151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[12:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér með breytingartillögu við þetta annars ágæta frumvarp, breytingartillögu sem felur í rauninni í sér mun víðtækari og öflugri réttindi og hagræðingu fyrir neytendur. Ég ætla að lesa upp úr þessari stuttu greinargerð þar sem lagt er til að í lög um fasteignalán komi ný grein sem veiti neytendum heimild til að breyta eftirstöðvum verðtryggðra húsnæðislána í óverðtryggð lán. Þegar er til staðar sambærileg heimild í 3. mgr. 33. gr. laganna sem tekur til lána sem tekin eru í erlendum gjaldmiðli. Neytendur eru berskjaldaðir gagnvart skyndilegum gengissveiflum þegar lán eru tekin í erlendum gjaldmiðlum. Neytendur eru einnig berskjaldaðir gagnvart skyndilegri verðbólgu þegar lán þeirra eru verðtryggð. Því ættu sömu úrræði að standa neytendum til boða í báðum tilvikum.

Verði breytingartillaga þessi samþykkt, og svo frumvarpið svo breytt, munu neytendur geta óskað þess að lánveitandi bjóði upp á endurfjármögnun verðtryggðs láns með töku óverðtryggðs láns og er þá lánveitanda skylt að veita neytanda kost á slíkri endurfjármögnun, svo fremi sem önnur skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.

Þá vil ég, virðulegi forseti, tala um þau skilyrði en þau eru nú svo smátt skrifuð hérna að það er vandræðalegt, bæði fyrir mig og ykkur sem neyðist til að horfa á þetta, að sjá mig reyna að rýna í þetta. En í fyrsta lagi er talað um að lánið sé ekki í verulegum vanskilum þegar kemur til þess að neytandinn geti óskað eftir þessum úrræðum, í öðru lagi að heildarskuld neytanda hækki ekki við breytinguna, sem er ólíkt því sem nú er, og í þriðja lagi að greiðslubyrði neytanda hækki ekki. Þessi skilyrði þurfa að vera uppfyllt.

Eins og staðan er í dag, við vitum það, geta allir valið um það í upphafi, þegar þeir taka lán, hvort það er verðtryggt eða óverðtryggt. En staðreyndin er því miður sú, eins og við þekkjum flest, að flestir sem eru efnaminni leita í verðtryggðu lánin vegna þess að þau bera lægri greiðslubyrði til að byrja með. Hins vegar færist verðtryggingin og það sem á lánið bætist, sérstaklega eins og nú þegar koma verðbólguskot, í rauninni aftan á lánið. Þrátt fyrir að í byrjun sé hagstæðara fyrir lántakandann að taka verðtryggða lánið að því leyti til að það ber lægri greiðslubyrði og þeir efnaminni sækja frekar í það, þá því miður fer línan einungis upp á við hvað varðar greiðslubyrðina. Þegar kemur í endann á þessu verðtryggða láni get ég ekki einu sinni, og þið ekki heldur væntanlega, ímyndað mér hver upphæðin verður. En þetta er hinn margumtalaði svokallaði eitraði kokteill.

Hér er eingöngu verið að gera ráð fyrir því að neytendur sem þegar eru með verðtryggð lán geti ekki bara heldur eigi fullan og óskoraðan rétt gagnvart lánveitanda á að sækja um skuldaleiðréttingu eða skuldbreytingu þannig að verðtryggða lánið verði gert að óverðtryggðu og að viðkomandi beri við það hvorki aukinn kostnað né hærri greiðslubyrði og í raun og veru að hann eigi ekki, ef hann er ekki t.d. í miklum vanskilum og hlutirnir eru þokkalega eins og þeir eiga að vera gagnvart lánveitandanum, að þurfa að fara aftur í greiðslumat og allt það sem því fylgir. Eðli málsins samkvæmt hlýtur einstaklingurinn að vera bær til þess að halda áfram með lánið þótt í öðru formi sé. Ég tel, virðulegi forseti, að þessi stutta breyting sem hér er óskað eftir að verði gerð á þessu annars ágæta frumvarpi nái fram að ganga því að hún er einungis enn frekar til hagsbóta fyrir neytendur.