151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:53]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á sömu slóðum og ég var í fyrri ræðu minni þar sem ég ræddi sérstaklega stöðu hjúkrunarheimila, heilbrigðiskerfisins og mönnun þess. Mig langar aðeins að fara inn á rekstur Landspítala með það í huga að staðan þar er grafalvarleg, sérstaklega á bráðamóttökunni. Við höfum séð ályktanir frá læknum þaðan sem benda á að öryggi sjúklinga sé ógnað og ekki sé hægt að halda því fram að allt sé eins og best verður á kosið.

Ég tók eftir því um daginn, og við fengum sendan um það póst, a.m.k. þingmenn sem sitja í hv. velferðarnefnd, að Krabbameinsfélagið hafði ályktað að gefa Landspítala 450 milljónir í heild til þess að hægt verði að byggja við svokallaða K-álmu þannig að það verði viðunandi aðstaða fyrir þá sem sækja krabbameinsmeðferð inn á deild hjá Landspítalanum. Það sem mig langar að velta upp hér er að þá finnum við okkur í þeirri stöðu að við erum með félag, Krabbameinsfélagið, sem fær sitt fjármagn frá almenningi sem vill gefa fjármagn til félagsins, og það stendur frammi fyrir því að vita af þessum gríðarlega vanda varðandi aðstæður á krabbameinsdeildinni og tekur þá ákvörðun á aðalfundi að leggja til fjármagn að því gefnu að stjórnvöld komi til móts við það með einhverjum hætti, væntanlega fjárhagslegum, til að hægt verði að byggja þessa deild við svokallaða K-byggingu. Og þetta er dálítið snúið mál. Fyrst er að nefna að það er svolítið sorglegt að upplifa að það hafi ekki verið gert ráð fyrir því að stækka deildina í nýjum Landspítala. Á sama tíma er Landspítala gert að taka að sér skimun vegna brjóstakrabbameina. Ég vil stilla þessu svona upp vegna þess að skimun fyrir brjóstakrabbameinum er flokkur sem er ákveðin forvörn. Það er verið að hvetja konur, konur sér í lagi þó svo að karlar geti líka fengið brjóstakrabbamein, til að mæta til skimunar til að koma í veg fyrir að þær greinist með mein á seinni stigum. Það sem ég vil segja er að mér finnst dálítið sérstakt að það sé verið að setja forvarnastarf á það sem við viljum kalla dýrasta enda heilbrigðiskerfisins, sem Landspítali vissulega er. Að sjálfsögðu eru framkvæmdar aðgerðir á Landspítala sem eru flokkaðar annars stigs, af því að nú vill hæstv. heilbrigðisráðherra setja allt niður á einhver stig. Fyrsta stigið er heilsugæslan, annað stigið er þá sérgreinalæknar og svo erum við með þriðja stig sem er bráðaþjónusta. Landspítali vex og vex vegna þess að honum er ætlað að hýsa bráðaþjónustu ásamt því að vera héraðssjúkrahús fyrir rúmlega 200.000 manns.

Ég hef alltaf séð að þetta sé nokkurn veginn, já, ég vil bara segja að þetta er eins og tvö tannhjól sem snúast alls ekki í takt. Mín skoðun hefur ætíð verið að það eigi aldrei að setja þessa starfsemi undir sama þak. En staðan er sem sagt sú að frjáls félagasamtök, eins og ég vil leyfa mér að nefna Krabbameinsfélagið, sjá þessa fjárhagslega alvarlegu stöðu. Við getum líka talað um forgang og hvernig við setjum hlutina í forgang. Krabbameinsfélagið vill sjá af 450 milljónum af sínu fjármagni. Það er talað um að 350 milljónir sé eigið fé en auk þess verði farið í fjáröflun þar sem verði safnað 100 milljónum til að byggja upp þessa nýju dagdeild. Mér finnst sjálfsagt mál að farið sé í fjáraflanir og það sé vitað fyrir hverju er verið að safna. En ég leyfi mér að setja spurningarmerki við að félag eins og Krabbameinsfélagið veiti fjármagn í Landspítalann.

Í þessu sambandi vil ég minna á að það eru fleiri dagdeildir en á Landspítala sem þjónusta krabbameinsveikt fólk. Rökstuðningur, sem á fullan rétt á sér hjá Krabbameinsfélaginu, er tekinn úr könnun sem var gerð meðal þeirra sem hafa greinst með krabbamein og hafa verið í meðferð, sem segja t.d. að ekki sé aðstaða til eiga einkasamtöl til ráðgjafar eða slíkt. Það sama, má ég til með að segja, er uppi á teningnum á Akureyri þar sem ég þekki mjög vel til. Þar er heldur ekki aðstaða til þess að eiga einkasamtöl. Það þarf oft að fara yfir á aðrar deildir eða finna annað rými til þess að það sé mögulegt. En það er að mínu mati töluverð ofhleðsla á Landspítala. Ætlunin er að þetta verði allt á einum stað og það getur verið býsna flókið.

Ég í allri einfeldni minni byrjaði á Alþingi fyrir nærri fjórum árum síðan. Það fyrsta sem blasti við mér þá var hvernig við ætluðum t.d. að finna bílastæði við Landspítala af því að fólk þarf að geta lagt bílunum einhvers staðar. Þessu var mætt af hörku, að ég væri með óþolandi aðfinnslur yfir smámunum. Það eru ekki margir dagar síðan ég fékk póst þar sem fólk sem þurfti að komast á Landspítalann var að spyrjast fyrir um hvar það gæti lagt bílnum.

Að mínu mati hefði alltaf átt að styðja við það sem sumir hafa kallað kragasjúkrahúsin og svo heilbrigðisstofnanirnar hringinn í kringum landið. Ég nefni sérstaklega Sjúkrahúsið á Akureyri sem mér finnst ótrúlegt metnaðarleysi að setja undir Landspítala í staðinn fyrir að setja það við hliðina á Landspítalanum vegna þess að það gerir að verkum að starfsfólk hefur minna val um starfsvettvang. Mínar upplýsingar segja að það sé ekki skortur á læknum í landinu. En samt sem áður virðist vandamálið vera á bráðadeildinni, þar er verið að kalla til sérgreinalækna, að það sé skortur á þeim. Einhvers staðar hljóta þeir að vera og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þeir velji ekki að vinna á Landspítala. Ég held að það sé margslungið viðfangsefni sem þarf að fást við. Það verður að grípa til raunverulegra aðgerða og fyrsta skrefið í því væri t.d. að viðurkenna að það er ekki góð hugmynd að setja ríkisspítalann við Hringbraut. Við höfum á umliðnum árum komið fram með tillögur þess efnis að finna Landspítala nýjan stað. Eftir því sem tíminn hefur liðið hafa þær tillögur tekið breytingum í þá átt að eftir því sem miðar við Hringbraut sé hægt að finna byggingum þar annað hlutverk. Við höfum t.d. nefnt hjúkrunarheimili sem mjög gott hlutverk þeirra. En þetta er eilífðarumræða og sjálfsagt kemst ekki niðurstaða í hana á næstu misserum. En að mínu mati er þetta röng ákvörðun.