151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir.

[12:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Síðastliðinn mánudag spurðist ég fyrir um skýrslu vegna leghálsskimana sem beðið hefur verið eftir í um 12 vikur, held ég, eða 13, alla vega síðan í febrúar, þannig að þetta eru orðnar ansi margar vikur. Þá fengum við þau svör, virðulegur forseti, frá forseta að skýrslan kæmi daginn eftir. Ekkert bólaði á skýrslunni daginn eftir og þegar við spurðumst fyrir á miðvikudegi var okkur tjáð að skýrsla myndi berast daginn eftir, sem var þá í gærdag, og enn bólar ekkert á umræddri skýrslu sem ku vera í prófarkalestri.

Nú veit ég ekki hvort umrædd skýrsla er mörg þúsund blaðsíður en að það taki hæstv. heilbrigðisráðherra viku að skila skýrslu úr prófarkalestri eykur ekki traust eða trúverðugleika á því að umrædd skýrsla sé skrifuð (Forseti hringir.) þannig að hún sé (Forseti hringir.) óháð og lýsi stöðunni eins og hún raunverulega er.