151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:16]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við erum hér enn að ræða mál dagsins. Við höfum verið að fjalla töluvert um hjúkrunarheimilin og það var nefnt hér í ræðu fyrr í dag að Akureyrarbær hefði greitt með sínum öldrunarstofnunum býsna lengi. Það hefur verið greitt með þeim stofnunum í mörg ár.

Það sem mig langaði að koma inn á núna er í sambandi við samgöngur og þá sérstaklega flugsamgöngur vegna þess að við héldum að það horfði til betri vegar varðandi flugvöllinn á Egilsstöðum. Ætlunin var að malbika þar akstursbraut þannig að hægt væri jafnvel, ef til þess kæmi, að leggja flugvélum þar og færa til ef ekki væri hægt að nota aðra flugvelli á suðvesturhorni landsins. En nú lítur þetta út þannig að aðeins á að malbika flugbrautina sjálfa þannig að akstursbrautin verður sett á ís. Þetta er mjög miður vegna þess að okkar flugfélag, Icelandair, hefur einmitt lagt áherslu á að byggja upp Egilsstaðaflugvöll umfram aðra velli.

Ég hefði auðvitað viljað sjá sömu hugsun hjá Icelandair varðandi Akureyrarflugvöll vegna þess að ég tel þetta haldast í hendur. Það eru töluverðar vegalengdir milli Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar. Ef við setjum það í samhengi við hversu langt er á milli Egilsstaða og Reykjavíkurflugvallar, sem er líka varaflugvöllur, þá er þetta ekkert svo mikið sem munar í milli. Vegalengdirnar eru svipaðar. Svo er hitt að nýverið var hæstv. fjármálaráðherra að taka skóflustungu að nýrri viðbyggingu við Leifsstöð og það voru örugglega 20 milljarðar, ef ég man það rétt, sem fóru þangað. Þannig að þetta er dálítið skökk mynd sem blasir við. Það virðist vera þannig að það eigi að fara nákvæmlega sömu leið og áður á meðan maður hefði haldið að í þessu kórónuveiruástandi liti fólk svolítið til baka af því að það felast tækifæri á öllum stöðum, ef við getum sagt það þannig. Það eru tækifæri í svona aðstöðu eins og við erum í núna til að hugsa málin aðeins upp á nýtt.

Við erum fyrir norðan, svo ég haldi mig þar, einnig með mjög mikilvæga ferðaþjónustu. Ég get nefnt Demantshringinn sem við köllum svo. Við erum með flugvöll við Húsavík og svo aftur við Egilsstaði og þetta er dálítið merkilegt. Meira að segja starfshópurinn um Hvassahraun er enn að störfum sem sýnir kannski fáránleikann í þessu öllu saman.

Það var núna í morgun sem Norræna kom sína fyrstu sumarferð og það voru 300 farþegar sem komu með henni. Það má benda á það líka að umferð um hringveginn jókst mest á Austurlandi, um rúmlega 23% miðað við sama mánuð í fyrra. Vissulega vorum við í miðjum kórónuveirufaraldri en á landsvísu yfir sama tímabil eða við sama samanburð var það á landinu öllu 8,4% þannig að þetta sýnir kannski að tækifærin eru víðar heldur en í gegnum gáttina í Keflavík. Mér finnst alls ekki hugað nægilega að því að líta til fleiri staða á landinu og sérstaklega ættum við að nýta tækifærið núna til að hugsa hlutina upp á nýtt því að það er tækifæri sem við megum ekki láta ganga okkur úr greipum.