covid, stöðuna í atvinnumálum, tækifærin sem eru í boði og það sem þarf að bregðast við. Ég ræddi það hér á fyrri stigum að líta ætti til lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eiga mörg hver í miklum erfiðleikum, eins til ferðaþjónustufyrirtækja. Við höfum mikið rætt um það á þessu kjörtímabili í mínum flokki að lækka tryggingagjald myndarlega. Það er stór þáttur í rekstri fyrirtækja og ekki síst þeirra fyrirtækja sem eru lítil og meðalstór. Af því að ég er að ræða um skatt hefur það stundum verið rætt á tyllidögum og oft og tíðum talað um þörf þess að tekjuskattskerfið sé vinnuhvetjandi. Það hefur alls ekki orðið raunin einhverra hluta vegna. Nú er verið að þrepaskipta skattkerfinu og það er til góðs fyrir þá sem hafa lægri tekjur, sem eru í lægri tekjuhópunum. Verið er að mæta þeim og það er af hinu góða. Þegar tekjur eru síðan komnar upp fyrir vissa upphæð þá hækkar tekjuskatturinn. Það hefur mér alla tíð fundist — og þetta hefur vaxið — ekki vera vinnuhvetjandi skattumhverfi. Af því að nú erum við að tala um atvinnuleysi, að við viljum fá fleiri út á vinnumarkaðinn og það gangi misjafnlega, að ekki sé svo auðvelt að fá fólk út á vinnumarkaðinn, eins og kemur fram í umsögnum frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar, þá er spurning hvort ekki mætti líta til skattkerfisins þannig að fólk sæi sér hag í því að fara að vinna frekar en að vera á bótum þó að auðvitað verði fólk að þiggja þá vinnu sem því hugnast sem er í boði. Ég tek alveg undir það að maður fer ekki að vinna hvað sem er þó að ég hafi nú aldrei hafnað því ef — ég hef reyndar aldrei verið atvinnulaus en ég hef unnið alls konar vinnu. Að skattkerfið sé þannig að fólki sé í raun og veru ekki hegnt fyrir að vera duglegt við að afla sér tekna. Þegar skattkerfið er þannig að tekinn er nánast helmingur af laununum þegar menn eru komnir yfir vissa upphæð þá fara menn að spyrja sig: Er ekki alveg eins gott að taka það rólega? Þetta er oft fólkið sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, stofna heimili, unga fólkið. Þar af leiðandi eru það í mínum huga ekki rétt skilaboð að skattkerfið sé ekki vinnuhvetjandi. Við höfum það á stefnuskrá okkar í Miðflokknum að skoða þetta mjög alvarlega og tölum um það sem leið til að búa til vinnuhvetjandi skattkerfi.

En aðeins frá því í bili. Undir þessum dagskrárlið hefur verið rætt töluvert um hjúkrunarheimilin, stöðu þeirra, hvað mörg þeirra hafa verið í vandræðum síðustu ár og gert ákall til stjórnvalda að koma til móts við rekstrarvandann. Mörg þeirra eru að gefast upp og eru komin, við getum sagt í fangið á ríkinu, þau sem eru ekki ríkisrekin. Það getur varla verið góð niðurstaða. Mig langar aðeins að grípa niður í umsögn frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu í sambandi við hjúkrunarheimilin:

Hjúkrunarheimilin eru ein af mikilvægustu grunnstoðum íslenska velferðarkerfisins. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið við þau áform sem koma fram í stjórnarsáttmálanum um að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila og dagþjálfun. Á þeim þremur árum sem ríkisstjórnin hefur setið við völd hefur hún hrint í framkvæmd stöðugum skerðingum á rekstrarframlagi til hjúkrunarheimila.

Ríkisendurskoðun hefur bent á að rekstur hjúkrunarheimila sé almennt mjög þungur og hefur róðurinn þyngst ár frá ári í samræmi við fjárhagsskerðingar ríkisstjórnarinnar og þegar Sjúkratryggingar Íslands breyttu aðferð sinni við útgreiðslu fjármagns. Það er ámælisvert að ákvörðun Sjúkratrygginga hafi verið tekin einhliða án viðræðna við hjúkrunarheimilin, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í fyrrnefndri fjármálaáætlun kemur fram að stærsta verkefni ríkissjóðs í tengslum við málefnasvið hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu sé átak sem felst í fjölgun hjúkrunarrýma bæði með endurgerð eldri rýma og byggingu nýrra, m.a. með byggingu hjúkrunarheimila. Er um að ræða rúmlega 900 rými í heild. Stjórnvöld hafa boðað að 717 rými verði byggð til 2024 þegar áætlað er að þau verði orðin 3.433 í heild, sem er 26% aukning frá árinu 2018. Á sama tíma gerir ríkisstjórnin ráð fyrir aðeins 6% auknu fjármagni til rekstrar málefnasviðsins.

Ekki er nóg að byggja ný hjúkrunarheimili, það verður líka að tryggja forsvaranlegar rekstrarforsendur fyrir heimilin til að þau geti sinnt sínu hlutverki. Þar vantar mikið upp á. Nauðsynlegt er að fara alvarlega ofan í saumana á fjárhagsgrunni hjúkrunarheimilanna og rýna betur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefnasviðið. Illa gengur að manna stöður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á hjúkrunarheimilum. Formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir alvarlegan skort á sjúkraliðum á hjúkrunarheimilum. Þetta hefur gert það að verkum að vísa hefur þurft frá einstaklingum með mikla þjónustuþörf þar sem ekki fæst heilbrigðisstarfsfólk til starfa. Ástæða þess að illa gengur að manna stöður starfsfólks er m.a. sú að hjúkrunarheimili landsins hafa setið eftir hvað varðar fjárveitingu í þjónustu undanfarin ár. Nauðsynleg styrking á rekstrarfé hefur orðið hjá spítölum, heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu en skorið hefur verið niður hjá hjúkrunarheimilum.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa ítrekað bent á að nauðsynlegt sé að styrkja rekstur hjúkrunar-, dagdvalar- og endurhæfingarrými. Rekstur hjúkrunarheimila á landsbyggðinni er afar þungur og kemur það m.a. til af því að ómögulegt er að ná fram þeirri stærðarhagkvæmni sem næst með fjölda rúma sem alla jafna þekkist á höfuðborgarsvæðinu. Trúverðugt samtal verður að fara fram milli fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins, Sjúkratrygginga Íslands, öldrunarstofnana og sveitarfélaga. Forsenda árangurs og breiðari sáttar um málaflokkinn er stóraukið samráð og skilningur á eðli rekstrar hjúkrunarheimila.

Þetta kemur m.a. fram í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Við tökum undir að brýnt er að mæta þeim rekstrarerfiðleikum sem nú ríkja í þessum mikilvæga málaflokki. Það verður að segjast eins og er að stefnan í því á hvaða formi þjónusta við aldraðra á að vera er einhvern veginn að breytast. Nú er stefnan sú að reyna að þjónusta sem flesta heima hjá sér meðan þeir hafa heilsu til. Hjúkrunarheimilin eru meira að verða, ég leyfi mér að segja líknarheimili. Fólk er oft það veikt þegar kemur þangað inn að það á ekki langt eftir. Þetta er eitthvað sem margir kvarta yfir að sé í raun og veru ekki framför.