151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

skýrsla um leghálsskimanir.

[12:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við gætum þá séð fyrir okkur að ráðherra sem skilar skýrslum of seint fái minni tíma í ræðustól til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það gæti kannski verið sektin. En ég tek undir það sem hefur komið hérna fram líka varðandi mikilvægi eftirlitshlutverks Alþingis sem er verið að skerða gríðarlega með þessum vinnubrögðum hæstv. heilbrigðisráðherra. Í 14 vikur hefur hún legið á skýrslu þar sem spurningarnar eru: Hvaða forsendur lágu að baki ákvörðun þinni um tiltekið verk? Og að það þurfi 14 vikur til að svara þessu er auðvitað algerlega ótækt og að það þurfi heila fjóra daga í að prófarkalesa þessa skýrslu er auðvitað slík fásinna að við vitum öll af hverju þetta er ekki að koma hingað inn. Það er verið að vonast til þess að þingið verði farið heim þegar skýrslan er komin. Það er bara þannig.

Mig langar aðeins að segja, (Forseti hringir.) hafandi hlustað á umræður í breska þinginu þar sem ráðherrar (Forseti hringir.) þurfa að standa fyrir máli sínu fyrir framan allra augu, að þá held ég (Forseti hringir.) að það væri líka gott að við tækjum upp einhvers konar slíkt fyrirbrigði hér í Alþingishúsinu.