151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þingsköp Alþingis.

850. mál
[12:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem var undirbúið eftir að sú ákvörðun var tekin að boða til kosninga þann 25. september, sem rædd var við formenn allra þeirra flokka sem fulltrúa áttu á Alþingi síðastliðið sumar.

Með frumvarpinu er lagt til að yfirstandandi löggjafarþing, sem er 151. löggjafarþing, verði framlengt til 25. september 2021, enda hefur kjördagur vegna almennra alþingiskosninga verið ákveðinn þann dag með útgáfu og birtingu forsetabréfs um þingrof og almennar kosningar til Alþingis, samanber 24. gr. stjórnarskrárinnar. Setning reglulegs Alþingis 2021, sem væri þá 152. löggjafarþing, ætti að óbreyttu að fara fram 14. september næstkomandi. Verði þetta frumvarp að lögum frestast sú setning og þing mun í samræmi við 22. og 24. gr. stjórnarskrárinnar verða sett þegar forseti Íslands hefur stefnt Alþingi saman að afloknum alþingiskosningum.

Herra forseti. Í 1. mgr. 35. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um samkomudag reglulegs Alþingis. Þar segir að hann skuli vera 1. október ár hvert. Þeirri tímasetningu má hins vegar breyta með lögum, samanber ákvæði 2. mgr. sömu greinar. Slíkt var gert með lögum nr. 84/2011 þegar þingsköpum var breytt og samkomudagur hefur nú verið ákveðinn annar þriðjudagur í september og að óbreyttu þyrfti reglulegt Alþingi að koma saman þann dag. Ljóst er hins vegar að setning reglulegs Alþingis svo skömmu fyrir alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru 25. september næstkomandi kemur vart til greina. Kosningabarátta verður þá væntanlega í hámarki, svigrúm til reglulegra þingstarfa ekki fyrir hendi og sömuleiðis þyrfti þá að leggja fram fjárlagafrumvarp, sem ég myndi telja einkennilegt að gera af hálfu fráfarandi ríkisstjórnar, sem væri í raun marklaust plagg í ljósi þess að kosningar eru fram undan. Þessi breyting tekur því mið af því að ný ríkisstjórn leggi fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022 á fyrsta fundi haustþings á nýju kjörtímabili í samræmi við 42. gr. stjórnarskrárinnar, lög um þingsköp Alþingis og lög um opinber fjármál.

Herra forseti. Þar sem fyrirhugaðar alþingiskosningar munu fara fram áður en kjörtímabil alþingismanna rennur út, mánuði áður, er ljóst að rjúfa þarf þing á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar til að kalla fram kosningar. Tilkynning um þingrof felur í sér hina formlegu ákvörðun um kjördag og skulu alþingiskosningar fara fram innan 45 daga frá þeim tíma. Samkvæmt þessu er fyrst hægt að tilkynna um þingrof 12. ágúst næstkomandi ef miðað er við að alþingiskosningar fari fram 25. september. Eins og áður hefur verið rætt mun ég í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar leita atbeina forseta Íslands til að rjúfa þing sem kunngert yrði þá í fyrsta lagi 12. ágúst næstkomandi.

Ég vil árétta, herra forseti, að þingið getur starfað áfram þó að þingrof hafi verið tilkynnt, enda halda alþingismenn umboði sínu til kjördags, samanber 24. gr. stjórnarskrárinnar. Því er ekki útilokað að Alþingi yrði kvatt saman til framhaldsfunda í ágúst ef nauðsyn krefur til afgreiðslu mikilvægra þingmála algerlega óháð þessu máli. Komi til þess er þó, eins og jafnan í aðdraganda kosninga, gert ráð fyrir að þingfundum verði frestað með hæfilegum fyrirvara svo að stjórnmálaflokkum og frambjóðendum gefist eðlilegur tími til undirbúnings og þátttöku í kosningabaráttu.

Í frumvarpinu er loks áréttað að reglulegt Alþingi 2021, sem gert er ráð fyrir að sett verði að afloknum kosningum, skuli svo standa fram til reglulegs samkomudags Alþingis 2022, sem er þá annar þriðjudagur septembermánaðar það ár í samræmi við þingsköp Alþingis.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.