151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[20:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjáraukalög og í ljósi atvinnumála og verðmætasköpunar þá er stefna okkar í Miðflokknum gagnvart eldri borgurum sú að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur þarf að bæta, það hefur verið rakið áður. Jafnframt þarf að koma á sveigjanlegum starfslokum án skerðingar ellilífeyristekna og að lífeyrir tryggi lágmarkslaun. Löngu er ljóst að skerðingar á bótum almannatrygginga fara fram úr öllu hófi. Þetta fyrirkomulag er í senn til þess fallið að letja eldra fólk í því að bæta hag sinn með aukinni vinnu í krafti eðlilegrar sjálfsbjargarviðleitni og hvetja til svartrar atvinnustarfsemi. Af hálfu fjármálaráðuneytisins hefur því verið haldið fram að kostnaður ríkissjóðs við að slaka á klónni í þessu efni nemi milljörðum króna. Þær fullyrðingar styðjast ekki við gildan rökstuðning. Fyrir liggja útreikningar um fjárhagslega stöðu aldraðra sem unnir voru fyrir Félag eldri borgara fyrir ekki svo löngu. Þar er ítarlega rökstutt að kostnaður ríkissjóðs við að fella á brott 100.000 kr. viðmið sé ekki svo mikið sem 1 kr. Skýrsluhöfundur dregur fram að beinir skattar auk veltuskatta vegi upp hugsanlegan kostnað af því að fella þetta brott. Þar við bætast samfélagsleg áhrif sem felast í þátttöku á vinnumarkaði og virkni í samfélaginu en slíkt er talið hafa ótvírætt gildi í lýðheilsulegu tilliti. Vinnan göfgar, eins og svo oft hefur verið sagt. Við þetta bætist að lífeyrir almannatrygginga er skertur vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Eldri borgarar og aðrir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur bíða enn eftir réttlætinu sem þeim var lofað fyrir um áratug um að skerða ekki lífeyrisgreiðslur.

Skerðingar og aðrir neikvæðir hvatar hafa mikil og óæskileg áhrif á sjálfsbjargarhvöt fólks. Óeðlilegar skerðingar hafa einnig neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Miðflokkurinn leggur áherslu á að fast verði tekið á skerðingum bóta eins og hér hefur verið rakið. Þessar skerðingar hafa grafið undan tiltrú á lífeyriskerfinu og skilja aldrað láglaunafólk eftir jafnsett og fólk sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð á starfsævinni.

Kannanir meðal eldri borgara hafa sýnt að nær öllum, eða 97%, finnst að auðvelda ætti þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur að vera virkir á atvinnumarkaði. Atvinnuþátttaka eldri borgara færir þeim aukna virkni í samfélaginu. Aukin virkni stuðlar að vellíðan og lífsánægju. Því virkara sem eldra fólk er því meiri lífsgæði upplifir það. Stjórnvöld verða að vera meðvituð um þetta. Þau verða að vera meðvituð um stöðu og væntingar og viðhorf aldraðra þegar kemur að atvinnuþátttöku og jákvæðum áhrifum þess á líðan eldri borgara.

Eldri borgarar eru betur á sig komnir líkamlega í dag en áður var og fólk getur vænst þess að lifa lengur. Þess vegna er þörf á því að koma til móts við aldraða til að þeir haldi áfram að vera virkir í samfélaginu og haldi sjálfræði og sjálfstæði eins lengi og kostur er. Þeir sem hafa áhuga og getu til að vinna lengur ættu að fá frekari tækifæri og meiri sveigjanleika um starfslok og atvinnuþátttöku eftir að taka lífeyris hefst.

Eldra starfsfólk hefur oft mikla þekkingu og starfsreynslu sem getur nýst vel á mörgum vinnustöðum og er bæði hagur fyrir þá sem vilja halda áfram og vera á vinnumarkaði sem og fyrir samfélagið í heild sinni. Rannsóknir hafa sýnt að það að vera í félagsskap með öðru fólki getur veitt eldra fólki mikla ánægju.