151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þingsköp Alþingis.

850. mál
[12:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Forsætisráðherra kallar fjárlög sem væru lögð fram rétt fyrir kosningar marklaust plagg. Það er einungis marklaust plagg ef núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að halda áfram eftir kosningar. Þess vegna skil ég þetta ekki, nema það sé einmitt áætlunin. Er það áætlunin, virðulegur forseti? Er það það sem er verið að segja okkur með þessu frumvarpi? Það var ríkisstjórn, það var hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, sem ákvað þessa dagsetningu fyrir kosningar á mjög óheppilegum tíma fyrir fjárlagaferlið. Að kalla fjárlög marklaust plagg rétt fyrir kosningar finnst mér dálítið áhugavert orðalag, verð ég að segja. Maður hefði haldið að það væri einmitt verið að framfylgja þeirri stefnu sem er sett í fjármálaáætlun í þeim fjárlögum og væntanlega áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarfi, varðandi hvernig næsta ár birtist. Það er ekkert nema heiðarlegt að gera það fyrir kosningar, myndi maður halda. En það er greinilega marklaust plagg. Ég átta mig ekki alveg á þessu.