151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:48]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í ræðu hér fyrr í dag talaði ég töluvert mikið um hjúkrunarheimilin og þá stöðu sem þau finna sig í núna. Mér áskotnaðist grein eftir bæjarstjórann á Akureyri sem mér finnst varpa ágætu ljósi á aðstæður þeirra sem reka hjúkrunarheimili og af hverju það er brýnt að við tryggjum þeim rekstrarfjármagn til framtíðar. Til að segja það fyrsta rak Akureyrarbær öldrunarheimilin á Akureyri þar til fyrir skömmu síðan þrátt fyrir að sveitarfélögum á landinu sé ekki ætlað að reka hjúkrunarheimili. Það er hlutverk ríkisins samkvæmt lögum. Á hverju ári hafa sveitarfélög sem ráku hjúkrunarheimili greitt u.þ.b. 1 milljarð af útsvarstekjum sínum með rekstrinum. Það mátti heyra í fréttum og er nú komið á þann stað að fæst af stærstu sveitarfélögunum hafa lengur hjúkrunarheimili í sínum rekstri. Minni sveitarfélög hafa svo verið að skila rekstrinum aftur til ríkisins vegna þess að þetta hefur alls ekki gengið upp. Öll þessi minni sveitarfélög voru í sömu stöðu og Akureyrarbær á sínum tíma og það hefur verið kostnaðarsamt fyrir bæjarsjóð og þar með þá sem greiða útsvar í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Ef við horfum til Akureyrar hafði verið greitt á hverju einasta ári í níu ár — þetta hlýtur auðvitað að vera samtals, ég veit ekki hvernig á að horfa á það — 1,7 milljarðar króna þegar rætt var um þessi öldrunarheimili og farið ítarlega í tölurnar í febrúar síðastliðnum. Það hefur reynt á útsvarsgreiðslur bæjarbúa með þessum hætti. Þessir 1,7 milljarðar eru þá án húsaleigu. Öldrunarheimilin hafa verið einn stærsti vinnuveitandi bæjarins, 320 starfsmenn starfa þar. Talað er um tvö húsnæði sem þó eru dálítið deildaskipt og bara mjög vel sett saman. Þegar hjúkrunarheimili eru byggð greiðir ríkið 85% af stofnkostnaði og sveitarfélögin 15% samkvæmt lögum. Annað húsnæði sem Akureyrarbær rak kallast Hlíð. Þar var annars konar útreikningur í upphafi og verið var að greina hvernig væri hægt að sækja fjármuni til baka til ríkisins vegna þess. Sú greining stendur yfir. Svo er það hitt húsnæðið sem ég minntist á áðan sem kallast Lögmannshlíð. Hún var byggð af Akureyrarbæ og eftir svokallaðri leiguleið. Þar greiðir ríkið leigu vegna 85% eignarhlutar af fyrirframgreiddu stofnkostnaðarverði.

Þetta er erfiður rekstur og eins og margítrekað hefur komið fram hér í ræðum í dag mun þeim fjölga sem munu njóta þess að búa á hjúkrunarheimilum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við horfum lengra en við höfum gert hingað til til að vita hvert við ætlum að fara og hvernig við ætlum að haga okkur í framtíðinni. Við getum t.d. rætt Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er ekki alveg skýrt hvenær fjármunir til rekstraraðila koma til þeirra. Þetta er allt mjög óljóst. Hugsanlega getur verið að ríkisvaldið þurfi að vanda sig dálítið betur þannig að þeir sem reka þessi heimili muni hafa einhvern fyrirsjáanleika. Þetta á ekki að þurfa að vera allt í járnum. Við skuldum heimilisfólki sem þar býr mun betri þjónustu.