151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

þingsköp Alþingis.

850. mál
[12:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Þetta mál snýst aðallega um slæmt val á dagsetningu fyrir kosningar. Rökin fyrir því að velja þessa dagsetningu en ekki seinni dagsetningu voru að þetta gæti sloppið áður en veður yrði slæmt. Ýmis dæmi eru um ansi slæmt veður fyrr í september þannig að þau rök duga skammt. Kosningardagsetningin 25. september, rétt rúmum mánuði fyrr en þær óvæntu kosningar sem við upplifðum 2016 og 2017, er upplýst val ríkisstjórnarinnar. Ferli ríkisfjármála gerir ráð fyrir að þingið byrji að afgreiða fjárlög og ræða um fjárlög í byrjun september og að það sé helst klárað í lok nóvember eða svo. Væntingarnar eru þær. Við glímdum við það tiltölulega erfiða vandamál 2016 og 2017 að taka við fjárlögum frá glænýrri ríkisstjórn — og meira að segja var bara starfsstjórn hér 2016 og fram í byrjun árs 2017 — þar sem við þurftum að fara í gegnum fjárlög á miklum handahlaupum. Það var ekki góð vinna. Niðurstaða þess að velja að halda kosningar á þessum tíma árs er að fjárlagavinnan verður einfaldlega á handahlaupum. Ef ný ríkisstjórn tekur við seinkar fjárlagaferlinu öllu um heilt ár. Í rauninni verður ekki hægt að taka tillit til kosningaáherslna og þess háttar fyrr en á árinu 2022 fyrir fjárlög ársins 2023. Annað er bara skyndivinna á handahlaupum. Ofan á það þarf líka að vinna að fjármálastefnu á þessum örstutta tíma.

Ég tel ekki vera ábyrgt að velja þessa dagsetningu. Ég tel ekki vera ábyrgt að sleppa því þar til eftir kosningar að sýna stöðu mála eins og þau líta út í fjárlögum samkvæmt uppfærðri þjóðhagsspá o.s.frv. Ef málið verður samþykkt held ég að fjárlaganefnd og þingið ætti samt að fá a.m.k. drögin að þeirri fjármálaáætlun sem verður unnin í sumar, að flokkar og fjárlaganefnd fái í hendurnar fyrir kosningar í haust grunninn að fjárlögunum eins og hann var unninn til að við getum lagt okkar áherslu og sýnt okkar fingraför á fjárlögunum út frá besta grunninum sem við höfum færi á. Það er hins vegar ekkert rosalega auðvelt því að fjárlögin hafa verið tiltölulega ógagnsæ á undanförnum árum. Þau hafa ekki verið rosalega hjálplegt fyrr en maður fær kannski eitthvað smá í viðbót frá ráðuneytunum um hvað hitt og þetta þýðir.

Ef stefna stjórnvalda er tekin til hliðar í fjárlögunum og bara grunnurinn er eftir gæti verið mjög hjálplegt að fá umfjöllun um efnahagsstöðuna, umfjöllun um stærðina á þeim lögbundnu verkefnum sem þarf að sinna þannig að fólk sjái það svigrúm sem er til að bregðast við þeim vandamálum sem við erum að glíma við dagsdaglega. Ég myndi telja það ábyrga afstöðu. Þótt við fáum ekki nauðsynlega fjárlög ríkisstjórnarinnar sem slík fáum við a.m.k. þetta skjal í hendurnar sem verður unnið í sumar og er grunnurinn að fjárlögum fyrir næsta ár til þess að við getum, og allir flokkarnir, notað það í kosningabaráttunni til að útskýra sýn okkar á það hvernig fjárlög komandi árs muni koma til með að líta út. Ég ætla alla vega að reyna að fá það í gegn í fjárlaganefnd. Ég á eftir að sjá það gerast og ég kalla einfaldlega eftir stuðningi hæstv. forsætisráðherra í því.